c

Pistlar:

18. október 2012 kl. 10:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efnahagsmálaráðherrann Jóhanna

Jóhanna Sigurðardóttir hefur ákveðið að hætta pólitískum afskiptum eftir þetta kjörtímabil. Nýr formaður Samfylkingarinnar verður kosinn í upphafi næsta árs en Jóhanna hefur gefið það út að hún hyggist sitja sem forsætisráðherra til loka tímabilsins. Nokkrar tilraunir hafa nú þegar verið gerðar til að meta hlutverk hennar í stjórnmálasögunni þó það bíði líklega sagnfræðinga framtíðarinnar að halda því verki áfram. Það er hins vegar freistandi að skoða nánar forsætisráðherratíð Jóhönnu og hvernig hún hefur mótað embættið með sérstakri vísun í efnahagsmálin. Það voru jú þau sem gerðu hana að forsætisráðherra í kjölfar bankahrunsins. 

Lengst af hefur yfirstjórn efnahagsmála verið fylgifiskur forsætisráðuneytisins. Ekki þannig að ráðuneytið hefði hin daglegu afskipti efnahagsmála á sinni könnu, þau voru meira í fagráðuneytunum. Það var hins vegar hlutverk forsætisráðherra að samræma stefnumótun á sviði efnahagsmála. Er skemmst að minnast þeirra ummæla Steingríms Hermannssonar að forsætisráðuneytið jafngilti doktorsnámi í hagfræði. Ólíklegt verður að teljast að Jóhanna geri kröfu til slíks titils eftir veru sína í forsætisráðuneytinu.

Höfðu eflt ráðuneytið

Síðustu forverar Jóhönnu í forsætisráðuneytinu höfðu tekið þá stefnu að efla sérfræðiþekkingu innan ráðuneytisins á sviði efnahagsmála. Á uppgangstímum þótti meira að segja verjandi að ráða inn menn sem annars hefðu getað fengið störf hjá einkageiranum. Starfsmenn forsætisráðuneytisins urðu hins vegar varir við miklar breytingar þegar Jóhanna Sigurðardóttir kom þangað inn í febrúarbyrjun 2009. Frá byrjun skynjuðu þeir að hún vildi ýta öllum efnahagsmálum frá sér. Sumir skýrðu hegðun Jóhönnu svo að hún ætti í erfiðleikum með að lesa langar skýrslur um flókin efnahagsmál, oft á ensku. Hér er snert við viðkvæmu máli en vissulega reyndu andstæðingar Jóhönnu að gera sér mat úr meintu kunnáttuleysi hennar í erlendum tungumálum. Þannig hafði hún að þeirra sögn vanrækt að tala máli þjóðarinnar útávið, bæði gagnvart fjölmiðlum og erlendum ráðamönnum. Þetta varð mest áberandi í Icesave-málinu sem endaði með því að forsetinn stökk inn í hlutverk forsætisráðherrans og gerðist talsmaður íslenskra hagsmuna í erlendum fjölmiðlum. Hvað sem hæft er í þessu þá veigraði Jóhanna sér við því að lesa skýrslur um efnahagsmál og bankahrun á ensku. Henni er reyndar vorkunn. Bæði eru skýrslurnar tyrfnar og það getur varla verið hlutverk æðsta leiðtoga þjóðarinnar að þumbast í gegnum hverja skýrsluna af annarri. Hann hlaut að geta treyst á hæfni samstarfsmanna til að setja sig inn í mál. En til þess taldi Jóhanna nauðsynlegt að gera verulega breytingu á starfsmannamálum forsætisráðuneytisins. „Hver forsætisráðherra hefur sitt eigið verklag eins og dæmin sanna," sagði aðstoðarmaður Jóhönnu, Hrannar B. Arnarsson, á vefsíðu sinni um það leyti sem hann kom inn í ráðuneytið.  

Við rannsókn vegna bókar minnar um Icesave-málið gerði ég nokkra skoðun á ákvarðanatöku í ríkisstjórninni. Það tengdist fyrst og fremst samningsferlinu sem Svavar Gestsson stýrði en breytingar á forsætisráðuneytinu skiptu máli til að skilja það mál allt. Það var mjög óheppilegt að forsætisráðuneytið sniðgekk Icesave-málið með öllu og að Íslendingar skyldu reka það í gegnum fjármálaráðuneytið. Þar með hurfu mikilsverð tækifæri til að reka málið á diplómatískum grunni á efsta sviði stjórnsýslunnar. Í stað þess viðukenndu Íslendingar aðferðafræði Breta og Hollendinga og einbeittu sér að því að þrátta um vexti. Það endaði með hörmungarsamningnum 5. júní 2009.

Lykilmenn settir til hliðar

Það vaktu athygli strax í upphafi forsætisráðherratíðar Jóhönnu að margir af lykilmönnum ráðuneytisins voru settir til hliðar og gamlir samstarfsmenn Jóhönnu, flestir úr félagsmálaráðuneytinu þar sem Jóhanna hafði verið áður, voru sóttir. Fyrsta ber að nefna Ragnhildi Arnljótsdóttur sem var sett ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu frá 1. febrúar 2009, sama dag og Jóhanna tók við embætti forsætisráðherra. Á sama tíma fékk Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri tímabundið leyfi frá störfum og einnig Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins. Í sögu lýðveldisins hafa „hreinsanir" í embættismannastétt aldrei verið jafnstórtækar, en þetta voru sannarlega óvenjulegir tímar. Heimildir til tilfærslna á ráðuneytisstarfsmönnum eru vissulega til, ekki síst á ráðuneytisstjórum, en umfangið er fáheyrt. Gera má ráð fyrir að þessar aðgerðir skapi fordæmi fyrir næstu ríkisstjórnir þannig að embættismenn verði smám saman pólitískari.

Bolli Þór Bollason átti langan embættisferil að baki. Hann hafði verið hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun frá árinu 1975, var skipaður skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1987 og ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu  2004. Reynsla hans var mikil. Eins og gefur að skilja er ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins í lykilstöðu í stjórnsýslunni, en jafnframt því embætti gegnir hann störfum ritara ríkisráðs Íslands. Sömuleiðis sótti Jóhanna Ágúst Geir Ágústsson, sem hafði verið lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu í hennar tíð og naut óskoraðs trúnaðar hennar. Þau Ragnhildur og Ágúst, ásamt Hrannari, voru sá hópur sem Jóhanna treysti fullkomlega og í raun vakti athygli í forsætisráðuneytinu hve lítil samskipti hún átti við aðra starfsmenn, jafnvel þá sem höfðu verið í lykilstöðu. Það þarf ekki að koma á óvart, í ljósi samskiptahátta hennar, að samskiptin séu lítil við menn sem höfðu komið inn í ráðuneytið fyrir tilstilli Geirs H. Haarde. Það er ekki óeðlilegt en ekki verður séð að Jóhanna hafi sótt neina hagfræðiþekkingu inn í ráðuneytið í staðinn.

Óvenjulegri var hegðun forsætisráðherra gagnvart öðrum starfsmönnum ráðuneytisins, sem sumir hverjir voru búnir að vera þar árum saman og höfðu engan pólitískan bakgrunn. Þar má nefna Halldór Árnason hagfræðing, sem Jóhanna yrti aldrei á, en Halldór hafði gegnt mörgum ábyrgðarstöðum innan stjórnsýslunnar og var um skeið settur ráðuneytisstjóri. Þeir starfsmenn ráðuneytisins, sem voru að störfum þessa fyrstu mánuði ríkisstjórnar Jóhönnu, telja að mikið rof hafi orðið í öllu verklagi og sumir gengu svo langt að segja að ráðuneytið hefði verið hálflamað um tíma og var ástandið þó erfitt fyrir.

Efnahagsmálin færð í burtu

En Jóhanna Sigurðardóttir ákvað að ganga alla leið og hreinsa efnahagsmálin með öllu úr forsætisráðuneytinu. Vitað var að hún hafði lítinn sem engan persónulegan áhuga á efnahagsmálum í víðara samhengi. Það hlýtur hins vegar að koma á óvart hve gersamlega hún fjarlægði þau úr forsætisráðuneytinu. Í maí 2009 urðu þannig mikilvægar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins þegar efnahagsmál voru færð undir viðskiptaráðuneytið og heiti ráðuneytisins breytt til samræmis í ráðuneyti efnahags- og viðskiptamála. Þar með var stjórn efnahagsmála færð í einu vetfangi frá forsætisráðuneytinu. Seðlabanki Íslands, efnahagsskrifstofa forsætisráðuneytisins og Hagstofan fluttust undir þetta nýja ráðuneyti haustið eftir. Allt átti þetta sér forsendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar sagði meðal annars: „Til að tryggja markvissa framkvæmd efnahagsaðgerða stjórnvalda og endurnýja traust á fjármálakerfi landsins mun ríkisstjórnin ráðast í skipulagsbreytingar í stjórnkerfinu, meðal annars með stofnun sérstaks efnahags- og viðskiptaráðuneytis." Þegar upp er staðið má efast um að þessar aðgerðir hafi átt nokkuð með það að gera að traust á Íslandi jókst á ný, hafi það yfir höfuð gert það. Það er einnig rangt upplegg eins og birtist í Fréttablaðinu í dag um hrunið að breytingar á stjórnarráðinu hafi verið vegna tilmæla í rannsóknarskýrslu Alþingis. Hún kom ekki út fyrr en 2010, ári eftir að þetta var.

Hugsanlega tengdist það verkaskiptingu Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar að efnahagsmálin væru alfarið á könnu þess siðarnefnda. Það hlýtur hins vegar að vekja furðu hve algerlega forsætisráðherra ýtti þessum málum frá sér. Þekkingarleysið opinberaðist glögglega þegar Jóhanna lýsti stuðningi við Icesave-samninginn óséðan í sumarbyrjun 2009. Fáum stjórnmálamönnum hefðu verið fyrirgefin slík afglöp. Hugsanlegt er að fylgjendur Jóhönnu geri yfirhöfuð engar kröfur til hennar á þessu sviði, hennar styrkleiki sé annars staðar. Sjálf hafði hún ætlað að vera hætt afskiptum af stjórnmálum þegar hennar tími kom í forsætisráðuneytinu. Gleymdist þá að hún hafði sjálf setið í ,,hrunstjórninni" enda setti Samfylkingin alla ábyrgð á því á herðar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þegar umsátrið var um Alþingishúsið í byrjun árs 2009 hafði Samfylkingarmaðurinn Hjálmar Sveinsson (sjá, bókin Fólk og fréttir eftir Sigurð Boga Sævarsson) á orði að Jóhanna hefði verið eini ráðherrann sem hefði getað hætt sér út úr þinghúsinu! Fyrir utan hvað það segir um mótmælin og hve friðsöm þau voru þá er það táknrænt fyrir hina heilögu stöðu Jóhönnu.

Íbúðalánasjóður og verðtryggingin

Tvennt hefur þó staðið uppúr þegar kemur að baráttumálum Jóhönnu á sviði efnahagsmála. Annars vegar er það velþekkur áhugi hennar á íbúðalánamarkaði sem hún hefur viljað reka með niðurgreiðslusniði. Það hlýtur að valda henni vonbrigðum að þurfa þessa dagana horfa upp á Íbúðalánasjóð hálfgjaldþrota að biðja um nýtt tugmiljarða framlag ríkissjóðs. Ríkisstjórn hennar er þegar búin að leggja sjóðnum til 30 milljarða króna. Orðið skipbrot hefur verið notað af minna tilefni. Hins vegar er það svo verðtryggingin. Jóhanna hefur haft það á stefnuskrá sinni um árabil að afnema verðtryggingu. Fyrir stuttu sagði hún í viðtali á útvarpsstöðinni Bylgjunni að slïkt væri ekki mögulegt. Við það tækifæri sagði Sigurður G. Guðjónsson lögmaður í Facebook-færslu að hún hefði allt frá 2009 haft færi á að festa grunn neysluverðsvísitölunnar og jafnvel binda árs verðtryggingu við t.d 3,5% á ári. Um leið bætti hann við: ,,Ráðherrann hefur ekkert gert til að draga úr eignatifærslu frá skuldurum til fjármagnseigenda, sem þó ætti að vera höfuðmarkmið hins sanna jafnaðarmanns, sem forsætisráðherrann er ekki og hefur aldrei verið."

Þetta er hörð kveðja frá lögmanninum en fleiri deila þessari skoðun. Inni á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna er rifjuð upp barátta Jóhönnu gegn verðtryggingunni. Til marks um þessa ,,einörðu" baráttu Jóhönnu er grein sem birtist eftir hana í Morgunblaðinu 2. nóvember 1996. Þar hefur hún m.a. þetta að segja um aðgerðaleysi þáverandi ríkisstjórnar:

,,Allt þetta ætti nú að skapa forsendur til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna. En allt kemur fyrir ekki. Rökstuðningur ráðherrans í svari við fyrirspurn minni byggist á gamla verðbólguhugsunarhættinum, - sem ríkisstjórnin virðist föst í."

Þá eru lokaorð hennar með hliðsjón af núverandi stöðu heimilanna eftirtektarverð:

,,Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta."

Um þetta seigir á heimasíðu samtakanna: ,,Það átakanlegasta við þessa upprifjun er sú augljósa staðreynd, að þrátt fyrir öll þau ár sem liðin eru frá því að hún birtist, hefur ekkert breyst, nema að fjárskuldbindingar heimilanna hafa hækkað margfalt meira en nokkurn óraði fyrir af völdum verðtryggingarinnar."

Þetta eru kveðjuorð þessara helstu baráttusamtaka heimilanna í landinu nú þegar Jóhanna yfirgefur hið pólitíska svið.