Það dylst engum að mikið tilfinningastríð verður sett af stað ef ráðist verður í Norðlingaölduveitu. Við höfum þegar fengið forsmekkinn af því í tengslum við nýleg ummæli iðnaðarráðherra. Þannig verður reynt að spilla einum hagkvæmasta orkukosti Íslendinga á heldur ómálefnalegan hátt.
Staðreyndin er sú að um langt skeið hefur verið vitað að Norðlingaölduveita er hagkvæmasti kostur Landsvirkjunar til orkuöflunar með skömmum fyrirvara en talið er að hún borgi sig upp á 5 til 7 árum. Með veitunni er mögulegt að auka orkuframleiðslu í virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu á mjög hagkvæman hátt, þ.e. í Vatnsfellsstöð, Sigöldustöð, Hrauneyjafossstöð og væntanlegri Búðarhálsvirkjun. Með miðlun í Norðlingaöldulóni og Þórisvatni ykist einnig framleiðsla Sultartangastöðvar og Búrfellsstöðvar. Virkjanir sem eru til athugunar í Neðri-Þjórsá, þ.e. Núpsvirkjanir og Urriðafossvirkjun, munu einnig njóta góðs af Norðlingaölduveitu eins og Landsvirkjun hefur oft bent á. Augljóst er að rekstrarhagkvæmni eykst verulega vegna samlegðaráhrifa við rekstur margra veitna og virkjana á sama virkjunarsvæði. Af þessu sést að Norðlingaölduveita bætir mjög nýtingu þeirrar fjárfestingar sem er þarna nú þegar. Að því leyti er það alls ekki rangt hjá iðnaðarráðherra að segja að þetta séu umhverfisvænir kostir, þeir bæta nýtingu núverandi virkjanna og draga því úr þörf fyrir nýjar.
Með veitunni eykst orkugeta núverandi kerfis um 635 GWh/ári og er þá Búðarháls inn í þeirri tölu. Það er eftir breytingar en þegar miðað var við að lónið yrði í 575 metra hæð yfir sjávarmáli var talið að miðlunin væri 760 GWh. Í nafni sáttar var fallið frá því.
Hönnunarbreytingar með tilliti til náttúruverndarFrá því fyrst var farið að ræða um Norðlingaölduveitu hafa orðið miklar breytingar á hönnun hennar, í flestum tilvikum til að koma til móts við óskir umhverfissinna og ekkert nema gott um það að segja á meðan menn reyna að ræðast við með málefnalegum hætti. Í núverandi áætlunum er miðað við lónhæð 566 - 567,5 m y.s. Flatarmál lóns við vatnshæð 567,5 m y.s. er 4,9 ferkílómetrar. Það er vel ásættanlegt sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það nær ekki inn í friðland Þjórsárvera. Miðlunin frá lóninu verður með þeim hætti að veitt er að mestu í farvegi árinnar, með dælingu upp í göng og vatninu veitt í Kvíslaveitu og áfram til Þórisvatns. Með þessu var miðlunin horfin út úr verndarsvæði Þjórsár. Síðasta ríkisstjórn vildi hins vegar rjúfa þessa sátt og stækka friðland Þjórsárvera þannig að það nái yfir fyrirhugað Norðlingaöldulón. Var búið að setja upp leikþætti þar um sem núverandi umhverfisráðherra kaus eðlilega að ganga ekki inní. Þannig hefur friðlandið verið stækkað langt út fyrir Þjórsárverasvæðið í eilífri tilraun til að spilla sátt í málinu.
Í rammaáætlun segir að umhverfisáhrif veitunnar séu lítil. Fátt stendur eftir af því sem í fyrri tilhögun lóns (575 m y.s.) taldist umhverfisáhrif, nema að enn er nokkur minnkun á fossum í Þjórsá ofan Sultartangalóns. Til að koma til móts við það hafa menn gert áætlun um að viðhalda fossarennsli í nokkrar klukkustundir á dag yfir sumarmánuðina þegar hugsanlegt er að fólk skoði þá. Í rammaáætlun kemur fram að veitan hefur lítil sem engin áhrif á vatnafar, jarðmyndanir, rof eða gróður. Tæplega 200 hektarar af slöku gróðurlandi fara undir lónið. Svæðið hefur þegar verið raskað með virkjunum og lónum en heildaryfirbragð þess er með þeim hætti að ferðamenn geta fengið sterka upplifun af landinu. Stutt er í lítt raskaða náttúru í allar áttir. Sá sem þetta skrifar hefur ferðast talsvert um svæði, oftast í tengslum við ferðir inn í Veiðivötn en einnig gengið fallega leið, svokallaða Fossagöngu. Það svæði ætti að varðveitast að mestu þó minna rennsli verði þar einhvern hluta ársins og hugsanlega á næturnar. Í 50 ár hefur Þjórsár- og Tungnaársvæðið verið mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Fyrir vikið hefur svæðið raskast en um leið er það einnig mun aðgengilegra, stutt er hins vegar í óraskað svæði sem áfram verður verndað. Norðlingaölduveita ætti því að vera ásættanlegt rask miðað við þær forsendur sem nú er unnið eftir.