c

Pistlar:

21. febrúar 2013 kl. 16:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þegar skatturinn tekur skáldskapnum fram

3. mars 1976 skrifaði sænski rithöfundurinn Astrid Lindgren grein í götublaðið Expressen sem bar hið torkennilega heiti „Pomperipossa in Monismania". Um var að ræða háðsádeilu (e. satirical allegory) um barnabókahöfund í fjarlægu land. Engum duldist hvað við var átt; greinin fjallaði um Astrid (Pomperipossa) og landið var Svíþjóð (Monismania). Greinin var skrifuð í tilefni þess að Lindgren hafði uppgötvað að hún greiddi hvorki meira né minna en 102% skatt af skáldskap sínum. Þó Lindgren væri ástríðufullur jafnaðarmaður þá fannst meira að segja henni nóg um. Skattlagningin kom til vegna þess að henni var í senn gert að greiða tekjuskatt og atvinnurekendaskatt. Líklega er þetta eitt þekktasta dæmið um ógöngur jaðarskattlagningar, skatturinn tók svo sannarlega skáldskapnum fram!

Auðmenn og stórfyrirtæki flúðu

Grein Astrid kallaði fram mikla umræðu um skattkerfið í Svíþjóð og hún magnaðist upp þegar leikstjórinn Ingmar Bergman birti um svipað leyti kveðjubréf til fósturjarðarinnar. Þá hafði hann lent í harkalegri skattarannsókn sem varð til þess að hann lokaði allri starfsemi sinni í Svíþjóð og flutti til Þýskalands þar sem hann dvaldist næsta áratuginn. Fleiri og fleiri vellaunaðir Svíar flúðu land og sjálfsagt muna margir eftir því þegar tennisstjarnan Björn Borg flutti til Mónakó. Ýmis stórfyrirtæki flúðu einnig land og er Ikea líklega þar þekktast. Hvort það var nákvæmlega þetta eða ekki þá féll stjórn jafnaðarmanna í fyrsta skipti í 40 ár í kosningum um haustið eftir að Astrid birti grein sína. Líklega var það vantrú fólks á skattastefnunni sem feldi hana.

Okkur Íslendingum er tamt að miða okkur við Svía og önnur Norðurlönd. Hér á þessum vettvangi hefur verið bent á að stundum hafa menn ruglað saman velferðarkerfi hóflegrar skattlagningar og millifærslukerfi ofurskattlagningar. Þessi misskilningur hefur verið grundvöllur skattastefnu núverandi ríkisstjórnar sem meðal annars birtist í því að félagar innan VG töluðu fyrir því að  leggja á 30% fjármagnstekjuskatt árið eftir að þeir náðu völdum hér á landi.

Millifærslukerfið drekkti velferðarkerfinu

Dr. Nils Karlson, forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi, flutti fyrirlestur um nýju sænsku leiðina hér á landi fyrir rúmum mánuði. Hjá honum kom fram að í raun mætti tala um þrjár sænskar leiðir. Hin fyrsta hefði verið farin 1870-1970, þegar atvinnufrelsi hefði verið víðtækt í Svíþjóð og skattar lágir. Til dæmis hefðu skattar verið lægri en í Bandaríkjunum fram undir 1960. Önnur sænska leiðin hefði verið mörkuð undir stjórn jafnaðarmanna frá 1970 til 1990. Líklega má kenna þann tíma við Olof Palme sem komst til valda 1969 og hækkaði skatta jafnt og þétt allan sinn valdatíma. Á þeim tíma jukust ríkisafskipti, skattar voru hækkaðir og tekjum endurdreift í miklum mæli. Millifærslukerfið drekkti velferðarkerfinu. Það var þá sem Astrid Lindgren og öðrum velstæðum Svíum var nóg boðið. Kjósendur kváðu upp sinn dóm og eftir það var nýja sænska leiðin fetuð. Skattar hefðu lækkað úr yfir 52% af vergri landsframleiðslu árið 1990, sem hefði verið hæsta hlutfall í hinum vestræna heimi, í um 43%. Rýmkað hefði verið um margvíslegar reglur á einstökum mörkuðum, ríkisfyrirtæki verið seld og einkaaðilum einnig gert kleift að veita ýmsa þjónustu, þótt ríkið greiddi fyrir hana. Í fyrirlestri Karlsson kom fram að almenn sátt væri í Svíþjóð um þessa nýju leið.