Að loknu rekstrarárinu 2017 tilkynnti Landsvirkjun um mettekjur það ár. Sökum þess að álverð var hærra árið 2018 heldur en 2017 er líklegt að tekjur Landsvirkjunar vegna rekstrarársins 2018 hafi svo verið ennþá hærri en var metárið 2017. Væntanlega mun tilkynning Landsvirkjunar um tekjur og afkomu ársins 2018 (og um selt orkumagn) brátt birtast.
Mikilvægasta ástæða þess núna að líklegt er að tekjur Landsvirkjunar vegna 2018 slái metið frá 2017 er einföld: Hærra álverð. Samningar Landsvirkjunar við Norðurál (Century Aluminum) og Alcoa (Fjarðaál) eru með þeim hætti að þar sveiflast raforkuverðið eftir því hvert verð er á áli. Raforkuverðið til álvers ISAL (Rio Tinto) er aftur á móti oftast mjög stöðugt því orkuverðið þar er nú tengt þróun bandarískrar neysluvístölu (CPI), vegna nýs samnings þar um frá 2010.
Þess ber þó að geta að við vitum ekki enn hversu mikið raforkumagn Landsvirkjun seldi á liðnu ári (2018). Ef álverin hafa haldið aftur af framleiðslu sinni, sem er reyndar ekki mjög líklegt, bitnar það á tekjum Landsvirkjunar. Aðrir óvissuþættir um selt orkumagn og verð, eru t.d. gjaldþrot kísilversins í Helguvík og afurðaverð járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Aukin raforkusala til gagnavera styrkir tekjugrunn Landsvirkjunar, en mikil leynd ríkir um raforkuverðið í þeim samningum. Samantekið verður að teljast líklegt að tekjur Landsvirkjunar vegna 2018 slái met.
Á stöplaritinu hér til hliðar má sjá þróun á raforkuverði Landsvirkjunar til álveranna allt frá árinu 2008. Það ár var álverð geysihátt og því varð raforkuverðið sem Landsvirkjun fékk einnig hátt. Eftir verulega verðlækkun á áli er álverð nú aftur nokkuð viðunandi. Eðlilega er þó alltaf mikil óvissa um verðþróun á áli. Það er því vandi að spá um tekjur Landsvirkjunar árið 2019. En það er annar handleggur.