c

Pistlar:

23. mars 2019 kl. 19:00

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Endurhannaður vindmyllugarður ofan Búrfells

Á nýliðnum ársfundi sínum kynnti Lands­virkjun endur­hann­aðan vind­myllu­garð ofan Búr­fells. Þar kom fram að stað­setn­ing­u vindmylla er hnik­að til. End­ur­hönn­un­in er í sam­ræmi við þær hug­mynd­ir sem Lands­virkjun (LV) kynnti á fundi Sam­bands íslenska sveitarfélaga s.l. sumar  (2018), sem  grein­ar­höf­und­ur hef­ur áður minnst á. Í þess­ari grein er fjall­að um þessa til­færslu á s.k. Búr­fells­lundi með hlið­sjón af því sem fram kom á ný­liðn­um árs­fundi LV.

Til saman­burðar á stað­setn­ingar­til­lög­um LV geta les­end­ur skoð­að annars vegar þetta kort sem sýn­ir eina af þrem­ur fyrri til­lög­um LV um stað­setn­ingu á allt að 200 MW vind­myllu­garði þarna ofan Búr­fells og hins vegar þetta kort sem sýn­ir til­lögu að nýrri stað­setn­ing­u. Mun­ur­inn á þess­um tveim­ur út­færsl­um felst eink­um í því að svæð­ið sem ætl­að er und­ir vind­myll­ur hef­ur ver­ið minnk­að. Ásamt því að allar vind­myll­urnar verði vest­an (eða norð­an) veg­ar­ins þarna upp frá Þjórs­ár­dal og inn á Sprengi­sands­leið.

Í kynn­ingu LV nú á ársfundinum kom m.a. fram að þó svo minna svæði fari undir vind­myll­ur sam­kvæmt nýju stað­setn­ing­unni sé hag­kvæmni vind­myllu­garðs­ins óbreytt frá fyrri til­lög­um. Ekki var útskýrt nán­ar af hverju þetta minna svæði nær að skila jafn mik­illi hag­kvæmni eins og hið fyrra stærra svæði (sem ætti að geta rúm­að mun meira afl). Á fund­in­um kom held­ur ekki fram hversu marg­ar eða stór­ar vind­myll­urnar eiga að verða. Þann­ig að það er ekki ljóst hvort end­ur­hönn­uð­um Búr­fells­lundi er ætl­að að verða 200 MW, eins og upp­haf­lega var ráðgert, eða eitthvað minni.

Eins og áður sagði þá felur þessi tilfærsla það í sér að allar vind­myll­urnar verði vest­an (eða norð­an) veg­ar­ins þarna upp frá Þjórs­ár­dal. Til­gang­ur­inn með því virð­ist einkum vera sá að þá muni vind­myll­urnar síð­ur trufla veg­far­endur. A.m.k. ekki þeg­ar þeir horfa aust­ur (eða suð­ur) til Heklu.

LV-Burfellslundur_Burfell-Wind-Farm

Í fyrri til­lög­um LV voru vind­myll­ur stað­sett­ar milli veg­ar­ins og Heklu, líkt og sjá má á mynd­inni hér til hlið­ar sem sýn­ir eina af fyrri út­færsl­unum. Í nýju til­lög­unni eru vind­myll­urnar all­ar stað­sett­ar vest­an (norð­an) veg­ar­ins. Sem sagt trufla ekki út­sýn­ið frá veg­in­um til Heklu. En auð­vit­að hafa svona stór mann­virki allt­af mik­il sjón­ræn áhrif. Og eft­ir sem áður kann stað­setn­ing vind­mylla á þessu fjöl­farna ferða­manna­svæði við mörk Mið­há­lendis­ins áfram að vera um­deild. Í þessu sam­bandi má vísa til álits Skipu­lags­stofn­un­ar á upp­haf­leg­um áætl­unum LV um 200 MW Búr­fells­lund:

Úr áliti Skipu­lags­stofn­unar

Eftir­far­andi texti (ská­letrað­ur) er úr áliti Skipu­lags­stofn­un­ar á upp­haf­leg­um til­lög­um Lands­virkj­un­ar um þrjár út­færslur á 200 MW vind­myllu­garði þarna ofan Búrfells

Fyrirhugað framkvæmda­svæði er hluti víðáttu sem af­mark­ast af Sauða­felli og Heklu í suðri, Búr­felli og Skelja­felli í vestri, Sanda­felli og Stang­ar­fjalli í norðri og Vala­felli í austri. Það ligg­ur á mör­kum lág­lend­is og hálend­is og svæða með mann­gerða og nátt­úru­lega ásýnd.

Að stærst­um hluta ligg­ur það inn­an marka miðhálendis Ís­lands, en um skipu­lags­mál miðhálend­is­ins er mörk­uð sér­stök stefna í lands­skipu­lags­stefnu. Sam­kvæmt lands­skipu­lags­stefnu skal standa vörð um nátt­úru og lands­lag miðhálend­is­ins vegna nátt­úru­vernd­ar­gildis og mik­il­vægis fyr­ir úti­vist og skal upp­bygg­ing inn­viða taka mið af sérstöðu þess […]

Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur ver­ið hér að fram­an er það nið­ur­staða Skipu­lags­stofn­un­ar að áform­uð fram­kvæmd við 200 MW vind­orku­ver við Búr­fell sé lík­leg til að hafa veru­leg áhrif á lands­lag og víðerni auk ferða­þjón­ustu og úti­vist­ar. […] Fyrir ligg­ur að fram­kvæmd­in er í biðflokki til­lögu að ramma­áætlun og fell­ur illa að áhersl­um Lands­skipu­lags­stefnu 2015-2026 á vernd víð­erna og land­slags­heilda […]

Í ljósi framangreinds um skipu­lags­lega stöðu verk­efnis­ins sem og niður­stöður mats á um­hverf­is­áhrif­um fram­kvæmd­ar­inn­ar tel­ur Skipu­lags­stofn­un til­efni til að end­ur­skoða áform um upp­bygg­ingu 200 MW vind­orku­vers við Búr­fell. Niðður­stöð­ur um mikil um­hverf­is­áhrif gefa, að mati stofn­un­ar­inn­ar, til­efni til að skoða hvort önn­ur land­svæði henta bet­ur fyr­ir upp­bygg­ingu af þessu tagi og um­fangi. Þá kann að vera til­efni til að skoða hvort um­fangs­minni upp­bygg­ing á bet­ur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vind­mylla.

Hvað mun Skipulagsstofnun segja við endurhönnuninni?

Í áliti sínu lagði Skipu­lags­stofnun sem sagt til að þarna yrði hug­að að færri og lægri vind­myll­um en LV upp­haf­lega áform­aði eða að þeim yrði fund­inn ann­ar stað­ur. Vegna þess­ara sjón­ar­miða Skipu­lags­stofn­unar má geta þess að það er ein­falt að fækka myll­un­um. Og færa þær að­eins til, líkt og LV hefur nú gert. Aftur á móti er fjar­stæðu­kennt að lækka þær. Það er því vand­séð að LV geti að öllu leyti orð­ið við um­rædd­um atuga­semd­um Skipu­lags­stofn­unar. Hver nið­ur­staða stofn­un­arinn­ar verð­ur um end­ur­hann­aðan vind­myllu­gað LV ofan Búr­fells á eftir að koma í ljós.

Framangreindar vanga­veltur Skipu­lags­stofn­unar um lands­skipu­lags­stefnu og það hvort önnur land­svæði henti bet­ur fyr­ir „upp­bygg­ingu af þessu tagi“ sýnir kannski að setja þurfi skýr­ari ákvæði um það í lög hvar ekki megi stað­setja vind­myllu­garða. Og þá yrði senni­lega nær­tæk­ast að und­an­skilja friðuð svæði og eftir atvik­um Mið­há­lend­ið eða til­tekna hluta þess. Þarna er verk að vinna fyrir stjórn­völd. Um leið er vert að hafa í huga að íslenskir vind­myllu­garðar verða líklega ódýr­asta teg­und nýrra raf­orku­mann­virkja. Upp­bygg­ing ís­lenskrar vind­orku gæti því veitt hagkvæma mögu­leika á að friða fleiri vatns­föll og jarð­varma­svæði. Ef það er leið sem stjórn­mála­mönn­um og lands­mönn­um líst á að fara.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.
Meira