Mikið hefur verið rætt um stórkostlegan hagnað íslenskra banka undanfarið. Einn ráðherra hefur gengið svo langt að tala um að taka skref í átt að þjóðnýtingu banka með því að leggja til að setja á ný bankaskatt því þeir séu með vaxtaokur. Kannski er rétt að líta á tölurnar.
Arðsemi eigin fjár
Einfalt er að líta á hagnaðartölur og segja að fyrirtæki hljóti að vera að hagnast með óeðlilegum hætti þegar að tölurnar eru háar. Arðsemi eigin fjár er betri mælikvarði, hversu mikill er hagnaður af fjárfestingu eiganda, sem hlýtur að skipta máli ef verið er að bera saman fjárfestingu uppá 650 milljarða króna og smærri fjárhæða.
Arðsemin árið 2021 var góð hjá bönkunum. Hún lá á bilinu 11-15% hjá bönkunum, meðaltalið var 12,6%. Þetta er samt ekki ofurhagnaður á starfsemi þeirra. Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, hefur yfirlýsta stefnu um að þetta arðsemishlutfall verði að lágmarki 10%. Sé litið til meðaltals síðustu fimm ára hefur Landsbankinn staðið sig best í þessum efnum, ef svo mætti að orði komast, með 7,8% arðsemi eigin fjár. Meðaltalið hjá Íslandsbanka var 6,9% og hjá Arion banka var það aðeins 6,4% á þessu tímabili.
Því má bæta við að arðsemi eigin fjár Haga, sem reiðir sig aðallega á rekstri hinna ódýru Bónus verslana, á síðustu fimm árum var töluvert hærri, eða 14.8%. Á síðasta ári (2020-2021) var hún rúmlega 10% og árið þar áður var hún 12.6%, sem er nákvæmlega sama arðsemi og meðaltalið hjá bönkunum á síðasta ári. Á að leggja sérstakan skatt á starfsemi Bónus verslana?
Ávöxtun eigin fjár umfram "áhættulausum fjárfestingum"
Sé litið til atvinnugeira eins og fjármálastofnanir að gefnu tilliti til áhættu þá má gera ráð fyrir að ávöxtunin sé árlega um 5% hærri en á ríkisbréfum sem falla ekki á gjalddaga fyrr en eftir langan tíma. Ég miða hér við lengsta flokkinn á Íslandi, RB31. Ávöxtunin hjá bönkunum var á síðasta ári langt umfram 5% en hún hefur verið slök síðustu fimm ár. Hjá Arion banka hefur ávöxtunin síðustu fimm ár umfram því sem að eigendur skuldabréfa gátu vænst einungis 2% árlega og árin 2018 og 2019 var betri ávöxtun af áhættulausum ríkisbréfum en fyrir hluthafa bankans.
Vaxtamunur
Vaxtamunur á Íslandi er, andstætt almennri umræðu, að lækka. Árið 2017 var hann hjá öllum bönkunum í kringum 3% en hefur verið að lækka hjá þeim öllum, þó minnst hjá Arion banka. Meðaltalið í dag er 2,5%. Vaxtamunurinn í dag er raunar sá lægsti hjá íslensku bönkunum síðan að hrunið 2008 átti sér stað. Nú, þegar að rekstur banka er að verða skilvirkari má þó gera kröfu um að hann lækki niður í 2.0%. Bankarnir geta stigið stórt skref nú þegar í þá áttina með því að hækka breytilega vexti sína minna en sem nemur stýrivaxtahækkunum.
MWM
Hér að neðan er hlekkur að Excel skjali með ofangreindum tölum.
https://www.dropbox.com/s/n4rcs4f09jbklur/islenskir%20bankar%202017%202021.xlsx?dl=0