Um aldamótin síðustu leit út fyrir að norska olíuævintýrið hefði náð hámarki. Og að þaðan í frá myndi framleiðslan minnka. En með aukinni vinnslu á jarðgasi og óvæntum fundi nýrra mjög stórra olíulinda á norska landgrunninu hefur þetta mikla efnahagsævintýri Norðmanna verið framlengt. Nú er þess vænst að olíu- og gasvinnslan muni aukast rólega fram til 2023. En eftir það muni hnignunin byrja. Og hún gæti orðið nokkuð hröð.
Umfang olíu- og gasvinnslunnar á norska landgrunninu er með ólíkindum. Einungis eitt ríki framleiðir meira af olíu og jarðgasi úr landgrunninu, en það er Saudi Arabía. Þar á eftir koma Noregur og Katar. Þegar litið er til höfðatölu ber Katar þarna höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir (einkum vegna risavaxinna gaslinda undir botni Persaflóans). Þar á eftir koma einmitt Norðmenn, ásamt nokkrum öðrum fámennum olíuframleiðendum eins og Brunei, Kuwait og Trinidad og Tobago. Engu að síður eru það Norðmenn sem eiga stærsta olíusjóðinn. Og reyndar eiga Norðmenn stærsta ríkisfjárfestingasjóð heimsins.
Það voru skemmtileg tímamót þegar verðmæti norska Olíusjóðsins fór yfir 1.000 milljarða USD á liðnu ári. Í dag er verðmætið nálægt 1.028 milljarðar USD. Þetta jafngildir því (m.v. fólksfjölda) að við Íslendingar ættum sparibauk með u.þ.b. 60 milljörðum USD (sem jafngildir um 6.500 milljörðum ISK) og það vel að merkja allt í erlendum gjaldeyri. Nú er bara að bíða og sjá hversu stór íslenski auðlindasjóðurinn verður. Og þá væntanlega með sínu sjávarauðlindagjaldi og Landsvirkjunarhagnaði.