Fátt er ánægjulegra en að ferðast um Ísland að sumri til þegar landið skartar sínu fegursta og sumarnóttin lifir. Að vísu þurfum við að deila landinu með sívaxandi fjölda erlendra ferðalanga en í sumum tilvikum stuðlar það að því að við fáum fjölbreyttari og betri þjónustu. Undirritaður átti þess kost að dvelja á Patreksfirði um Verslunarmannahelgina en þar eru miklar breytingar að eiga sér stað. Þorpið við eyrina, eins og Patreksfjörður er oft kallaður, er fallegt sveitarfélaga sem síðustu áratugi hefur mátt búa við nokkra hnignun og fólksfækkun. Það er vonandi að breytast og nýjar og áhugaverðar stoðir styrkja nú atvinnulífið og um leið búsetuna. Án atvinnu eiga slíkir bæir litla von en það hefur reynst þrautinni þyngra að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum um leið og sjávarútvegurinn hefur breyst og störfum hefur fækkað. Í eina tíð skrifaði undirritaður fréttaskýringu í löngu horfið vikublað þar sem ýmislegt var dregið fram. Það sem vakti þó mesta athygli var að þrátt fyrir pólitískan styrk Vestfirðinga (atkvæðavægi langt umfram fólksfjölda) þá virtist hann ekki styrkja byggðina. Breytti engu þó líf Byggðastofnunar virtist á köflum helst snúast um að reyna að viðhalda því atvinnulífi sem þar mátti einu sinni finna. Árið 1991 var skrifað frétt um að atvinnulífið á Suðureyri hefði verið styrkt um sem svarar tveimur milljónum króna á íbúa að þávirði. Þrátt fyrir það hafði íbúum fækkað um 30% á sama tíma. Vissulega kvörtuðu Vestfirðingar og sjálfsagt þingmenn þeirra mest. Skýrslur Byggðastofnunar sýndu hins vegar að á sama tíma var þar minnsta atvinnuleysið á landinu, hæstu launin og vitaskuld hæstu byggðastyrkirnir! Ekkert af þessu virtist duga til að halda við byggðinni en svo virtist sem lögmál þyngdaraflsins kölluðu fólkið suður. Unga fólkið sem sótti í nám annars staðar vildi ekki koma til baka.
Breytingar í loftinu
Í dag eru breytingar í loftinu og uppgangur á Patreksfirði er skýrt dæmi um það. Þar stendur sjávarútvegurinn þokkalega en mestu munar um að ferðaþjónusta og fiskeldi eru að rísa hratt. Ársreikningur sveitarfélagsins sýnir viðsnúning og börnum fjölgar á ný í leikskólum. Nú eru verið að laga og endurbyggja hús og andinn í þorpinu annar en áður. Eigendur stærsta útgerðarfyrirtækisins á staðnum sáu sér leik á borði að endurbyggja gamalt frystihús og þar má nú sjá glæsilegt hótel sem rekið er af Fosshótelkeðjunni. Þar sem hótelið er nánast það fyrsta sem gestir sjá þá skiptir ástand hússins miklu fyrir aðkomuna að bænum. Áður höfðu dugmiklir einstaklingar endurbyggt einstaka hús og komið af stað gisti og veitingaþjónustu. Ný fyrirtæki spretta upp árlega og engum dylst að gríðarleg tækifæri eru fyrir ferðaþjónustu á svæðinu en aðeins um 10% þeirra ferðamanna sem leggja leið sína til landsins koma á Vestfirði. Og einungis brot þeirra kemur á suðurfirðina.