Í pistli mínum Tölur varðandi ofurhagnað íslenskra banka, þar sem ég gagnrýndi málflutning um ofurhagnað íslenskra banka, kom í niðurlaginu fram: Nú, þegar að rekstur banka er að verða skilvirkari má þó gera kröfu um að hann lækki niður í 2.0%. Bankarnir geta stigið stórt skref nú þegar í þá áttina með því að hækka breytilega vexti sína minna en sem nemur stýrivaxtahækkunum.
Landsbankinn tilkynnti í morgun uppfærða vaxtaskrá. Breytilegir vextir íbúðalána hækka um 50 punkta og hið sama á við um kjörvexti á óverðtryggðum útlánum. Engar breytingar eru á föstum vöxtum óverðtryggðra íbúðalána. Þá eru engar breytingar á vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum, hvorki breytilegum né föstum.
Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 50 punkta. Engar breytingar eru hins vegar á kjörvöxtum á verðtryggðum útlánum. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 50 punkta og yfirdráttarvextir hækka um 75 punkta.
Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka meira en sem nemur útlánavöxtum, eða allt að 75 punktum, vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka um allt að 60 punktum en vextir almennra veltureikninga hækka þó einungis um 10 punkta.
Bankinn er með öðrum orðum í heildina að minnka vaxtamun. Breytilegir útlánavextir utan yfirdráttarlána eru að hækka 50 punkta, sem er 25 punktum minna en nýleg stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Vextir sparireikninga hækka í takti við stýrivextina. Má segja að Landsbankinn sé hér að stíga skref í þá átt að minnka vaxtamun í átt að 2%. Vaxtamunurinn á síðasta ári var 2,3% og þessi aðgerð fer hugsanlega langleiðina með að færa hann niður í það viðmið.
Hér eru tölur dregnar saman varðandi bankanna -
https://www.dropbox.com/s/n4rcs4f09jbklur/islenskir%20bankar%202017%202021.xlsx?dl=0
Hér er einnig góð grein sem Samtök atvinnulífsins skrifuðu fyrir nokkrum árum síðan. Þessi skrif hafa sannarlega staðist tímans tönn - https://cdn.nfp.is/sa/gamaltefni/hvernig-minnkum-vid-vaxtamun-a-islandi.pdf
MWM