c

Pistlar:

27. júní 2013 kl. 17:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Saumað að hungurvofunni

38 lönd hafa náð markmiðum um útrýmingu hungurs samkvæmt þeim viðmiðum sem sett voru þar um að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, þúsaldarmarkmiðunum svokölluðu, (Millennium Development Goals, MDGs). Ætlunin var að draga úr hungri um helming árið 2015.

„Þessi 38 lönd leiða nú brautina til bjartari framtíðar. Þau eru sönnun þess að öflugur pólitískur vilji, samþætting og samvinna geta leitt til snöggrar útrýmingar á hungri." Þannig komst José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri Matvælastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (Food and Agricultural Organization (FAO), að orði við þetta tilefni en þessi tímamót urðu í byrjun júní. Ekki fór mikið fyrir umfjöllun um þau hér á landi enda langt síðan hungurvofunni var beint frá íslenskum heimilum.

Vannæring á undanhaldi

Þegar 1.000 dagar voru til stefnu var ljóst að talsvert hafði áunnist í þúsaldarmarkmiðunum svokölluðu og hungurmarkmiðinu var þegar náð. Þau voru átta talsins og sett fram með mælanlegum viðmiðum sem var mjög mikilvægt. Baráttan gegn hungri var að sjálfsögðu eitt það mikilvægasta en stefnt var að því að helminga það eins og áður sagði. Ljóst er að áðurnefnd 38 lönd hafa gert gott betur með því að útrýma hungri. Því til viðbótar hefur 18 af þessum löndum tekist að draga verulega úr vannæringu sem var markmið sem Alþjóðlega matvælaráðstefnan (World Food Summit) setti fram. Þessum löndum hefur tekist að fækka vannærðu fólki um helming en viðmiðunartímabilið var 1990-1992 annars vegar og 2010-2012 hins vegar. Umrædd lönd eru: Armenía, Azerbaijan, Kúba, Djibouti, Georgía, Ghana, Guyana, Kuwait, Kyrgyzstan, Nicaragua, Peru, Saint Vincent and the Grenadines, Samóa, Sao Tome and Principe, Tæland, Túrkmenistan, Venezuela og Víetnam.

Þau 20 lönd sem hafa náð þúsaldarmarkmiðunum, til viðbótar við þau 18 sem áður voru nefnd, eru: Alsír, Angóla, Bangladess, Benin, Brasilía, Kambódía, Kamerún, Chile; Dóminíkanska lýðveldið, Fitji, Hondúras, Indónesía, Jórdanía, Malavi, Maldivíeyjar, Níger, Nígería, Panama, Togo og Uruguay.

Vitaskuld eru þetta ánægjuleg tíðindi en áfram verður unnið að því að setja mælanleg markmið.  Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur látið hafa eftir sér að alger útrýming hungurs sé markmið sem beri að stefna að. Á ráðstefnu SÞ um sjálfbæra þróun (Ríó+20), sem haldin var í Brasilíu í júní síðastliðnum, voru sett fram markmið um að í framtíðinni þyrfti engin jarðarbúi að þurfa að þola vannæringu. Auðvitað er það háleitt en svo virðist sem kjarkur manna til að setja slík markmið hafi aukist í kjölfar velgengni þúsaldarmarkmiðanna. Hér er orðið velgengni vitaskuld sett fram með fyrirvara, því ekki hafa öll markmið náðst og varla horfur á því. Sá árangur, sem þó hefur náðst, hefur aukið mönnum kjark.

Ríó+20 markmiðin eru fimm. Í fyrsta lagi verði tryggt að allir jarðarbúar hafi aðgang að fullnægjandi næringu árið um kring. Í öðru verði komið í veg fyrir vannæringu barna. Í þriðja lagi verði sjálfbærni matvælaframleiðslu tryggð og í fjórða lagi verði framleiðsla og tekjur smábænda og þó einkum kvenna tvöfölduð. Í fimmta og síðasta lagi verði meðhöndlun matvæla bætt til að koma í veg fyrir sóun.

and-1-poverty-hunger-and-lack-of-drinking-water

Frá vannæringu til offitu

Engum dylst að nú, þegar hefur mikið áunnist í baráttu við hungur, eru enn um 870 milljónir jarðarbúa vannærðir. Milljónir til viðbótar skortir aðgang að hollum og heilsuríkum mat sem tryggir nauðsynleg vítamín og steinefni. Þá er vannæring barna enn gríðarlegt vandamál.

En mótsagnirnar eru áberandi. Á meðan 870 milljónir manna þurfa að líða hungur þá eru milljarðar manna sem stefna heilsu sinni í voða með óhollustu og vondu mataræði og þeirri vannæringu sem því fylgir að því er kemur fram í nýjustu ársskýrslu FAO.


Talið er að tveir milljarðar manna þjáist af vannæringu af einhverju tagi. Um leið er 1,4 milljarður manna of þungur. Um 500 milljónir manna eru taldar þjást af offitu að því er kemur fram í skýrslu frá Matvæla- og landbúnaðarráðuneytinu (The State of Food and Agriculture (SOFA)). Það veldur því að hvorki fleiri en 26% allra barna búa við vanþroska eða þroskafrávik af einhverju tagi sem verður rakið til ónógs eða rangs matar. 31% þjást af A-vítamínsskorti. Enn er því gríðarlegt verk að vinna en þróunin undanfarna áratugi ætti þó að auka mönnum bjartsýni um að það er hægt að bæta ástandið.