Vorið 2009 skrifaði ég grein varðandi fjárfestingastefnu lífeyrissjóða. Fram kom sú skoðun mín að meginþungi fjárfestinga lífeyrissjóða ætti að vera á svæðum sem eru óháðari árferði efnahags Íslendinga, með öðrum orðum á alþjóðlegum mörkuðum. Benti ég á að í 36. gr. í VII kafla laga um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða (1997 nr. 129) væru ákvæði með það fyrir augum að lágmarka áhættu. Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissjóðir skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign hvers sjóðs.
Taldi ég að breyta ætti þessari löggjöf með þeim hætti að takmörk séu á innlendri fjárfestingu, ekki erlendri. Ekki væri óeðlilegt að af heildarfjárfestingum, að húsnæðislánum undanskildum, væru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða á bilinu 70-80% af fjárfestingarsafni þeirra. Hef ég í kennslu í HR síðustu sjö ár bent á kosti þess að fjárfesta á erlendri grundu, og sýnt meðal annars að hefðu lífeyrissjóðir haft helming eigna sinna erlendis þá hefði eignasafn þeirra jafnvel hækkað í íslenskum krónum talið sökum veikingu hennar.
Þessi skoðun hafði þó lítinn mátt þegar að þessi tillaga mín birtist fyrst, þegar að gjaldeyrishöft voru ríkjandi. Slíkt hefur hins vegar breyst mikið síðustu ár. Nú er svo komið að yfir 40% af fjárfestingum ákveðinna lífeyrissjóða er á alþjóðlegum vettvangi. Löggjafarvaldið ætti að vinna í því að gólf, ekki þak, verði sett á fjárfestingum lífeyrissjóða á erlendum vettvangi. Slíkt gólf ætti að mínu mati að vera að lágmarki 50% og er ekki óeðlilegt að lífeyrissjóðir hefðu svigrúm til ársins 2025 til að uppfylla slíkt skilyrði.
MWM