Um langt skeið hefur raforkuframleiðsla mannkyns byggst á kolvetnisbruna, nýtingu kjarnorku og nýtingu vatnsafls. Kolvetnisbruninn er fyrirferðamestur, þar sem kol og jarðgas ásamt olíu hafa lengi verið og eru enn mikilvægustu orkugjafarnir til rafmagnsframleiðslu.
Flestum er kunnugt um skynsemi þess að auka hlutfall hagkvæmra orkugjafa sem valda minni mengunarhættu og losa minna koldíoxíð út í andrúmsloftið.
Þar hefur einkum vatnsaflið reynst vel, enda eru hér á jörðu fjöldamargir efnahagslega hagkvæmir vatnsaflskostir. Vatnsaflið er þó takmarkað og vegna umhverfisáhrifa viljum við ekki nýta alla vatnsaflskosti. Þar að auki dugar vatnsaflið engan veginn til að mæta sívaxandi raforkuþörf okkar. Jarðvarmi býður enn síður upp á mikla aukningu virkjana. Lengi vel var mjög horft til kjarnorku sem framtíðarorkugjafa. En nýting kjarnorkunnar er um margt flókin og þar að auki hefur þetta reynst dýr tækni.
Það hefur sem sagt reynst erfitt að finna leið til að mæta vaxandi þörf á raforku; leið sem getur bæði talist hagkvæm og hefur lítil neikvæð umhverfisáhrif. Til allrar hamingju hafa fundist tvær mikilvægara lausnir til að mæta vaxandi raforkuþörf. Sem eru sólarorka og vindorka.
Vegna tækniframfara og stærðarhagkvæmni hefur náðst að lækka kostnað mjög verulega í bæði sólarorku- og vindorkutækni á tiltölulega skömmum tíma. Nú er svo komið að nýting vindorku á svæðum með góðar vindaðstæður er ódýrasta tæknin til að auka raforkuframboð. Og sama má segja um sólarorkuna á þeim svæðum þar sem sólgeislun er hvað mest.
Að auki bendir flest til þess að kostnaðurinn í bæði sól og vindi eigi eftir að lækka umtalsvert á næstu árum. Einnig skiptir máli að á síðustu árum hefur náðst afar góður árangur í að byggja stóra og tiltölulega ódýra rafgeyma, sem gerir nýtingu sólar- og vindorku ennþá hagkvæmari enn ella.
Að mati Bloomber New Energy Finance (BNEF) gerir þessi þróun það raunverulega mögulegt að unnt verði að mæta sívaxandi raforkuþörf mannkyns með ódýrri endurnýjanlegri orku, þar sem nýting sólarorku og vindorku verður í lykilhlutverki (líkt og kemur fram á grafinu hér til hliðar).
Sjálfsagt og eðlilegt er að við Íslendingar tökum þátt í þessari þróun og verðum þannig með í að draga úr þörf mannkyns á sívaxandi kolvetnisbruna til raforkuframleiðslu. Sá siðferðislegi drifkraftur er þó ekki eina ástæðan fyrir því að Ísland taki þátt í þessari þróun. Það er nefnilega svo að vindaðstæður á Íslandi eru með hagfelldasta móti til að framleiða raforku. Nýting íslenskrar vindorku veitir því óvenju góð tækifæri til að efla efnahagslífið hér.
Það eru tækifæri af þessu tagi sem höfundur sá vera að skapast þegar hann byrjaði af alvöru að huga að mögulegri vindorkunýtingu á Íslandi. Það var svo fyrr á þessu ári (2019) að vindorkufyrirtækið Zephyr Iceland hóf starfsemi. Framundan er uppsetning vindmastra á nokkrum stöðum á landinu, til vindrannsókna, ásamt ýmsum öðrum rannsóknum og athugunum á möguleikum íslenskrar vindorku.
Í reynd hefur kostnaður vindorkunnar lækkað ennþá hraðar en búist var við og um leið hefur sífellt blásið betur á alþjóðavettvangi fyrir meiri nýtingu vindorku til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Ekki síður áhugavert er að nýting vindorku hentar að ýmsu leyti mjög vel fyrir litla íslenska raforkukerfið, því vindmyllugarðar af hógværri stærð eru um margt einfaldari og áhættuminni verkefni en nýjar stórar vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarmavirkjanir. Það blæs sem sagt byrlega fyrir íslenska vindorku. Og brátt veður meira að frétta af fyrstu verkefnum Zephyr Iceland.
Höfundur er framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi