c

Pistlar:

9. febrúar 2022 kl. 14:48

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

75 punktar - fyrstu viðbrögð

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,75% í morgun. Þetta er töluverð hækkun, sérstaklega í ljósi þess að vextirnir voru 2,0% áður og hækka því um ríflega þriðjung. Ólíkt því sem áður var þá hefur þetta gríðarleg áhrif á mörg heimili, sum hver sem hafa nýlega tekið húsnæðislán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum og í sumum tilvikum gerandi ráð fyrir stöðugu lágvaxtaumhverfi. Það hefur verið gagnrýnt í gegnum tíðina hversu lítið stýrivextir bíta á fasteignamarkaðinn en núverandi aðstæður sýna að sveiflur í stýrivöxtum geta aftur á móti gert almenningi enn meiri grikk því þessi hækkun kemur strax fram í greiðslubyrði fólks. Hækki vextir húsnæðisláns með breytilegum vöxtum til dæmis úr 4,15% í 4,85% þá hækkar vaxtakostnaður þess heimilis um 17%. Heimili sem skuldar 40 milljónir króna þarf því að borga 25 þúsund krónur meira á mánuði í vaxtakostnað. Þetta getur verið þungt högg fyrir marga.

Fólk með fasta vexti finnur ekki strax fyrir þessu en vextir eru ekki fastir í nema 3 eða 5 ár. Eftir það fylgja þeir breytilegum vöxtum svo gleðin við slík lán eru skammvin.

Þó svo að verðbólguvæntingar hafi aukist mikið síðustu mánuði þá gera spár Seðlabankans engu að síður ráð fyrir að verðbólga hjaðni örlítið á þessu ári en sú hjöðnun taki aftur á móti töluverðan tíma. Ekki er því útilokað að stýrivextir hækki enn frekar. Ég hef áður sagt að ég geri ekki ráð fyrir að þær hækkanir verði jafn miklar og sumir greinendur hafa spáð. Sú skoðun er óbreytt. Íslenska krónan hefur styrkst undanfarnar vikur og hefur Seðlabankinn jafnvel unnið á móti þeirri styrkingu, svolítið sem ég skil ekki alveg. Hluti af skýringunni er sú að peningastefnunefndin telur að launahækkanir séu aðal drifkraftur hækkandi verðbólgu. Því eigi að leggja áherslu á að hemja þenslu.

Í því sambandi hefur nefndin áhyggjur af því að stjórnmálamenn séu að vinna á móti stefnu nefndarinnar. Seðlabankastjórinn sagði meira að segja orðrétt að "við verðum að vinna saman." Fram kom að breytingar á greiðslubyrði eigi að draga úr lántökum vegna húsnæðiskaupa.

Augljóst er að vaxtastig getur ekki verið langt undir verðbólgu til lengri tíma. Ávöxtunarkröfur á erlendum mörkuðum gera aftur á móti ráð fyrir því að hátt verðbólgustig sé tímabundið. Helstu liðir sem eru að hækka í BNA eru til dæmis þættir sem tengjast orku og svo bílar, aðallega notaðir bílar, en vöntun á tölvukubbum hefur skapað flöskuháls í eftirspurn. Ég tel líklegt að hækkanir á húsnæði hjaðni verulega í ár og að áhrif erlendra verðhækkana verði óveruleg. Ef vel tekst við að draga úr þenslu þá kemur verðbólga til með að hjaðna sem dregur úr þrýsting vaxtahækanna.

MWM

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Dósent í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

People Need Housing to Live in - https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/02673037.2024.2339920

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Dósent í fjármálum við Háskóla Íslands

Stjórnarmaður í Almenna

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira