Raforkuþörf á Íslandi eykst líklega um u.þ.b. 1,7 TWst á tímabilinu 2017 og 2025. Sem er um 9% aukning frá þeirri raforkuþörf sem var 2017. Þessar tölur eru samkvæmt nýjustu spá Orkuspárnefndar. Áætlað er að aukningin skiptist eins og sýnt er í töflunni hér fyrir neðan.
Þetta er vel að merkja spá um líklega þróun næstu sjö árin. Sú þróun gæti orðið önnur. Þarna gæti t.d. sett strik í reikninginn að nú hefur kísilver United Silicon hætt starfsemi, eftir mjög stuttan rekstur. Þar með er sú eftirspurn farin. Mögulega er þó Landsvirkjun þegar búin að selja megnið af kísilorkunni til gagnavera, en eftirspurnin þaðan hefur orðið heldur meiri eða hraðari en búist var við fyrir nokkrum misserum.
Ekki er unnt að fullyrða hvaða áhrif þessar vendingar með kísilverið og gagnaverin munu hafa á raforkuþörfina. En miðað við tölur Orkuspárnefndar, þ.e. að eftir um sjö ár þurfi raforkuframleiðsla á Íslandi að verða um 9% meiri en hún var 2017, er stóra spurningin kannski hvaðan sú orka á að koma?
Til samanburðar má nefna að talan 1,7 TWst jafngildir um tveimur og hálfri Hvammsvirkjun. Um það hvaða virkjanir eru líklegastar til að mæta þessari auknu raforkueftirspurn verður fjallað í næstu grein.