Á nýliðnum ársfundi sínum kynnti Landsvirkjun endurhannaðan vindmyllugarð ofan Búrfells. Þar kom fram að staðsetningu vindmylla er hnikað til. Endurhönnunin er í samræmi við þær hugmyndir sem Landsvirkjun (LV) kynnti á fundi Sambands íslenska sveitarfélaga s.l. sumar (2018), sem greinarhöfundur hefur áður minnst á. Í þessari grein er fjallað um þessa tilfærslu á s.k. Búrfellslundi með hliðsjón af því sem fram kom á nýliðnum ársfundi LV.
Til samanburðar á staðsetningartillögum LV geta lesendur skoðað annars vegar þetta kort sem sýnir eina af þremur fyrri tillögum LV um staðsetningu á allt að 200 MW vindmyllugarði þarna ofan Búrfells og hins vegar þetta kort sem sýnir tillögu að nýrri staðsetningu. Munurinn á þessum tveimur útfærslum felst einkum í því að svæðið sem ætlað er undir vindmyllur hefur verið minnkað. Ásamt því að allar vindmyllurnar verði vestan (eða norðan) vegarins þarna upp frá Þjórsárdal og inn á Sprengisandsleið.
Í kynningu LV nú á ársfundinum kom m.a. fram að þó svo minna svæði fari undir vindmyllur samkvæmt nýju staðsetningunni sé hagkvæmni vindmyllugarðsins óbreytt frá fyrri tillögum. Ekki var útskýrt nánar af hverju þetta minna svæði nær að skila jafn mikilli hagkvæmni eins og hið fyrra stærra svæði (sem ætti að geta rúmað mun meira afl). Á fundinum kom heldur ekki fram hversu margar eða stórar vindmyllurnar eiga að verða. Þannig að það er ekki ljóst hvort endurhönnuðum Búrfellslundi er ætlað að verða 200 MW, eins og upphaflega var ráðgert, eða eitthvað minni.
Eins og áður sagði þá felur þessi tilfærsla það í sér að allar vindmyllurnar verði vestan (eða norðan) vegarins þarna upp frá Þjórsárdal. Tilgangurinn með því virðist einkum vera sá að þá muni vindmyllurnar síður trufla vegfarendur. A.m.k. ekki þegar þeir horfa austur (eða suður) til Heklu.
Í fyrri tillögum LV voru vindmyllur staðsettar milli vegarins og Heklu, líkt og sjá má á myndinni hér til hliðar sem sýnir eina af fyrri útfærslunum. Í nýju tillögunni eru vindmyllurnar allar staðsettar vestan (norðan) vegarins. Sem sagt trufla ekki útsýnið frá veginum til Heklu. En auðvitað hafa svona stór mannvirki alltaf mikil sjónræn áhrif. Og eftir sem áður kann staðsetning vindmylla á þessu fjölfarna ferðamannasvæði við mörk Miðhálendisins áfram að vera umdeild. Í þessu sambandi má vísa til álits Skipulagsstofnunar á upphaflegum áætlunum LV um 200 MW Búrfellslund:
Úr áliti Skipulagsstofnunar
Eftirfarandi texti (skáletraður) er úr áliti Skipulagsstofnunar á upphaflegum tillögum Landsvirkjunar um þrjár útfærslur á 200 MW vindmyllugarði þarna ofan Búrfells
Fyrirhugað framkvæmdasvæði er hluti víðáttu sem afmarkast af Sauðafelli og Heklu í suðri, Búrfelli og Skeljafelli í vestri, Sandafelli og Stangarfjalli í norðri og Valafelli í austri. Það liggur á mörkum láglendis og hálendis og svæða með manngerða og náttúrulega ásýnd.
Að stærstum hluta liggur það innan marka miðhálendis Íslands, en um skipulagsmál miðhálendisins er mörkuð sérstök stefna í landsskipulagsstefnu. Samkvæmt landsskipulagsstefnu skal standa vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og skal uppbygging innviða taka mið af sérstöðu þess […]
Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að áformuð framkvæmd við 200 MW vindorkuver við Búrfell sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag og víðerni auk ferðaþjónustu og útivistar. […] Fyrir liggur að framkvæmdin er í biðflokki tillögu að rammaáætlun og fellur illa að áherslum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 á vernd víðerna og landslagsheilda […]
Í ljósi framangreinds um skipulagslega stöðu verkefnisins sem og niðurstöður mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar telur Skipulagsstofnun tilefni til að endurskoða áform um uppbyggingu 200 MW vindorkuvers við Búrfell. Niððurstöður um mikil umhverfisáhrif gefa, að mati stofnunarinnar, tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði henta betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kann að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging á betur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla.
Hvað mun Skipulagsstofnun segja við endurhönnuninni?
Í áliti sínu lagði Skipulagsstofnun sem sagt til að þarna yrði hugað að færri og lægri vindmyllum en LV upphaflega áformaði eða að þeim yrði fundinn annar staður. Vegna þessara sjónarmiða Skipulagsstofnunar má geta þess að það er einfalt að fækka myllunum. Og færa þær aðeins til, líkt og LV hefur nú gert. Aftur á móti er fjarstæðukennt að lækka þær. Það er því vandséð að LV geti að öllu leyti orðið við umræddum atugasemdum Skipulagsstofnunar. Hver niðurstaða stofnunarinnar verður um endurhannaðan vindmyllugað LV ofan Búrfells á eftir að koma í ljós.
Framangreindar vangaveltur Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu og það hvort önnur landsvæði henti betur fyrir „uppbyggingu af þessu tagi“ sýnir kannski að setja þurfi skýrari ákvæði um það í lög hvar ekki megi staðsetja vindmyllugarða. Og þá yrði sennilega nærtækast að undanskilja friðuð svæði og eftir atvikum Miðhálendið eða tiltekna hluta þess. Þarna er verk að vinna fyrir stjórnvöld. Um leið er vert að hafa í huga að íslenskir vindmyllugarðar verða líklega ódýrasta tegund nýrra raforkumannvirkja. Uppbygging íslenskrar vindorku gæti því veitt hagkvæma möguleika á að friða fleiri vatnsföll og jarðvarmasvæði. Ef það er leið sem stjórnmálamönnum og landsmönnum líst á að fara.