c

Pistlar:

28. maí 2019 kl. 12:58

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Norðmenn fjárfesta í íslenskum vindi

Norska vindorkufyrirtækið Zephyr hefur stofnað dóttur­fyrir­tæki á Íslandi; Zephyr Ice­land. Mark­miðið er að reisa hér vind­myllur og vind­myllu­garða og bjóða um­hverf­is­væna raforku á hag­kvæmu og sam­keppn­ishæfu verði. Í þessu skyni hyggst fyrir­tækið á næst­unni m.a. verja veru­leg­um fjár­mun­um til rann­sókna á vind­að­stæð­um á Íslandi.

Norsk sveitarfélög og fylki

Norska Zephyr er í eigu þriggja norskra vatns­afls­fyrir­tækja. Þau eru Glitre Energi, Vard­ar og Øst­fold Energi. Þessi þrjú fyrir­tæki eru öll í eigu norskra sveit­ar­fél­aga og fylkja. Fram­kvæmda­stjóri Zephyr á Íslandi er Ketill Sigur­jóns­son, sem jafn­framt er hlut­hafi í fyrirt­ækinu.

Meira en 500 MW í rekstri

Zephyr hefur verið leiðandi í nýt­ingu vind­orku í Noregi og hefur þeg­ar reist meira en 300 MW af vind­afli þar í landi. Sú fjár­fest­ing jafn­gildir meira en 35 milljörð­um ís­lenskra króna. Fyr­ir­tækið er nú að reisa þar nýjan 200 MW vind­myllugarð og verður því senn með um 500 MW af vindafli í rekstri. Það jafngildir raf­orku­notkun um 75 þúsund norskra heimila.

Öflugir samstarfsaðilar

Zephyr býr yfir mikilli tæknilegri þekkingu og víðtækri reynslu á öllum þáttum vind­orku­verk­efna og nýtur góðra viðskiptasambanda við ýmsa sterka fjárfesta og fyrirtæki. Meðal nokk­urra helstu við­skipta­vina Zep­hyr í verkefnum fyrirtækisins fram til þessa eru álfram­leið­and­inn Alcoa, fjár­fest­inga­fyrir­tækið Black Rock og tæknirisinn Google.

Zephyr-Tellenes-wind-parkVið stofnun Zephyr Iceland var eftirhafandi haft eftir stjórnarmönnum félagsins:

Olav Rommetveit, forstjóri norska Zephyr og stjórnarformaður Zephyr á Íslandi: Ísland býr yfir geysilega góðum vindaðstæðum og jafnvel enn betri en eru í Noregi. Ég er afar ánægð­ur með þá ákvörðun stjórnar Zephyr að Ísland verði fyrsti markaður okkar utan Nor­egs. Vindurinn á Íslandi, ásamt sveigjanleikanum sem íslenska vatnsaflskerfið býr yfir, skap­ar Íslandi óvenju gott tækifæri til að nýta vindorku með ennþá hagkvæmari hætti en í flest­um öðrum löndum. Samhliða því að íslensk vindorka getur aukið hagsæld á Ís­landi, munu verkefni Zephyr Iceland skapa nýjar tekjur fyrir bæði landeigendur og sveitarfélög.

Morten de la Forest, stjórnarmaður í Zephyr á Íslandi:

Zephyr hefur undanfarið kannað íslenska raforkumarkaðinn ítarlega, ásamt viðeigandi lög­gjöf og stefnu stjórnvalda. Fyrirtækið sér áhugaverð tækifæri til nýt­ing­ar vindorku á Ís­landi og sterkar vísbendingar eru um að íslensk vindorka verði sam­keppnis­hæf við bæði vatns­afl og jarðvarma. Íslenska vind­orku­fyrir­tækið Zephyr Iceland mun njóta góðs af sér­þekk­ingu og reynslu norska móð­ur­félagsins og hefur alla burði til að þróa hér verkefni sem munu reynast bæði hag­kvæm og umhverfisvæn.

Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi:

Á síðustu árum hefur vindorka orðið sífellt ódýrari og hagkvæmari. Það er því sann­ar­lega  tíma­bært að byrja að nýta vindinn hér á Íslandi til raforkuframleiðslu og þannig stuðla að enn sterkari sam­keppnishæfni Íslands. Um leið er afar hvetjandi að hafa feng­ið svo öflugt og reynslu­mikið fyrirtæki til samstarfs sem norska Zephyr er. Rétt eins og í verkefnum Zep­hyr í Noregi, mun Zephyr Iceland leggja höfuð­áherslu á vandaðan undirbúning verk­efna og góða upplýsingamiðlun, enda er mikil­vægt að breið sátt ríki um uppbyggingu af þessu tagi. Fram­tíð Íslands er vindasöm og björt í senn.

-------

Nánari upplýsingar veitir Ketill Sigurjónsson (s. 863 8333). Starfsstöð Zephyr Iceland er að Kalk­ofnsvegi 2 við Hafnartorg í Reykjavík. Myndin hér að ofan sýnir vindmyllugarðinn Tellenes, sem Zephyr lauk við sumarið 2017. Hann er 160 MW og er öll raforkan seld til Google með langtímasamningi.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.
Meira