Í umræðu um s.k. þriðja orkupakka er eitt sem lítt hefur verið rætt, en mætti hafa í huga. Samkvæmt greiningu norsku orkustofnunarinnar (NVA) hafa sæstrengir og aðrar raforkutengingar Norðmanna við nágrannaríkin stuðlað að lægra raforkuverði til almennings en ella hefði orðið. Með sama hætti gæti sæstrengur milli Íslands og Evrópu haldið aftur af hækkun raforkuverðs til almennra notenda hér á landi.
Í dag er staðan á raforkumarkaðnum á Íslandi ekki ósvipuð þeirri sem var í Noregi áður en tengingum þar til nágrannalandanna var fjölgað. Þ.e. mjög lítið af umframorku til staðar og því mátti lítið út af bera til að raforkuverð ryki upp. Hér á landi birtist þessi staða í því að varla er nóg af raforku til staðar til að mæta aukinni eftirspurn t.d. frá gagnaverum. Og þó svo einungis sé litið til væntrar fjölgunar landsmanna álítur Orkuspárnefnd nauðsynlegt að byggja fleiri virkjanir á komandi árum. Til að ekki myndist hér raforkuskortur innan nokkurra ára.
Sæstrengir Norðmanna hafa í reynd alls ekki hækkað raforkuverð þar í landi. Heldur þvert á móti stuðlað að hógværara raforkuverði. Ef sæstrengur kæmi milli Íslands og Evrópu myndi sá strengur halda aftur af raforkuskorti hér á landi og þar með halda aftur af hækkunum á raforkuverði. Fyrst og fremst myndi slikur strengur þó leiða til þess að raforkuverð stóriðju myndi færast hraðar nær því verði sem almenni raforkumarkaðurinn greiðir. Rétt eins og gerst hefur í Noregi. Slíkt myndi auka arðsemi í íslenskri raforkuframleiðslu. Sem fyrst og fremst er í höndum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, sem bæði eru í opinberri eigu.
Það er sem sagt líklegt að sæstrengur, ef rétt yrði að slíku verkefni staðið, myndi bæta arðsemi Landsvirkjunar og Orkuveitunnar. Og þar með gæfist færi til að auka arðgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga. Sem þýðir tækifæri til skattalækkana og/eða aukinnar almannaþjónustu. Af hverju sumir stjornmálamenn eru á móti slíkri þróun er ráðgáta.
Það er sem sagt lítil ástæða til að óttast að sæstrengur muni leiða til mikilla hækkana á raforkuverði til almennra notenda hér. Vissulega er afar mikilvægt, ef til sæstrengs kemur, að íslensk stjórnvöld haldi vel á spilunum og tryggi að hagsmunir Íslands verði tryggðir í hvívetna. Það er mikilvæga atriðið. Og þannig gæti sæstrengur skilað Íslandi verulegum ávinningi. Niðurstaðan er sem sagt sú að þriðji orkupakkinn er engin ógn í þessu sambandi. Og sæstrengur er sjálfstæð ákvörðun sem þjóðin ræður með því hverja hún velur á Alþingi.