c

Pistlar:

21. júní 2013 kl. 15:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kína: Frá fátækt til ójöfnuðar

Þegar meta þarf breytingar á fátækt í heiminum er ekki hægt að horfa framhjá hlut Kína. Þetta fjölmennasta ríki heims var lengst af vanþróað landbúnaðarríki sem varð að þola skelfilega hungursneyð með reglulegu millibili, oftast vegna vondra stjórnarhátta. Síðan ríkiskapítalisminn hélt innreið sína í Kína hefur orðið gríðarleg breyting. Þrátt fyrir að lýðræði sé af skornum skammti þá hefur efnahagsstaða Kínverja gerbreyst. Árið 1980 voru hvergi fleiri fátæklingar en í Kína. Milli áranna 1980 og 2010 færðust hvorki fleiri né færri en 680 milljónir Kínverja úr hópi fátækra, það eru fleiri en búa í allri Suður-Ameríku. Þetta hefur vitaskuld mest með það að gera að á milli áranna 1990 og 2010 fækkaði þeim sem bjuggu við algera örbirgð (exstreme poverty) í heiminum um ein milljarð manna. Hlutfall fátækra í Kína lækkaðu úr 84% árið 1980 niður í 10% árið 2010. Þegar fækkun þeirra sem búa við algera örbyrgð er skoðuð síðustu 30 ár þá skýrir bætt ástand í Kína ¾ breytinganna. Það eru ekki svo mörg ár síðan sú breyting varð að fleiri Kínverjar voru fyrir ofan fátæktarmörk en neðan.

Flest bendir til þess að Kínverjum muni áfram ganga vel í framtíðinni við að draga úr fátækt í landinu. Spár gera ráð fyrir að árið 2020 verði varla nokkur Kínverji sem berst við að lifa undir mörkum algerar örbirgðar sem miðast við þá sem hafa 1,25 Bandaríkjadal eða minna til að lifa af á dag. Slíkt fólk á nánast ekkert og hefur ekki aðgang að neinu þeim lífsgæðum sem við teljum forsendu heilbrigðs lífs.

Hagvöxturinn rekur út fátæktina

rich

Það er hinn mikli hagvöxtur sem verið hefur í Kína hefur fyrst og fremst stuðlað að fækkun fátækra. Talið er að hvert prósent í vexti þjóðaframleiðslu dragi úr fátækt sem nemur 1,7%. Hagvöxtur hefur að jafnaði verið yfir 10% í Kína síðustu áratugi þannig að mikið hefur áunnist. Eftir að Kína varð aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (World Trade Ogranization - WTO) árið 2001 minkaði fátækt enn hraðar. Í nýlegri úttekt viðskiptatímaritsins The Economist er fullyrt að stóra stökkið hjá Kínverjum hafi komið vegna þess að þeir leyfðu einkaframtakið og gáfu frjálsum viðskiptum tækifæri. Í því sambandi verður að hafa í huga að ójöfnuður hefur aukist í Kína. Þó að fátækum og fólki sem lifir við örbirgð hafi fækkað gríðarlega þá hefur einnig fjölgað verulega í hópi hinna ofurríku. Sú breyting hefur orðið á hinum velþekkta Gini stuðli að hann fór úr 0.31 í upphafi umbótanna í 0.45 árið 2004. Og hefur haldið áfram að rísa og er farin að nálgast það sem gerist í vestrænum löndum. Það er að sjálfsögðu klassískt umræðuefni hvort ójöfnuður hafi þar með aukist í Kína, þar sem ríkidæmi sumra gerir það að verkum að hlutfallsleg bæting á stöðu annarra dugar ekki til að halda í við þá ríku. Skiptir engu þó staða þeirra lægst settu hafi batnað, staða annarra hefur batnað mun meira.

Þrisvar sinnum meiri kaupmátt en Bandaríkjamenn

Kínverskt heimili, sem hafði 36.500 Bandaríkjadali til ráðstöfunar á ári, hafði kaupmátt á við bandarískt heimili sem hafði 100.000 dali til ráðstöfunar að því er kom fram í skýrslu frá McKinsey ráðgjafafyrirtækinu árið 2009. Lætur því nærri að Bandaríkjamaðurinn þurfi þrisvar sinnum meiri tekjur til að hafa sama kaupmátt og Kínverjinn. Ofurauðugum Kínverjum fjölgar hins vegar hratt og nú er talið að 700.000 kínversk heimili eigi meira en 1,7 milljón Bandaríkjadala til fjárfestinga.

Þar sem Kína er ekki lýðræðisríki og með takmarkað upplýsingastreymi verður ávallt að taka tölum þaðan með varúð. Stjórnvöld hafa vissulega hag af því að fegra tölurnar og láta ástandið líta betur út en það er. Eigi að síður er augljóst að gríðarlegar breytingar hafi orðið í þessu fjölmennasta ríki heims síðan áætlunarbúskapur kommúnismans var lagður af. Kapítalismanum fylgja hins vegar sveiflur hinn háskalegu hagkerfa þannig að ómögulegt er að segja hvernig kínverska hagkerfið bregst við þegar niðursveiflan kemur. Og hún mun koma, rétt eins og í öðrum hagkerfum.