Nú stendur yfir ráðstefnan Arctic Circle hér í Reykjavík, þar sem athyglin beinist að Norðurskautssvæðinu. Í umræðunni er mikið rætt um mikilvægi þess að vernda þetta merkilega og einstaka svæði. Staðreyndin er engu að síður sú að nokkrum mikilvægustu löndunum sem eiga lögsögu á svæðinu, er mjög í mun að nýta auðlindir þeirra svæða sem lögsaga þeirra nær til.
Þar er Rússland líklega ákafast. Enda er gríðarlega mikið af jarðgasi og olíu að finna á heimskautasvæðum Rússlands. Og eftir að Donald Trump komst til valda hefur Bandaríkjastjórn einnig snúið frá verndarstefnu gagnvart Alaska og vill opna vernduð svæði í Alaska fyrir olíu- og gasvinnslu.
Enn eitt landið sem á stóra lögsögu á svæðinu er Noregur og stjórnvöld þar í landi virðast áhugasöm um að nálgast þá gríðarlegu olíu sem finna má undir botni Barentshafsins. Vinnsla þar er reyndar komin vel af stað og á vafalítið bara eftir að aukast á komandi árum og áratugum.
Þar að auki þrýsta tvö fjölmennustu lönd heimsins á meiri auðlindanýtingu á Norðurskautssvæðunum, þó þau eigi ekki lögsögu þar. Bæði Kína og Indland tala fyrir aukinni auðlindanýtingu á þessum svæðum.
Það er sennilega sterkur meirihluti meðal þjóða heimsins fyrir því að vernda Norðurskautssvæðin. Og í orði kveðnu tala flestir þjóðarleiðtogar, stjórnmálamenn og t.a.m. forstjórar stórfyrirtækja fyrir slíku. Þetta er valdamikill hópur og því mætti ætla að það sé jafnvel mjög breið sátt um verndun Norðurskautssvæðanna. En þegar kemur að því að samþykkja raunverulegar aðgerðir eða ákvarðanir heima fyrir, virðist allt annað uppi á teningnum.
Nú um stundir er augljóst að stjórnvöld bæði í Rússlandi og Bandaríkjunum eru í reynd mjög viljug til að láta auðlindanýtingu á Norðurslóðum hafa forgang fram yfir verndun. Og þar fá þau pólítískan stuðning frá tveimur fjölmennustu ríkjum heimsins; Kína og Indlandi. Þar að auki eru bæði norsk og grænlensk stjórnvöld áhugasöm um olíuvinnslu svo til hvarvetna í lögsögu sinni.
Af ríkjunum sem eiga lögsöguna á heimskautasvæðunum í norðri er það einungis Kanada sem nú sýnir raunverulegan pólítískan vilja til verndunar þessara svæða. Um leið stunda reyndar Kanadamenn einhverja mest mengandi olíuvinnslu heims í Albertafylki, þar sem olía er unnin með óvenju kostnaðarsömum og lítt hagkvæmum hætti úr olíusandi. Þannig að ekki einu sinni kanadísk stjórnvöld geta talist sýna sterka verndarvitund. Þar að auki er mikill þrýstingur frá áhrifamiklum hagsmunaaðilum þar í landi um að Kanada hverfi frá verndarstefnu sinni.
Þegar horft er til alls þess sem að ofan greinir virðist nokkuð augljóst að ríkin sem liggja að Norðurskautssvæðunum munu ekki grípa til róttækrar verndunar svæðisins. Enda eru sennilega a.m.k. einn og jafnvel tveir áratugir þar til olíueftirspurn í heiminum nær hámarki. Og jafnvel löngu eftir þann tímapunkt verður vafalítið mikil eftirspurn eftir olíuafurðum, jafnvel þó svo rafbílum fjölgi mjög. Hvort heimskautaolían, sem enn hvílir óhreyfð, verður ábatasöm er óljóst. En áhuginn á henni (og jarðgasinu) er tvímælalaust fyrir hendi; ekki síst við strendur Síberíu, í Barentshafi og nyrst í Alaska.
Arctic Circle er mikilvægur vettvangur til að koma skilaboðum á framfæri og styrkja margvísleg tengsl. Ráðstefnuhaldið allt dregur t.a.m. fram margt gott um meintan vilja til verndunar og er öflugur vettvangur fyrir kynningu á ýmsum vísindarannsóknum.
En það er fátt sem bendir til þess að þetta skili aukinni verndun Norðurslóða. Þvert á móti mun auðlindanýting og skipaumferð á Norðurslóðum að öllum líkindum aukast umtalsvert á komandi árum og áratugum. Mikilvægt er að við reynum að sjá fyrir helstu afleiðingarnar af þeirri atburðarás.