Umtalsverðar breytingar hafa nú orðið á raforkuviðskiptum bæði álvers Norðuráls og járnblendiverksmiðu Elkem á Grundartanga. Þar er um að ræða eðlilega þróun, sem er í samræmi við spár greinarhöfundar
Bæði fyrirtækin, þ.e. Elkem og Norðurál, hafa nú framlengt raforkukaup sín frá Landsvirkjun, en með breyttum verðskilmálum. Gera má ráð fyrir að samtals leiði þetta til þess að tekjur Landsvirkjunar á ársgrundvelli hækki um þó nokkra milljarða króna. Sem er í samræmi við það sem ætla mátti að myndi gerast, þegar gömlu orkusamningarnir rynnu út.
Þetta mun auðvitað draga úr hagnaði stóriðjunnar á Grundartanga og um leið færa arðsemi Landsvirkjunar til eðlilegra horfs. Í stað þess að verksmiðjurnar tvær á Grundartanga greiði næstum helmingi lægra raforkuverð en álverið í Straumsvík gerir, mun stóriðjan á Grundartanga nú greiða svipað orkuverð eins og Straumsvík. Og svipað raforkuverð eins og gerist í helstu samkeppnislöndum.
Hafa ber í huga að reiknireglurnar og viðmiðanirnar að baki þessum tekjum Landsvirkjunar (þ.e. verð pr. MWst) vegna viðskiptanna við Grundartanga eru ekki nákvæmlega þær sömu eins og í samningnum við Straumsvík. En gróflega má sem sagt ætla að nokkurt jafnræði myndist nú í orkuverðinu milli Straumsvíkur annars vegar og Grundartanga hins vegar.
Að vísu er Norðurál enn svolítið sér á báti, því þar er um að ræða áhættumeiri skammtímasamning. Sem líklega er til komin að ósk álfyrirtækisins. Sú áhættutaka kann að verða Norðuráli viss fjötur um fót á næstu árum.
Gróflega áætlað kunna heildartekjur Landsvirkjunar vegna þessara tveggja samninga á Grundartanga að hækka um u.þ.b. 15% á ársgrundvelli. Verðhækkunin á Grundartanga kom ekki til framkvæmda fyrr en nokkuð var liðið á árið (2019). Það verður því ekki fyrr en á næsta ári, þ.e. 2020, að þessi tekjuaukning mun að fullu skila jákvæðum áhrifum á afkomu Landsvirkjunar á ársgrundvelli.
Um leið mun árið 2020 marka viss kaflaskil í rekstrarkostnaði verksmiðjanna á Grundartanga. Þessi þróun er ekki óvænt, því hið breytta raforkuverð er í samræmi við það sem búast mátti við þegar gömlu samningarnir rynnu út. Rétt eins og greinarhöfundur hafði spáð í grein hér á vef Morgunblaðsins strax árið 2015.
Eins og lesendur kunna að muna, þá ollu þau skrif nokkrum titringi hjá tilteknum einstaklingum og fyrirtækjum. Það sem gerst hefur síðan þá er auðvitað til marks um að greinarhöfundur var einfaldlega að benda á staðreyndir og sú þróun sem þar var séð fyrir um þróun raforkuverðs á Íslandi er nú orðin að raunveruleika.
Næsta stóra skrefið til aukinnar arðsemi Landsvirkjunar verður sennilega stigið árið 2028, þegar raforkuverðið í langstærsta raforkusamningi á Íslandi kemur að öllum líkindum til endurskoðunar. Þar er um að ræða samninginn við Alcoa vegna álvers Fjarðaáls.
Þessi þróun á ekki að koma neinum á óvart. Um leið hlýtur það að vera gleðiefni fyrir bæði stóriðjuna á Íslandi og aðra umtalsverða notendur raforku hér, að Ísland hefur enn þá sérstöðu að hér býðst stóriðju og öðrum fyrirtækjum trygg raforka á mjög samkeppnishæfu verði.