c

Pistlar:

2. ágúst 2013 kl. 11:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Endurreisn athafnamanns

Á sínum tíma var það hlutskipti mitt sem blaðamanns að skrifa um gjaldþrot félaga sem tengdust Ólafi Laufdal veitingamanni. Þar kom í umsvifamiklum fyrirtækjarekstri hans að áætlanir gengu ekki upp og skuldir urðu óviðráðanlegar. Ég hef ekki þorað að lesa þessar fréttir síðan en vona að þær hafi ekki verið meinfýsnar og illkvittnar eins og mér finnst einkenna margar fréttir er tengjast gjaldþrotum manna og fyrirtækja í dag. Þar sker einn fjölmiðill sig úr. Vissulega þótti manni gjaldþrot veitinga- og skemmtanahúsaveldis Ólafs tíðindi enda var hann áberandi maður og gott ef Ólafur bjó ekki á Arnarnesinu á þeim tíma. Það var nóg til að ýta við mönnum og allt var þetta líklega skrifa í upphöfnum vandlætingartóni yfir föllum auðmanni, því miður verð ég að segja. Það er vissulega hlutverk fjölmiðla að fjalla um hlutina eins og þeir gerast og segja sem sannast og réttast frá. En um leið þarf að gæta sanngirni og hlutlægni gagnvart viðfangsefninu eða „fórnarlömbum frávikanna" eins og Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, kallaði þá er bárust fram í kastljós fjölmiðlanna. Á því verður því miður oft misbrestur.

Þess gleðilegra er að fylgjast með endurreisn og uppbyggingu nýrrar starfsemi Ólafs sem er sannast að segja einhver iðnasti og duglegasti maður sem ég hef heyrt af. Og eru þó margir slíkir í hans starfsgrein. Ekki hefur hann verið reyndur af öðru en heiðarleika í samskiptum við fólk og stutt tilfallandi samtöl sýna hlédrægan og hógværan mann. Ólafur er hins vegar veitingamaður fram í fingurgóma og frábær gestgjafi. Þess njóta nú gestir hans á fallegu hóteli sem hann og kona hans hafa byggt upp að Grímsborgum í Grímsnesi. Nýleg umfjöllun hér á vefnum sýnir að viðtökurnar eru frábærar og allt virðist ganga vel. En ekki er á vísan að róa, þeir sem starfa í viðskiptum vita að það geta komið skyn og skúrir, hæðir og lægðir. Í gegnum tíðina hefur mikill fróðleikur verið settur saman um hvernig best sé að byggja upp fyrirtækjarekstur og forðast áföll. Það breytir því ekki að þau munu halda áfram að koma því engin veit sína ævi fyrr en öll er. Mest um vert er að missa ekki móðinn eins og Ólafur Laufdal sýnir svo rækilega.

3958_1___Selected

Er glæpur að verða gjaldþrota?

Mörgum er tamt að segja að fyrirtæki sem fer á hausinn sé dæmi um mistök, afglöp og jafnvel glæpsamlegt athæfi. Óhætt er að fullyrða að slík viðhorf hafi jafnvel fengið ákveðin hugmyndafræðilegan styrk undanfarin ár frá vinstri væng stjórnmálanna, þar sem einstaklingsfrelsið er vanmetið og almannavaldið ofmetið. En sjálfsagt er að spyrja margt þetta ágæta fólk, sem býsnast mikið yfir gjaldþrotum, hvort það telji að það að verða gjaldþrota sé refsivert í sjálfu sér? Þau koma vanalega í kjölfar þess að menn hafa stofnað til skuldbindinga sem þeir ráða ekki við, gert óraunsæjar áætlanir og jafnvel gripið til ýmissa úrræða sem þeir að öllu jöfnu hefðu ekki gripið til nema af því að það var farið að þrengja um. Fengið þrotaveikina svokölluðu. Staðreyndin er sú að rekstur, bókhald og áætlanir flestra gjaldþrota fyrirtækja líta afskaplega illa út, svona eftirá! Sögur um kennitöluflakkara eru ekki til að bæta úr en þær byggja á einföldunum, oft snýst kennitöluflakk um að bjarga þeim verðmætum sem felast í rekstri og viðskiptasamböndum. Því miður hafa menn ekki alltaf gæfu til að standa rétt að málum eða af þeirri hreinskiptni sem nauðsynleg er.

En er gjaldþrot sá heimsendir sem margir virðast telja? Er það ekki dæmi um þrótt samfélags ef margir eru tilbúnir til að reyna að fara út í rekstur, hætta einhverju til að skapa eitthvað? Eru ekki einu mistökin að reyna ekki? Í Bandaríkjunum er reynt að láta fólk komast skjótt aftur á fætur eftir gjaldþrot (helmingur þeirra einstaklinga sem verða gjaldþrota þar verða það vegna veikinda sem er efni í aðra umræðu) og sama má segja um Bretland, en samkvæmt breskum gjaldþrotalögum eru skuldir gjaldþrota einstaklinga þurrkaðar út á 12 mánuðum. Í Þýskalandi er þessi tími níu ár og á Írlandi 12 ár. Hér á landi var vilji til að stytta þennan tíma niður í tvö ár fyrst eftir bankahrun en á því er misbrestur.

Fyrstu árin erfiðust

Í fyrirtækjarekstri er mesta áhættan á fyrstu árunum og um helmingur þeirra fyrirtækja sem verða gjaldþrota verða það á fyrstu fjórum árunum í rekstri. Ekkert nýstofnað fyrirtæki er laust við áhættu. Þetta eru tölur sem hinir svartsýnu sjá og þegar horft er til þess að sumir sem standa að stofnun fyrirtækja glata öllu sparifé sínu og enda skuldum vafðir og jafnvel gjaldþrota sjálfir þá er í raun stórfurðulegt að nokkur skuli hefja rekstur. En vitaskuld er myndin ekki svona svört og enn sem komið er, er fyrirtækjarekstur besta leiðin til þess að efnast.

Auðvitað verður ekki gert lítið úr þeim erfiðleikum sem þeim fylgja gjaldþrotum en þau eru líka leið til að slá strik yfir hið liðna og vonandi marka nýtt upphaf. Það verður líka að horfa á að bæði skuldari og kröfuhafi eru að viðurkenna að áformin, sem báðir ætluðu að hagnast á, gengu ekki eftir. Skipbrotið var sameiginlegt en vitaskuld líta menn sjaldnast svo á.

Hugsanlega er ástæða til að hafa áhyggjur af því andrúmslofti sem ríkir gagnvart gjaldþrotum og athafnamennsku. Það getur leitt til þess að draga þróttinn úr þjóðinni en við höfum oft talið okkur það til tekna að gefast ekki upp og vera tilbúin til að taka áhættu. Miklu frekar en til dæmis nágranar okkar á Norðurlöndunum sem meira leggja upp úr varfærni. Fyrst eftir bankahrunið voru augljós merki um að skráningum nýrra einkahlutafélaga var að fækka. Á sama tíma hefur gjaldþrotum fjölga og ný met verið slegin. Það hefur verið styrkur okkar Íslendinga að menn rísa skjótt upp á lappirnar aftur og það hefur verið talið mönnum til álitsauka að taka áföllum af karlmennsku. Kunn er sagan af Óskari Halldórssyni, Íslandsbersa, sem fór fimm sinnum á ævinni í gegnum gjaldþrot en lét þó ekki deigan síga. Thor Jensen þurfti einnig að þola þung áföll í sínum rekstri og það oftar en einu sinni en hann hélt þó alltaf áfram. Viðhorf þessara manna þóttu eftirbreytniverð og sama má nú segja um Ólaf Laufdal. Það hefur verið haft eftir Markúsi Möller hagfræðingi að það sé skemmtilegra að hjálpa mönnum á fætur en leiða þá til rekkju. Það er nokkuð sem stjórnvöld mættu hafa í huga áður en menn breiða sængina endanlega yfir höfuðið hér á landi.