Frá því í vor hefur 12,7% hluti í HS Orku verið til sölu. Sá sem vill selja er íslenskur fjárfestingasjóður sem kallast ORK, en hann er í eigu nokkurra íslenskra lífeyrissjóða og fleiri s.k. fagfjárfesta. Og nú berast fréttir um að búið sé að selja þessa eign ORK. Kaupandinn er sagður vera svissneskt félag, DC Renewable Energy, sem er nátengt bresku félagi sem vill leggja rafmagnskapal milli Bretlands og Íslands.
Umrædd kaup svissneska DC Renewable Energy á 12,7% eignarhluta í HS Orku eru háð því að aðrir eigendur HS Orku nýti ekki forkaupsrétt sinn. HS Orka er þriðji stærsti raforkuframleiðandinn á Íslandi og stærsti einstaki viðskiptavinur fyrirtækisins er álver Norðuráls (Century Aluminum) í Hvalfirði. Þá má nefna að HS Orka á stóran hlut í Bláa lóninu í Svartsengi.
Sá sem kaupir í HS Orku sér bersýnilega tækifæri í því að hækka raforkuverð HS Orku til álvers Norðuráls, en orkuverðið þar kemur einmitt til endurskoðunar eftir einungis nokkur ár. Við þetta bætist að gangi kaupin eftir verður 12,7% hluti í HS Orku í eigu fyrirtækis sem er nátengt breska Atlantic SuperConnection, sem stefnir að því að leggja sæstreng milli Bretlands og Íslands.
Lykilmaðurinn að baki báðum fyrirtækjunum, DC Renewable Energy og Atlantic SuperConnection (Disruptive Capital), er Edmund Truell. Hann segir fjárfestingastefnu sína byggjast á því að „exploit dislocations in markets and unlock value from complex situations using a Get Rich and Stay Rich strategy“.
Höfundur þessarar stuttu greinar er viss um að það yrði ábatasamt fyrir Íslendinga og íslenskan efnahag að selja raforku til Bretlands, rétt eins og það er skynsamlegt fyrir okkur að flytja út fisk og sjávarafurðir. Um leið er mikilvægt að við sjálf stýrum því hvernig svona sæstrengsverkefni verður unnið og framkvæmt. Og að það verði fyrst og fremst til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina.
Það hvernig Disruptive Capital og Atlantic SuperConnection hefur kynnt sæstrengsverkefnið er um margt nokkuð sérkennilegt. Og það er nánast útilokað að sæstrengur Atlantic SuperConnection geti verið kominn í gagnið strax 2025, líkt og fyrirtækið hefur kynnt. En þó lengra verði í að slík viðskipti raungerist, er bersýnilegt að Truell trúir á verkefnið. Og með kaupum á umtalsverðum hlut í HS Orku virðist hann annað hvort vera að nálgast raforku fyrir sæstrenginn eða að reyna að koma sér í athyglisverða samningsstöðu gagnvart Norðuráli. Nema að hvort tveggja sé.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi kaup verða að veruleika eða hvort forkaupsréttarhafar ganga þarna inn í kaupin. En kannski væri skynsamlegt fyrir Norðurál að byrja strax að svipast um eftir annarri raforku í stað þeirrar sem álverið kaupir nú af HS Orku?