c

Pistlar:

8. mars 2012 kl. 18:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þekking og vilji til auðlindanýtingar

Hef átt þess kost í heilan dag að hlusta á áhugaverð erindi og fræðst um uppbyggingu, nýtingu og möguleika orkuauðlinda landsmanna. Tilefnið er 100 ára afmælisráðstefna Verkfræðingafélags Íslands. Eftir það er ekki annað hægt en að fyllast bjartsýni. Ísland er og verður land tækifæranna, land sem allir öfunda okkur af. Sagan sýnir okkur hvernig hin verkfræðilega þekking breytti Íslandi og varpaði okkur fram í 20. öldina og gerði okkur kleyft að reka sjálfstætt samfélag sem bauð þegnum sínum upp á allt það besta sem hægt er að bjóða í heiminum. Það var mikil breyting frá því ástandi sem hér ríkti um aldamótin 1900 þegar ár voru óbrúaðar, vegir ekki til og hafnir nánast tálsýn ein. Í upphafi erindis síns á dró Sveinn Þórðarson sagnfræðingur upp mynd af því hvernig helstu fjandar Íslands, ís og eldur urðu að framfaraafli okkar þegar við höfðum verkfræðilega þekkingu til að beisla auðlindir okkar. Þörf áminning fyrir okkur söguþjóðina og ekki síður áminning um að vilji er allt sem þarf eins og Einar Benediktsson orti um forðum daga. Á þeim tíma báru Íslendingar ekki höfuðið hátt.

Skýrt samband er milli þjóðartekna og orkunotkunar

Vatnsaflið og jarðhitinn voru þær auðlindir landsins sem lítt eða ekkert höfðu verið nýttar þegar tuttugasta öldin gekk í garð. Vatnsföllin höfðu verið kynslóðunum hættulegir faratálmar og jarðhiti var talinn til óþurftar, hvort heldur voru hverir eða laugar. Á tuttugustu öld tóku menn hins vegar að líta þessi náttúrufyrirbæri öðrum augum. Menn skyldu að vatnsaflið mátti nýta til að framleiða rafmagn og færa okkur birtu eftir aldalangt myrkur. Jarðhitinn gagnaðist meðal annars til upphitunar í þeim húsakynnum sem þá var tekið að reisa úr timbri og steinsteypu. Í stað þess að skjálfa vetrin löng erum við nú sú þjóð sem kyndir hús sín mest og best, - og fyrir minnstan pening. Talið er að við spörum okkur 80 milljarða króna árlega í gjaldeyri ef við kynntum með jarðefnaeldsneyti eins og nágranaþjóðir okkar. Undanfarna áratugi hefur orðið mikil uppbygging hérlendis á raforkukerfi og hitaveitum. Orkuverð er lágt hér ef borið er saman við nágrannalönd og það hefur jákvæð áhrif á kjör fólks og rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu. Staðreynd sem gleymist oft en skýrt samband er milli þjóðartekna og orkunotkunar.

Endurnýjanleg orka

Fyrir stuttu var Bill Gates, ríkasti maður heims, spurður að því ef hann væri að hefja feril sinn í atvinnulífinu, hvar hann myndi þá hasla sér völl. Í grænni orku, svaraði Gates. Fá lönd státa af jafn mörgum tækifærum á því sviði og Ísland. En tækifæri eru ekki allt, það þarf að hafa vilja og framtíðarsýn.

Síðan 1999 hefur verið unnið að rammaáætlun sem átti að skapa jafnvægi milli verndunar og nýtingar. Leiðin var vörðuð og síðan hefur verið reynt að búa til aðferðarfræði sem leggur skynsamlegt mat á þessa kosti. Stefnumótunin átti að liggja fyrir og úrvinnslan snérist um reiknanlega hluti að miklu leyti. En nú hikstar núverandi ríkisstjórn, umhverfisráðherra dregur lappirnar og pólitíkin er aftur að taka yfir. Þegar fólk er farið að tala að við skuldum næstu kynslóðum að gera ekki neitt sést hvaða rök eru að fæðast.

Allt er þetta í andstöðu við stefnu stjórnvalda eins og löggjafinn hefur samþykkt. Ef við skoðum til dæmis áherslur fjárfestingarsviðs Íslandsstofu eins og kemur fram í drögum að stefnumótun þá segir: „Sóst er eftir beinni erlendri fjárfestingu sem felur í sér stofnun og uppbyggingu nýs fyrirtækis frá grunni, stækkun á starfandi fyrirtæki eða samruna við erlent fyrirtæki þar sem til verður aukin framleiðsla, ný þekking, ný aðstaða, ný störf og/eða ný verðmæti til lengri tíma.“ Því er það svo að á meðan stefnan lítur út fyrir að snúast um atvinnusköpun og nýja þekkingu - allt fallegar heitingar - þá er reyndin önnur.

Framundan eru gríðarleg tækifæri í atvinnusköpun landsmanna. Rammaáætlun hefur skapað umgjörð til að vinna úr þeim og nú vantar bara vilja og heiðarleika hjá stjórnvöldum til að standa við gefin fyrirheit.