Airbus hefur ákveðið að hætta framleiðslu á stærstu farþegaþotu heims; risaþotunni A380. Þetta þykir mér miður. Bæði sem flugáhugamanni og vegna þess að einhver besta ferðareynsla mín fram til þessa er einmitt langflug með Airbus A380.
Flugreynsla mín með þessari vél er reyndar ekki mikil. Einungis tvær ferðir - en vel að merkja nokkuð langar ferðir. Annars vegar frá London til Melbourne og hins vegar frá Sydney til London. Í báðum tilvikum var millilent í Dubai, enda er flugleiðin milli London og austurstrandar Ástralíu nokkru lengri en sú hámarksvegalengd sem þessi magnaða vél getur farið á einni tankfyllingu.
Ástæða þess að ég féll gjörsamlega fyrir Airbus A380 er fyrst og fremst samanburðurinn við aðra fornfrægari risaþotu; þá bandarísku Boeing 747. Skömmu áður en ég ferðaðist með evrópska undratækinu A380 hafði ég einmitt líka flogið milli London og Sydney með reynsluboltanum 747 (þá með millilendingu í Singapore). Og samanburðurinn var 747 mjög í óhag.
Þarna kom margt til. Airbusvélin hjá Qantas var auðvitað miklu nýrri en gamla Boeing risaþotan hjá British Airways og því voru sætin og allar innréttingar miklu þægilegri í Airbusvélinni. Það sem þó hreif mann hvað mest voru flugeiginleikarnir og hljóðvistin.
Inni í A380 rétt svo heyrðist smávegis suð frá ofsalegum hreyflunum, en í 747 vélinni mátti lýsa hreyflahljóðinu sem nánast óþægilega háværu á svo löngu flugi (um 22 klukkustundir á lofti). Og ofboðslegur krafturinn í flugtakinu og dásamlega mjúkar hreyfingarnar í lendingu evrópsku vélarinnar fengu mann hreinlega til hrista höfuðið yfir skrapatólinu sem 747 virtist vera í samanburðinum.
Breiðþotur eru heillandi tækniundur. Og geta flutt hreint ótrúlegan fjölda fólks. Þegar A380 er innréttuð þannig að almenna farrýmið er í stærri kantinum, tekur vélin um 850 farþega. Þegar slatti er af ýmsum betri sætum í vélinni er hámarksfjöldi farþega oft nálægt 500. Boeing 747 er með töluvert færri sæti; oft fyrir á bilinu 400 til 650 farþega. Báðar þessar vélar eru á tveimur hæðum og með fjóra hreyfla. Og þetta eru tvær stærstu farþegaþotur heims. Stærsta útfærslan af 747 er örlítið lengri en A380, en engu að síður er 747 minni vél.
Já - því miður hefur nú verið ákveðið að hætta framleiðslunni á A380 og verður sú síðasta afhent kaupandanum árið 2021. Sem þýðir að framleiðslusaga A380 verður einungis um fimmtán ár! Þar með er augljóst að þrátt fyrir að vera fádæma þægilegt farartæki verður saga A380 langt frá því að verða jafn löng og mikilvæg eins og saga 747, sem nú hefur verið framleidd í fimm áratugi og er enn í nokkuð góðum gír.
Það stefnir að vísu líka í að 747 hverfi smám saman af sviðinu. Því nýjar tveggja hreyfla minni farþegaþotur virðast álitnar hagkvæmari; í dag eru sparneytni og góð sætanýting alger lykilatriði í farþegaflugi. Þar verður líklega 787 Dreamliner hvað fremst í flokki næstu áratugina á lengri leiðum, en slíkar vélar fljúga nú t.d. beint milli London og Perth á vesturstönd Ástralíu. Kannski mun næsta kynslóð mannkyns aldrei fá tækifæri til að fljúga í sannkallaðri risaþotu!
Í lokin má geta þess að eftir hið hroðalega flugslys þegar Airbus A330 frá Air France hrapaði í Atlantshaf í júníbyrjun 2009, varð ég ákveðinn í því að fljúga aldrei með flugvél þar sem flugmennirnir hafa ekki almennilegt stýri (yoke), heldur „bara“ pinna (joy-stick eða öllu heldur s.k. side-stick). Það er óhugnarleg lesning hvernig flugmenn frönsku vélarinnar hömuðust báðir á sitt hvorum pinnanum í ofrisinu áður en vélin skall í Atlantshafið.
Á endanum stóð ég ekki við það að fljúga aldrei í slíkri „tölvuleikjavél“ með stýripinna. Airbus 380 er einmitt stærsta vél heims með slíkan pinna. Og eftir þá flugreynslu hurfu fordómarnir og í dag veit ég svo sannarlega hvaða flugvél er mesta tækniundrið í mínum huga. Drottningin Airbus 380 hefur senn verið boðuð látin; lengi lifi drottningin! Sem reyndar bara rétt svo náði því að verða táningur og því kannski varla nema prinsessa.