c

Pistlar:

25. október 2012 kl. 21:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Brotlending athafnamanns

Rekstrarsögu Pálma Haraldssonar á Íslandi virðist lokið í bili. Með sölu á flugrekstri Iceland Express hefur hann játað sig sigraðan í því verðstríði sem hefur geysað á flugmarkaðinum undanfarin misseri. Pálmi hefur séð sig knúinn til að dæla fjármunum inn í reksturinn til að halda félaginu á floti. Nú er augljóst að hann taldi sig ekki sjá til lands í þeim efnum og því snéri hann sér til Skúla Mogensen eiganda WOW Air og bauð fyrirtækið til sölu. Ekki er nema mánuður síðan Viðskiptablaðið sló þeim félögum upp á forsíðu með fyrirsögninni: ,,Störukeppnin harðnar". Hugsanlega er hægt að segja núna að Pálmi hafi litið undan!

Pálmi hefur verið einn umdeildasti maður íslensku útrásarinnar og margir viðskiptasamningar hans hafa mátt þola harða gagnrýni. Þrotabú fjárfestingafélags hans Fons, hefur þannig séð sig knúið til að reka umfangsmikli málaferli gegn Pálma og það hafa einnig aðrir gert. Um tíma reyndi skilanefnd Glitnis að kyrrsetja eigur hans. Samkeppnisyfirvöld hafa sömuleiðis talið sig eiga ýmislegt vantalað við hann eins og var rakið í ágætri fréttaskýringu hér á mbl.is í gær. Skyndileg stöðvun á rekstri flugfélags eins og Iceland Express (eða ferðaskrifstofu) mun án efa valda mörgum óþægindum. Ólíklegt verður að telja að þeim fjölgi sem hugsi hlýlega til Pálma við það.

Stóð uppi með 8 til 10 milljarða

Eftir að íslensku viðskiptablokkirnar hrundu árið 2008 hafa flestir fyrrum viðskiptajöfrar mátt standa í harðri baráttu, bæði í dómstólum og gagnvart almenningsálitinu. Þar hefur Pálmi mátt þola sitt og fáir tekið til varnar fyrir hans hönd. Talið var að hann hefði haft yfir að ráð sjóðum upp á 8 til 10 milljarða króna eftir hrunið og er ljóst að hann hefur brennt stórum hluta þeirra í rekstur Iceland Express undanfarið. Líklega telur Pálmi komið nóg og þeir sem til þekkja telja ólíklegt að hann komi nálægt rekstri hér á landi í bráð.

Pálmi varð fyrst kunnur í viðskiptum þegar hann gerðist framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. Félagið var í mjög erfiðri stöðu og var Pálma þakkað að því var snúið við og bjargaði það án efa fjárhag margra garðyrkjubænda sem voru í ábyrgðum fyrir rekstrinum. Pálmi varð strax umdeilur, meðal annars vegna ,,Öskjuhlíðasamninga" við verslunarmenn og þar á meðal Jón Ásgeir Jóhannesson. Síðar urðu þeir nánir viðskiptafélagar og átti Pálmi þá ekki nógu sterk orð til að lýsa viðskiptasnilld Jóns Ásgeirs.

Fyrstu afskipti Pálma af flugrekstri voru þegar hann hóf að kaupa hlutabréf í Icelandair upp úr  2000 en þá var gengið að síga niður í 1. Pálmi kom inn á hárréttum tíma og fljótlega hafði hann margfaldað fjárfestingu sína en þegar hann seldi árið 2004 átti hann um 8% í félaginu. Í raun var erfitt að sjá hvoru megin hann var því á sama tíma keypti hann Iceland Express með Jóhannesi Kristinssyni, hans nánasta viðskiptafélaga. Saman áttu þeir fjárfestingafélagi Fons sem virtist hafa ótakmarkaða fjárfestingagetu á tímabili. Viðskiptablaðamenn og greiningaraðilar áttu hins vegar alltaf í stökustu vandræðum með að átta sig á fjárfestingastefnu fyrirtækisins.

Keypt á daginn og selt á kvöldin!

En fjárfestingin í Icelandair setti fætuna undir Pálma og fljótlega varða hann áberandi og náinn viðskiptafélagi Jóna Ásgeirs og Baugsblokkarinnar í viðskiptalífinu. Allt var á fleygiferð og Pálmi dróg ekki af sér. Fyrirtæki voru keypt og seld á methraða og sum eignaðist Pálmi oft og seldi jafnharðan eins og átti við um Skeljung. Kunnur varð hann einnig af kaupum sínum á Securitas en þar greiddi hann eina hæstu premíu ofan á EBITDA sem hið uppspennta íslenska viðskiptalíf hafði séð eða 15 sinnum EBITDA. Pálmi var síðan þáttakandi í 365 og Dagsbrún þar sem hann stóð fastur við hlið Jóns Ásgeirs og sat gjarnan í stjórnum félaganna. Því miður snérust öll þessi viðskipti um eitthvað annað en að styðja við áhugaverðan rekstur eða skapa verðmæti með þeim hætti.

Erlendis var Pálmi einnig sterklega tengdur viðskiptum Jóns Ásgeirs, fylgdi honum í stóru verkefnunum en var með nokkur smærri verkefni líka. Tölurnar urðu stöðugt ævintýralegri. Í maí 2007 var þannig upp úr þurru greint frá því að Pálmi hefði keypt nánast alla hluti stofnanda og forsvarmanns fasteignafélagsins Keops í Danmörku og yrði með því stærsti hluthafinn í félaginu.
Pálmi, sem á þeim tíma átti stóran hluti Sterling sem rekið var með gengdarlausu tapi, greiddi 1,3 milljarða danskra króna, jafnvirði um þrettán milljarða íslenskra króna á þávirði (26 milljarða í dag!), fyrir 32 prósenta hlut í Keops en félagið var þá metið á ríflega 30 milljarða króna. Síðar kom í ljós að allt var þetta keypt á lánum.

Hvað skilaði Iceland?

Stærsta ævintýrið var tengt Iceland og Big Food og sumarið 2008 reyndi Pálmi að sannfæra ritara þessarar greinar um að hann hefði hagnast um 70 til 80 milljarða króna á viðskiptum með félagið, á þáverandi gengi. Sú tala er jafnvel ótrúverðugari nú en þá en eigi að síður má gera ráð fyrir að þar hafi arbærustu fjárfestingar hans verið. Hagnaðurinn ef þeim hefur farið í að greiða niður flugævintýri Pálma sem hefur tapað ævintýralegum fjármunum á flugrekstri. Það hefur fyrir löngu étið upp allan þann hagnað sem fyrstu fjárfestingarnar í Icelandair sköpuðu.

Nú eru nákvæmlega 9 ár síðan Pálmi kom inn í rekstur Iceland Express. Augljóst var frá upphafi að ætlunin var að breyta markaðnum með yfirtökum og sameiningum, oft í tengslum hinar sérstöku fjárfestingar Hannesar Smárasonar. Félögin komu í röðum og í lok árs 2006, einu og hálfu ári fyrir hrun er Northern Travel Holding stofnað, en eigendur þess voru FL Group, Fons og Sund. Eignir félagsins voru Iceland Express, Sterling, Hekla Travel auk 51% hlut í Astreus. Áður hafði Fons kastað nokkrum fjármunum í að taka stöðu í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe. Erfitt er að ráða í hvað vakti fyrir mönnum en sumir töldu að ætlunin væri að stofna risavaxið norður-evrópskt lággjaldaflugfélag.

Röð gjaldþrota

Þegar hrunið skall yfir tók Pálmi Iceland Express til sín aftur, það átti að vera sú rekstrarlega eining sem átti að halda honum á floti í íslensku viðskiptalífi. Mánuði áður, eða í október 2008, hafði Sterling orðið gjaldþrota. Pálmi hafði lagt félaginu til stórfé áður, sjálfur segir hann 500 milljónir DKK í viðtali við Morgunblaðið, að meðtöldu upprunalegu hlutafé er upphæðin áreiðanlega enn hærri. Tap lánadrottna og farþega reyndist nokkrir milljarðar í viðbót.

Astreus varð gjaldþrota fyrir ári síðan. Pálmi hafði lagt því til 25 milljónir punda að sögn Hugh Parry fyrrverandi forstjóra félagsins. Og núna er það Iceland Express, en Pálmi hefur lagt því til yfir 6 milljarða króna frá því að hann byrjaði að reka félagið að því er komið hefur fram í fréttum. Það hefur þá væntanlega komið sér vel að hann fékk félagið fyrir lítið.

Er þorandi að leggja allt þetta tap saman? Samtals er þetta vel yfir 20 milljarða króna sem eru tapaðir og vitaskuld velta margir fyrir sér hvaðan fjármunirnir komu?  Það er efni í aðra grein!