Það var ekki bara sumarveðrið sem kom Íslendingum í sólarskap í gær, því jákvæðum fréttum var rennt inn um bréfalúgur landsmanna á forsíðu Fréttablaðsins.
Þar kom fram að Landsvirkjun hefði skilað metafkomu í fyrra, hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hefði numið 19 milljörðum og að eiginfjárhlutfallið væri komið í 40%. Þessi sterka fjárhagsstaða kæmi gleggst fram í því að á einungis fimm árum hefði Landsvirkjun greitt niður skuldir sem nema 82 milljörðum, en á sama tíma fjárfest fyrir 68 milljarða!
Arður af orkuauðlindinni
Nokkuð hefur verið rætt um rentu af auðlindum í eigu þjóðarinnar. Það var því ánægjulegt að heyra Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar tala um það á glæsilegum ársfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í gær að árleg arðgreiðslugeta til þjóðarinnar gæti numið 10 til 20 milljörðum eftir tvö til þrjú ár – og væri þó enn nægilegt svigrúm til frekari fjárfestinga og uppbyggingar samhliða því.
Í viðtali sem ég átti við Hörð árið 2011 þegar ég var blaðamaður á Morgunblaðinu gerði hann það að umtalsefni að arður orkufyrirtækja af orkuauðlindinni gæti orðið hlutfallslega jafnmikill og arðurinn af olíunni fyrir Norðmenn. Íslendingar þyrftu því að móta leikreglurnar um hvernig arðinum af orkunýtingunni yrði skipt. „Það þurfa að vera skýrar leikreglur um hvernig menn skipta umframarðinum á sanngjarnan hátt, þannig að allir njóti góðs af því – og það myndist sátt.“
Myndi leita aftur til áliðnaðarins
Tillögur fjármálaráðherra um sérstakan orkuauðlindasjóð sem allar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum ríkisins renni í eru áhugaverðar í þessu sambandi og virðist vera sátt um þá hugmynd meðal annarra þingflokka.
Bjarni sagði á ársfundi Landsvirkjunar í gær að til að byrja með kæmi til greina að orkuauðlindasjóður greiddi niður skuldir ríkisins eða styddi við afmörkuð innviðaverkefni á borð við fjármögnun Landspítala. En meginverkefnið væri að byggja upp myndalegan varasjóð sem hugsaður væri til langs tíma, tryggt yrði að lagt yrði til hliðar í uppsveiflu og sjóðurinn væri til staðar til að blása lífi í hagkerfið í niðursveiflu. Síðast en ekki síst gæti innflæði í sjóð sem fjárfesti erlendis stutt við gengi krónunnar.
Ljóst má vera að komið er að kaflaskilum í sögu Landsvirkjunar eftir farsæla uppbyggingu í 50 ár. Hörður Arnarson tók af öll tvímæli um það í gær að ef Landsvirkjun hefði verið stofnuð í dag, en ekki árið 1964, þá myndi Landsvirkjun leita aftur til áliðnaðarins: „Það er mjög góður iðnaður fyrir lokuð raforkukerfi, tiltölulega stórt raforkukerfi eins og við höfum á Íslandi, vegna þess að þetta eru mjög stöðugir notendur – stórir notendur. Þeir eru mjög traustir. Þeir horfa langt fram í tímann. Þeir eru tilbúnir að gera langa samninga með bakábyrgðum móðurfélaga sem gera okkur kleift að ráðast í þetta. Þannig að þessi skref sem voru tekin þá hefðu verið tekin aftur núna, ef við værum að byrja upp á nýtt, jafnvel í þessu góða markaðsumhverfi sem við störfum í í dag.“
Stétt sérfræðinga og vísindamanna
Það er vel til fundið að heiðra Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóra á þessum tímamótum. Jóhannes gegndi starfi stjórnarformanns alla sína stjórnartíð hjá Landsvirkjun eða í heil 30 ár. Jónas Þór Guðmundsson núverandi stjórnarformaður fyrirtækisins sagði í ávarpi sínu að undir tryggri og langri forystu Jóhannesar hefði grunnur verið lagður að því fyrirtæki sem Landsvirkjun síðar varð og vitnaði hann í erindi Jóhannesar frá ársþingi iðnrekenda árið 1965, þar sem fram kom að ef Íslendingar hefðu virkjað Þjórsá á þriðja áratug aldarinnar ættu þeir nú „fullafskrifuð orkuver er skiluðu hundruðum milljóna í hreinum tekjum á ári hverju og síðast en ekki síst værum við búnir að eignast stétt sérfræðinga og vísindamanna sem gerðu okkur kleift að standa jafnfætis öðrum í efnaiðnaði.“
Óhætt er að segja að framtíðarsýn Jóhannesar hafi gengið eftir. Á ársfundinum var sýnd heimildarmynd frá byggingu vatnsaflsvirkjunarinnar við Búrfell, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar á sínum tíma. Þar var lagður grunnur að einu öflugasta raforkukerfi sem þekkist á byggðu á bóli, sem aftur skapar gnótt tækifæra til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag. Eins og Jónas Þór orðaði það í ræðu sinni: „Með byggingu hennar og stofnun Landsvirkjunar var lagður grunnur að nýjum iðnaði í landinu sem leiddi af sér aukna verkþekkingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi.“