Við Íslendingar göngum að því vísu að hafa nóg rafmagn og nægan hita þegar við þurfum þess. Að tengja öryggismál við orkuöflun er okkur framandi og því skiljum við ekki þá hugsun sem ræður miklu í orkuöflun flestra annarra ríkja. Samfélögin velta á því að orka sé til staðar og sjá menn fyrir sér að þjóðfélagsskipunin myndi fljótt riðlast ef svo væri ekki. Að tryggja næga orku er því öryggismál að hluta og sú afstaða skýrir afstöðu stórveldanna til orkuöflunar.
Þekking til útflutnings
Hér á Íslandi hefur okkur tekist vel upp með að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar. Um leið höfum við byggt upp mikinn þekkingaiðnað enda er virkjun vatnsafls á Íslandi gott dæmi um uppbyggingu tækniþekkingar í þróunarlandi. Þessi þekking gerir okkur kleyft í dag að veita mikla þróunaraðstoð á þessu sviði og er Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna skýrasta dæmið um það en þar aðstoða Íslendingar þróunarlönd við að byggja upp sérfræðingahópa til að rannsaka og nýta jarðhitann. Frá skólanum hafa hátt í 500 nemendur útskrifast frá 50 þróunarlöndum. Sjálfir ættum við að vera minnugir þess að það er ekki svo langt síðan verkfræðilegt sjálfstæði þjóðarinnar var tryggt. Það gerðist ekki fyrr en með Sigöldu-virkjun að íslenskum verkfræðingum var treyst til að sjá alfarið um hönnunina. Norskir verkfræðingar höfðu hannað Sogsvirkjanirnar og bandarískir verkfræðingar sáu um Búrfellsvirkjun, að hluta til að kröfu lánveitenda. Síðan hafa íslenskir verkfræðingar séð um hönnun allra virkjana hér á landi og við byggingu Kárahnjúkavirkjun voru þeir í lykilhlutverki en þar var um að ræða gríðarlega flókið verkfræðilegt úrlausnarefni. En einhverra hluta vegna er það svo að sá sem byggir virkjun fær litla athygli í samanburði við skáldið sem mótmælir henni.
Litið til Íslands
Rekstur jarðhitaskólans og mikil ásókn í íslenska þekkingu sýnir að margar þjóðir líta til Íslands sem fyrirmyndar í orkuöflun og nýtingu jarðhita. Með nýtingu innlendra orkugjafa hafa Íslendingar byggt upp öflugt þjóðfélag sem sparar sér árlega gríðarlega fjármuni í erlendum gjaldeyri. Eftir olíukreppuna upp úr 1970 var sett af stað mikið átak við að auka nýtingu jarðhitans. Ef skoðaður er samanburður á hitaveitukostnaði og hvað kosta myndi að hita með olíu þá sést að sparnaðurinn er svipaður og heildarkostnaður af olíu- og bensínnotkun þjóðarinnar. Samanburður á húshitunarkostnaði hér og í Danmörku síðan 1970 sýnir að Íslendingar hafa sparað sér sem nemur 1,5 landsframleiðslu. Líklega er fátt sem skýrir eins greinilega af hverju okkur hefur tekist að jafna lífskjörin á milli þessara tveggja landa jafn rækilega. Þekking okkar í orkuöflun og orkuvinnslu er mikilvæg til að tryggja öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. Það er munaður að geta trúað því að það séu sjálfsagðir hlutir.