Flestir eru með snjallsíma í vasanum. Ég á að vísu pabba og nokkra vini, sem eru enn með gamla farsíma frá Nokia og eru stoltir af því. Það er nostalgía sem vekur hugrenningatengsl við Nokian stígvélin sem allir Íslendingar óðu endalausar mýrarnar á þegar ég var pjakkur. Ég hélt raunar þar til ég gúglaði það fyrir þessa grein að þetta væru Nokia-stígvél!
Snjallsímar eður ei, þá eiga allir þessir símar sameiginlegt, að til þess að hægt sé að framleiða þá þarf málma. Það sama á við um tölvur og önnur tæki sem knýja áfram fjórðu iðnbyltinguna.
Í iPhone 8 er raunar notuð tegund af áli sem einnig er notuð í loftferðum og keppnisreiðhjólum, samkvæmt upplýsingum frá Apple. Það rifjar upp skáldsögu Jules Verne „Frá jörðinni til tunglsins“ frá árinu 1865, þar sem Verne er forspár um hvað verði uppistöðuefnið í fyrstu geimflauginni til að fara umhverfis tunglið 100 árum síðar: „Ál er þrisvar sinnum léttara en ál og virðist hafa verið skapað í þeim höfuðtilgangi að útvega okkur efniviðinn fyrir geimflaugina.“
Hann hitti naglann á höfuðið um sitthvað fleira varðandi geimferðina, svo sem fjölda geimfara og sirka þyngdina á geimfarinu. En benti á að verðið á áli væri fullhátt eða um 20 dollarar kílóið. Svo fínt var það í þá daga, að sagt er að Jósefína, drottning Napóleóns mikla, hafi orðið allra kvenna hamingjusömust þegar eiginmaður hennar gaf henni hring úr áli. Vinkonurnar áttu gullhringa í tugatali, en engin þvílíkt djásn sem álhring.
Það lagaðist þegar fjöldaframleiðsla hófst á áli um aldamótin 1900 og nú er verðið um 2 dollarar kílóið. Dollarinn hefur þó rýrnað eitthvað síðan sagan var skrifuð. Ef tekið er mið af verðbólgu á þessum 150 árum ætti álverðið að vera um það bil 150 sinnum hærra eða yfir 300 dollarar kílóið. En tækninni hefur fleygt fram og ál er framleitt með stöðugt hagkvæmari hætti.
Það voru Frakkinn Louis Toussant Héroult og Bandaríkjamaðurinn Charles Martin Hall, hvor í sínu lagi og án þess að vita hvor af öðrum, sem fundu upp nýja rafgreiningaraðferð til framleiðslu á áli sem er grundvöllur allrar álframleiðslu í dag enda þótt aðferðin hafi verið endurbætt síðan. Nefnist hún Hall-Héroult iðnferlið. Árið 1888 voru fyrstu álfélögin stofnuð í Frakklandi, Sviss og Bandaríkjunum og árið 1900 höfðu orðið svo stórstígar framfarir að framleidd voru 8 þúsund tonn af áli í heiminum eða tæp 1% af því sem Íslendingar framleiða í dag.
Verne áttaði sig á því að ál er léttur og sterkur málmur. Þess vegna var álið forsendan fyrir því að geimflaugar stæðu undir nafni. Á síðustu árum hafa bílaframleiðendur komið til móts við kröfur stjórnvalda um minni losun með því að auka hlutfall áls í bifreiðum, en alls má rekja um 12% losunar í Evrópu til bílaflotans. Með meiri álnotkun verða bifreiðar léttari, það dregur úr brennslu eldsneytis og þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda.
En ál hefur fleiri kosti. Það er auðmótanlegt og má berja það til og sjóða það saman, öfugt við koltrefjar sem dæmi sé tekið. Álið einangrar vel og eykur því geymsluþol matvæla og dregur úr orkunotkun bygginga. Það leiðir rafmagn og gegnir því stóru hlutverki í orkuskiptunum. Svo er það mikill kostur, að álið má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum. Einungis þarf 5% af orkunni sem fór í að framleiða það upphaflega til endurvinnslu álsins, sem þýðir að það er góður bísness fyrir endurvinnslufyrirtæki og jafnframt loftslagsvænt að endurvinna álið.
Og ál mun áreiðanlega gegna lykilhlutverki nú þegar horft er til næstu tunglferða, en NASA hefur gefið út að förinni sé heitið þangað þegar á næsta ári.