c

Pistlar:

13. febrúar 2013 kl. 12:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagvöxtur forsenda velferðar

Norræn velferðarstjórn var ein af lykilskilgreiningum núverandi stjórnar. Með því vildi stjórnin bregða hagrænum forsendum undir efnahagsstjórn sína og tengja sig við þau lönd sem almennt voru talin búa fólki sínu best lífsskilyrði. Margt í þessari tengingu var villandi svo ekki sé meira sagt. Hér á Íslandi var augljóslega gengið mun lengra til vinstri en gert hefur verið á Norðurlöndunum þar sem systurflokkar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafa í fæstum tilvikum fengið völd á við það sem VG fékk hér á landi. Þeir eru einfaldlega taldir illa stjórntækir annars staðar. Sögulegar forsendur gerðu það hins vegar að verkum að þeir fengu einstakt tækifæri til að setja mark sitt á hagstjórn hér á landi.

Í nýlegri útgáfu Economist tímaritsins er fjallað rækilega um norræna efnahagsmódelið (sænska-módelið er það einnig kallað) í 14 síðna blaðauka. „Helsti lærdómur frá Norðurlöndunum snýr ekki að hugmyndafræði, heldur hagsýni," segir í leiðara blaðsins. Sú lýsing sem þar er dregin upp kemur nákvæmlega heim og saman við það sem Dr. Nils Karlson, forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi, sagði í fyrirlestri í nýlegri heimsókn sem því miður var allt of lítill gaumur gefin í íslenskum fjölmiðlum. Karlson rakti í fyrirlestri sínum reynslu Svía sem komust í ógöngur í upphafi tíunda áratugs tuttugustu aldar og kusu að skipta um kúrs í kjölfarið. Atvinnufrelsi hefur því verið að aukast í Svíþjóð og skattar að lækka, öfugt við það sem við höfum séð undir forystu velferðarstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Norræna velferðarmódelið

Economist veltir því fyrir sér hvernig Norðurlöndunum hafi tekist að byggja upp þjóðfélög sem í senn bjóði þegnum sínum upp á velferð og hagvöxt. Hugsanlega er það tengt því hvernig þessu tvennu er forgangsraðað. Í grein í Fjármálatíðindum árið 2005 skrifaði Jónas H. Haralz hagfræðingur áhugaverða og upplýsandi grein um námsár sín í Svíþjóð. Þar segir Jónas frá því að vorið 2004 hafi hann farið í stutta heimsókn til Svíþjóðar. Svo vildi til að einmitt um það leyti hélt sænski jafnaðarmannaflokkurinn nokkurra daga aukaþing. Talið var að þingið hefði upphaflega átt að vera til undirbúnings þeim umskiptum í forystu flokksins að Anna Lindh tæki við af Göran Persson. Vegna hörmulegs fráfalls hennar gat þetta þó ekki orðið og snerist þingið því um stefnumál en ekki forystuskipti.

Það var Jónasi minnisstætt að einkunnarorðin sem við blöstu á mikilfenglegum veggspjöldum um allt í Svíþjóð voru hagvöxtur og velferð - För tillväxt och välfärd. „Að hagvöxtur var nefndur á undan velferðinni var sjálfsagt ekki tilviljun, heldur vottur um þann skilning að hagvöxtur sé forsenda velferðar. En hvernig hugsaði flokkurinn sér þá að efla mætti hagvöxtinn svo að velferðin blómgaðist," spyr Jónas í grein sinni. Hann sagði að jafnaðarmannaþingið hafi í raun haft lítið um það að segja. Það voru fyrst og fremst skattamál sem sett voru á oddinn, en þó ekki neitt fráhvarf frá þeirri háskattastefnu sem tengist miklum útgjöldum til velferðar í Svíþjóð. Jónas rifjar upp að helstu atriðin voru niðurfelling eignarskatts, nokkur slökun á sköttun fyrirtækja og lækkun jaðarskatta einstaklinga með lágar tekjur, í því augnamiði að örva inngöngu á vinnumarkaðinn. Jafnvel um þessi atriði lágu þó ekki fyrir ákveðnar tillögur, þar sem ekki hafði tekist að ná um þær samstöðu við þá bandalagsflokka ríkisstjórnarinnar sem stóðu til vinstri við jafnaðarmenn. Rétt eins og VG gerði hér. Lögð var áhersla á stuðning við smá fyrirtæki og meðalstór, sem oftast eiga mestan þátt í atvinnuaukningu. Sjónarmið sem hægri stjórnir fyrir bankahrun því miður gættu ekki nægilega að og „velferðarstjórnin" hundsaði síðan.

Hyggjuvit bóndans og sjómannsins

Engum vafa er undirorpið að Göran Persson hafði talsvert með það að segja hver þróunin varð í Svíþjóð á síðasta áratug en hann hafði hyggjuvit bóndans að leiðarljósi. Rétt eins og Lúðvík Jósepsson, ein helsti ráðamaður íslenskra sósíalista á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, hafði hyggjuvit sjómannsins að leiðarljósi. Í  nýrri ævisögu Svavars Gestssonar sendiherra, Hreint út sagt, er pragmatisma Lúðvíks lýst með þessum hætti: ,,Þannig hafði hann í senn lag á því að skipuleggja hina róttæku verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Öll pólitík Lúðvíks á landsvísu einkenndist af því sama: Byggjum upp atvinnuvegina og þá getum við hækkað kaupið! Þegar hann komst til áhrifa varð pólitík hans þessi: Kaupum togara, byggjum upp fiskvinnsluna og færum út landhelgina og sjá: Lífskjörin batna. Og það varð svo." (bls. 91-92) Þessi skilningur á að hagvöxtur væri forsenda velferðar hefur þannig verið til staðar innan vinstri hreyfingarinnar hér á Íslandi en oftar en ekki verið ofurliði borin. Fyrst vegna öfgasjónarmiða stéttabaráttunnar og síðar vegna náttúruverndaröfga. Í dag er VG flokkur sem hefur lítil sem engin tengsl við velferðarmál launafólks, flokkur sem fórnar hagsýni fyrir hugmyndafræði sem gerir það að verkum að aðeins hörðustu Stalínistarnir sitja nú eftir í flokknum eftir fjögurra ára stjórnarsetu.  - Og það undir forystu manns sem vel hefði verið hægt að sjá fyrir sér sem arftaka Lúðvíks.

Í grein Economist er reyndar Íslands að engu getið, hefur sjálfsagt ekki ná máli. Greinin bendir á að eftir alvarlega kreppu hafi verið breytt um kúrs á Norðurlöndum eftir 1990. Svíar hafa dregið úr skattheimtu sem nemur 18% af vergri landsframleiðslu og er nú hlutfallið farið að nálgast það sem þekkist í Bretlandi. Samhliða hefur verið haldið fast utan um ríkisfjármálin. Það hefur verið gert með því að beita markaðslausnum á mörgum sviðum velferðarmála og er þar ekkert undanskilið. Í fyrstu héldu margir hefðbundinna stuðningsmanna jafnaðarmanna að þeir hefðu svikið hugsjónir þeirra. ,,En ég tel að okkur hafi tekizt að bjarga velferðarkerfinu," sagði Göran Persson í viðtali við Morgunblaðið í júlí 1998 þegar hann kom hingað í hálfopinbera heimsókn. Reynsla Svía er því að hagvöxtur er forsenda velferðar en ekki öfugt eins og íslenska velferðarstjórnin virtist ætla sér að sanna.