Það sem skiptir arðsemi sæstrengs máli er hvort það náist samningur við bresk stjórnvöld um orkuverð sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku kemur fram að það er þrisvar til fimm sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15 til 35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra, eða allt að sex til átta sinnum hærra.
Ofangreindur texti er úr nýlegri grein á vef Viðskiptablaðsins. Sökum þess að þarna er vitnað í þann sem hér slær á lyklaborð, er vert að taka eftirfarandi fram:
Arðsemistækifæri Íslands ekki hið sama og var
Fyrir nokkrum árum buðu bresk stjórnvöld geysihátt verð fyrir raforku frá nýrri kolefnislítilli raforkuframleiðslu. Á þeim tíma voru góðar líkur á að þetta gæti nýst sem mikið hagnaðartækifæri fyrir íslensk orkufyrirtæki og þá einkum Landsvirkjun með allt sitt stýranlega vatnsafl.
Það tækifæri var ekki nýtt af hálfu íslenskra stjórnvalda þá. Og í dag er staðan mjög breytt frá því sem þá var. Kostnaður vindorku hefur farið hratt lækkandi. Við Bretland og strendur meginlands Evrópu eru nú reistir vindmyllugarðar þar sem kostnaðurinn er orðinn svo lítill að það mun breyta mjög samsetningu raforkuframleiðslu í slíkum löndum.
Þessi þróun hefur óhjákvæmilega margvísleg áhrif. M.a. eru áhrifin þau að sæstrengur milli Íslands og Bretlands er ekki lengur það stóra hagnaðartækifæri fyrir Ísland sem var. Vissulega er ennþá líklegt að unnt væri að fá töluvert hærra verð fyrir íslenska raforku selda til Bretlands heldur en t.a.m. það verð sem stóriðjan hér greiðir. En möguleikinn á sexföldu eða áttföldu verði er horfinn. Segja má að sá möguleiki hafi rokið útí veður og vind!
Á hvers forræði yrði strengurinn?
Forsendur sæstrengs eru sem sagt gjörbreyttar frá því sem var fyrir nokkrum árum. Sæstrengsverkefnið er að vísu ennþá tækifæri fyrir Ísland sem vert er að skoða. En í dag liggur mesta hagnaðarvonin sennilega ekki hjá Landsvirkjun eða öðrum orkufyrirtækjum, heldur hjá eiganda sæstrengsins. Þess vegna er orðið áríðandi að íslensk stjórnvöld geri það að höfuðatriði málsins að tryggja með hvaða hætti þau geti stýrt arðsemi sæstrengs. Og fastsetji slíka löggjöf áður en slíkt verkefni verður að veruleika.
Fordæmi Norðmanna áhugavert
Einn möguleiki er auðvitað að innviðir eins og sæstrengir séu í eigu íslensks ríkisfyrirtækis. Það væri sambærileg leið eins og á við um eignarhald norska Statnett í öllum sæstrengjum Norðmanna sem lagðir hafa verið til þessa. Svo stórt verkefni kann þó t.a.m. að vera Landsneti ofviða (þar að auki er Landsnet ekki ríkisfyrirtæki).
Þess í stað væri mögulega unnt að fara svipaða leið eins og Norðmenn hafa gert vegna gaslagna sinna í Norðursjó. Þar hafa einkafyrirtæki fengið að fjárfesta í gaslögnunum sem tengja norsku gasvinnslusvæðin við Bretland og meginland Evrópu. En norska ríkið ræður flutningsgjaldinu og stjórnar í reynd arðsemi innviðanna.
Þetta er leið Norðmanna til að tryggja að norska þjóðin fái sem mest eða a.m.k. sanngjarnan hlut af þeim arði sem auðlindanýtingin skapar og kemur um leið í veg fyrir að fyrirtæki sem ræður yfir innviðum misnoti þá aðstöðu. Það er þjóðhagslega mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki þetta álitamál til meiri og nákvæmari skoðunar en verið hefur.
Til athugunar: Höfundur vinnur að vindorkuverkefnum á Íslandi í samstarfi við norrænt orkufyrirtæki. Þau verkefni miðast eingöngu við innlendan raforkumarkað (það gæti eðlilega breyst ef sæstrengur yrði lagður). Höfundur álítur að sæstrengur kunni að vera skynsamlegt verkefni, en slíkt verkefni þarfnast meiri skoðunar og umfjöllunar áður en hægt er að fullyrða um ágæti þess eða ómöguleika.