Þeir vindmyllugarðar sem nú eru byggðir eru margir hverjir með vindmyllur þar sem hver og ein er um þrjú eða 3,5 MW. Það er stórt skref frá því sem var fyrir einungis nokkrum árum þegar hámarksafl hverrar vindmyllu var oft um eða undir 2 MW.
Stærri vindmyllur auka hagkvæmnina. Og stækkandi hverflar og vindmyllur hafa nú þegar gert það að verkum að vindorka á sumum svæðum í heiminum er orðin hagkvæmasta tegund raforkuframleiðslu. Líklegt er að í mörgum þeim vindmyllugörðum sem verið er að undirbúa í dag (á landi) verði hver vindmylla með afl upp á um 4 MW. Og sennilega er ekki langt í að slíkar vindmyllur verði um og yfir 5 MW.
Utan við ströndina erum við svo farin að sjá ennþá stærri vindmyllur. Þannig hefur Vestas hafið framleiðslu á 9,5 MW vindmyllum, sem senn munu rísa utan við strönd Belgíu. Og nú snemma á þessu ári (2019) tilkynnti General Electric um nýja 12 MW vindmyllu!
Eðli málsins samkvæmt er einfaldara og ódýrara að reisa og starfrækja vindmyllugarða á landi en úti í sjó. Nú fyrir helgina var tilkynnt um farsæla uppsetningu og raforkuframleiðslu tilraunamyllu General Electric upp á 5,3 MW. Sem í dag er aflmesta vindmylla á landi. Vindmyllan var reist í Hollandi og gert er ráð fyrir að senn verði tilkynnt um fyrstu kaupendurna og fjöldaframleiðsla fari á fullt.
Hver spaði þessarar nýju geysiöflugu vindmyllu GE er rétt tæplega 80 m langur. Helsta hindrunin vegna svo langra spaða er flutningur þeirra á áfangastað. Þess vegna eru þessir gríðarstóru spaðar með nýrri hönnun; hver spaði er framleiddur í tvennu lagi og eru svo settir saman á staðnum. Það er danska fyrirtækið LM Power sem á heiðurinn að þeirri smíði, en GE keypti einmitt LM Power nýlega. Tækniþróunin í vindorkunni er sem sagt enn á fullu og hagkvæmnin þar á enn eftir að aukast.
Þessar stóru nýju vindmyllur bæði á landi (4-6 MW) og í sjó (10-12 MW og jafnvel enn stærri) munu verða enn eitt skrefið í því að gera vindorkuna að hagkvæmustu raforkuframleiðslu í heimi. Og mögulega eru einungis fáein ár í að nýjar íslenskar jarðvarmavirkjanir og jafnvel einnig nokkrar af fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum hér munu ekki reynast samkeppnishæfar við vindorku. Eftir sem áður munu vindmyllugarðar þó þurfa aðgang að varafli. Og þar erum við Íslendingar í góðri stöðu með okkar stóra vatnsaflskerfi með miðlun.