c

Pistlar:

8. september 2015 kl. 23:28

Pétur Blöndal (peturb.blog.is)

Umræða án upphrópana

Það er rétt sem Ketill Sigurjónsson orkubloggari skrifar í pistli 25. ágúst að hlutverk Samáls, samtaka álframleiðenda, er að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað. Auðvitað eru skiptar skoðanir um orkuiðnað, eins og aðrar atvinnugreinar, en umræðan er mikilvæg og mun ég leggja mitt af mörkum til þess að hún fari fram á uppbyggilegum nótum.

Upplýsingamiðlun Samáls byggir eðli málsins samkvæmt á opinberum gögnum, þar á meðal frá Landsvirkjun og greiningarfyrirtækinu CRU sem sérhæfir sig í ál- og orkumörkuðum. Hér mun ég leitast við að gera nokkrum álitaefnum skil sem Ketill reifar.

Nýjustu tölur frá CRU

Ketill gagnrýnir að ég hafi vísað til mats CRU á orkuverði til álvera á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi 2015 í pistli sem ég skrifaði 10. júní 2015.

Ástæðan var sú að Ketill hafði stuðst við tölur frá CRU en dregið flutningskostnað frá orkuverðinu hér á landi þegar hann bar saman orkuverð á milli landa. Erlendis er hinsvegar alltaf talað um afhenta orku til álvera með sköttum og gjöldum, þar með töldum flutningskostnaði.

Ég taldi því rétt að tölur CRU um Ísland kæmu einnig fram og sendi greiningarfyrirtækinu bréf til að sannreyna að tölurnar sem ég birti væru réttar, en þar kom fram að meðalverð til álvera hérlendis væri 29-30 USD. CRU staðfesti það og sendi mér eftirfarandi til birtingar: 

„As of Q1 2015, the weighted average power tariff paid by Icelandic aluminium smelters, according to leading analysts of CRU International, was almost the same as the average for the primary aluminium industry in the rest of the world, excluding China.”

Þetta voru þær upplýsingar sem fáanlegar voru þegar ég skrifaði pistilinn. Ennfremur var tekið fram að matið á orkuverði til álvera byggði ekki á nýjustu tölum CRU, en að staða Íslands í nýjustu útreikningum CRU hefði ekki breyst að neinu ráði í samanburði við önnur lönd. Samkvæmt því er orkuverð til álvera á Íslandi árið 2015 nálægt meðalverðinu utan Kína. 

Til áréttingar skal tekið fram, að þetta er greining CRU en ekki Samáls. Samál rekur ekki greiningardeild. Í skrifum sem þessum mun ég því eftir sem áður vísa til helstu sérfræðinga og greiningaraðila í orkuiðnaði, enda hef ég engar forsendur til annars.

Ísland ekki í lægsta þriðjungi

Ketill hefur haldið því fram að meðalverð til álvera hér á landi sé yfir 26 dollurum og vegið meðalverð rúmir 25 dollarar. Helstu opinberu gögnin sem ég finn um það eru ársreikningar Landsvirkjunar, en þar má lesa að meðalverð til iðnaðar árið 2013 hafi numið 25,8 dollurum, eins og ég hef áður fjallað um. 

Það sama ár var meira en þriðjungur af öllu áli utan Kína framleitt við lægra rafmagnsverð en 25,8 dollara, nánar tiltekið 34,6% allrar álframleiðslu utan Kína samkvæmt greiningarfyrirtækinu CRU.

Það er eftirtektarvert, enda þýðir það að Ísland eða nánar tilgreint Landsvirkjun var því samkeppnishæf hvað varðar orkuverð til álframleiðslu árið 2013 en samt ekki í lægsta þriðjungi.

Fleira í samningum en orkuverð

Hvað varðar meðalverð í þremur nýjum orkusamningum til álvera í Kanada er Ketill sammála þeim tölum sem ég bar fram í pistlinum 10. júní, þ.e. að meðalverðið væri á bilinu 28-31 dollarar. Eins og álverðið hefur þróast má þó leiða líkum að því að orkuverðið sé orðið lægra en það vegna álverðstengingar.

Ketill gagnrýnir að ég telji ekki upp fleira sem í samningunum felst. Ég tek undir það sjónarmið hans að fleira felst í samningum en orkuverð. Annað gefur einfaldaða mynd af orkumarkaðnum. Þetta á raunar ekki aðeins við um Kanada.  

Það er til dæmis sjaldnast tekið fram í umfjöllun um orkuverð til álvera hér á landi að þau hafi kaupskyldu á orkunni til áratuga hvað sem notkun líður. Þetta getur þó haft verulega þýðingu. Einnig þekkist það víða erlendis að álver fái hluta orkureikninga sinna endurgreidda frá stjórnvöldum til að milda áhrif umhverfisskatta á raforku, sem þýðir að raunverulegt orkuverð er lægra en uppgefið verð.

Þetta hefur einnig þýðingu þegar verð til stóriðju hér á landi er borið saman við verð til almennings en þá er sjaldnast nefnt að stóriðjan rekur eigin spennustöðvar en almenningur ekki. Að auki er nýtingarhlutfall stóriðju á rafmagni um 96% samanborið við 56% hjá almenningi vegna minni notkunar um nætur og á sumrin. Tekjur orkusala eru því um 20% hærri af uppsettu afli til stóriðju en til almennings.

Það skýrist af því að kostnaður orkufyrirtækjanna er fyrst og fremst fjárfestingarkostnaður og því er mikilvægt fyrir þau að fá jafna nýtingu á uppsettu afli yfir sólarhringinn til að hámarka nýtingu fjárfestingar sinnar. 

Auðvitað eru aðstæður ólíkar eftir löndum og samanburður á orkusamningum verður aldrei nákvæm vísindi. Það blasir þó við að Íslendingar hljóta í slíkum samanburði að horfa til þeirra landa sem eru á svipuðum slóðum á jarðarkringlunni, þar með talið Noregs og Kanada. Það er ákveðin grunnforsenda að búa við frjálst markaðshagkerfi, þar sem eru gerðar kröfur í umhverfis- og öryggismálum, sem eru einn lykilþáttur í starfsemi álvera.

Sögulegur fróðleikur

Annars kemur margt fróðlegt fram í pistli Ketils sem áhugavert er að ræða frekar. Í fyrsta lagi bendir hann á að Alcoa muni afhenda orkufyrirtækinu Hydro Quebéc sinn hlut í orkuveri sem þessi fyrirtæki eiga saman.

Það er rétt hjá Katli að við lok samningstímans sem spannar aldarfjórðung afhendir Alcoa orkuverið. Um það var þó ekki samið núna, heldur má rekja það til lagasetningar um miðja 20. öldina. 

Ef horfið er svona langt aftur í tímann, þá má til dæmis spyrja sig hvernig meta á framlag álversins í Straumsvík, sem með orkukaupasamningi sínum skapaði þau skilyrði sem Alþjóðabankinn krafðist að væru fyrir hendi til að hann lánaði Íslendingum fyrir Búrfellsvirkjun?

Það var forsenda þeirrar miklu uppbyggingar í orkuiðnaði sem fram hefur farið á Íslandi og skilað Íslendingum einu öflugasta raforkukerfi í heiminum. Þrátt fyrir fámenni í strjálbýlu landi, þá búum við við eitt mesta afhendingaröryggi sem þekkist, vandfundið er lægra orkuverð til almennings og við flytjum út þekkingu okkar á þessu sviði. 

Skerðingin meiri hér á landi

Ketill gagnrýnir að ég hafi látið vera að nefna að nýju samningarnir í Kanada feli í sér víðtækar skerðingarheimildir á orku til álvera yfir vetrartímann.

Um það má segja, að þær skerðingarheimildir fylgja álagstoppum í Kanada en hafa ekki teljandi áhrif á framleiðsluna. Hver skerðing varir aðeins nokkrar klukkustundir og samkvæmt mínum heimildum kemur ekki til þess að taka þurfi ker úr umferð.

Annað er uppi á teningnum hér á landi. Í fyrra varð Alcoa Fjarðaál að draga úr framleiðslu sinni um 9 þúsund tonn vegna skerðinga Landsvirkjunar og Norðurál dró úr framleiðslu sinni um 4 þúsund tonn. Nú hefur Landsvirkjun tilkynnt að gripið verði til skerðinga í vetur.

Það er þá þriðja árið í röð sem skilyrði hafa skapast hjá Landsvirkjun sem valda því að álver hafi gripið til þess ráðs að draga úr framleiðslu með ærnum tilkostnaði. Það bendir ekki til að samningarnir hér á landi séu hagstæðari hvað þetta varðar.

Fjárfestingar skipta máli

Þá bendir Ketill á að mikilvægur hluti samninganna í Kanada feli í sér áætlanir Alcoa um að fjárfesta fyrir 250 milljónir dollara í álverunum þremur. Hann bætir við:

„Þarna er um að ræða verulega nýfjárfestingu, sem er til þess fallin að draga sjálft orkuverðið niður. Eins og alþekkt er í samningum um raforkusölu til álvera.“

Þetta er mjög góður punktur hjá Katli. Það er mikið um nýfjárfestingar í rekstri álvera. Enda þurfa þau stöðugt að uppfæra framleiðslulínu sína til að halda rekstrinum hagkvæmnum og standast samkeppni á heimsmarkaði. Fjárfesting upp á 250 milljónir dollara eða rúma 30 milljarða í þremur álverum, sem skilgreint er að eigi að koma til framkvæmda á fimm árum, er ekki óvenju mikil í því samhengi.

Ef horft er til þeirra þriggja álvera sem starfa á Íslandi hafa fjárfestingar numið hátt í þrefaldri þeirri upphæð á síðustu árum. Þar munar auðvitað mestu um 60 milljarða fjárfestingarverkefni Rio Tinto Alcan í Straumsvík sem er það stærsta hér á landi frá hruni.

Nýverið hleypti Norðurál af stokkunum fjárfestingarverkefni upp á á annan tug milljarða á Grundartanga, en það felst meðal annars í framleiðsluaukningu og því að taka næsta skref í virðiskeðjunni.

Raunar er ljóst að stefnt er að frekari nýfjárfestingu hjá öllum álverunum þremur, sem felast meðal annars í að auka afköst framleiðslulínunnar og framleiða verðmætari afurðir, auk þess sem umhverfis- og öryggismál verða áfram í forgrunni.

Orð Ketils minna á hversu margt spilar inn í við gerð orkusamninga, enda hafa þeir veruleg þjóðhagsleg áhrif, og þess vegna skiptir máli að horfa á heildarmyndina.

Að síðustu

Óhætt er að segja að forsendur umræðna um álverð og orkuverð séu á mikilli hreyfingu einmitt nú um stundir. Það er því mikið gagn í umræðu um orkuiðnað á Íslandi, sem er jú einn af undirstöðu atvinnuvegum þjóðarinnar. Um leið er mikilvægt að sú umræða sé fagleg og án upphrópana. Annars þokar okkur ekkert áfram í átt að upplýstri umræðu sem byggir á staðreyndum.

Pétur Blöndal

Pétur Blöndal

Þessa þanka skrifar framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, bókahöfundur og forðum blaðamaður.

Meira