Ég fjallaði nýlega um það að væntanlega fari raunvextir breytilegra vaxta hjá LSR niður fyrir 2%. Það yrði vægast sagt stór áfangi í því að vaxtaþungi íslenskra heimila færist á eðlileg mið. Á heimasíðu LSR kemur eftirfarandi fram varðandi breytilega vexti sjóðsins.
Vextir eru reiknaðir einum mánuði fyrir gildistöku nýrra vaxta (1. desember, 1. mars, 1. júní og 1. september ár hvert) og eru meðaltal ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs HFF150644 í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands síðustu þrjá mánuðina á undan að viðbættu 0,60% álagi.
Næsta setning á eftir á heimasíðu LSR segir hins vegar:
Stjórn LSR er þó ávallt heimilt að taka ákvörðun um að vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum taki breytingum miðað við annað viðmið en að framan greinir eða að þeir breytist samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og taka þá mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði.
LSR getur samkvæmt þessu breytt lánakjörum að vild. Sé slíkt gert þá má segja að verðtryggð lán hjá sjóðnum séu með breytilegum vöxtum, sem séu svo í Þokkabót með breytileg viðmið, því þeir breytast ekki bara samkvæmt vaxtamiðunum á markaði heldur einnig vegna geðþótta stjórnar LSR. Í raun eru þetta því breytilegir vextir með breytanleg viðmið, eða breytilegir vextir í öðru veldi.
Þetta var því miður einmitt að gerast hjá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna um daginn. Í nýrri tilkynningu sjóðsins kemur eftirfarandi fram:
Undanfarin ár hafa breytilegir vextir verðtryggðra lána tekið sjálfkrafa breytingum í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokksins HFF150434. Viðskipti með þennan skuldabréfaflokk hafa farið verulega minnkandi undanfarin misseri og er hann því ekki eins virkt viðmið fyrir vexti og áður.
Því er sjóðurinn að hækka, í stað þess að lækka, breytilega vexti sjóðsins. Hækkunin, úr 2,06% upp í 2,26% er veruleg, sérstaklega í ljósi þess að þeir hefðu samkvæmt eldri viðmiðunum átt að lækka. Sé miðað við að sjóðurinn hefði lækkað vexti sjóðsfélaga um 0,1%, þá gerir þessi hækkun það að verkum að fjölskylda sem skuldar hjá sjóðnum 40 milljónir króna þarf að greiða 120 þúsund krónur meira í vaxtagjöld á ári, eða um 10 þúsund krónur á mánuði.
Einhverra hluta vegna hefur lítið borið á óánægjuröddum vegna þessa. Af hverju er engin manneskja að kvarta undan þessu í dag? Ég skil þetta ekki.
MWM
ps. Samkvæmt nýrri tilkynningu frá LSR eru litlar líkur á því að sjóðurinn breyti viðmiðum sínum þar sem að hann var að lækka vexti á nýjum lánum sem bera fasta og breytilega vexti. Það er ekki vísbending um að hann fari að sömu leið og Lífeyrissjóður Verzlunarmanna.