c

Pistlar:

26. október 2013 kl. 15:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Litli kaupmaðurinn í átakaheimi

Það er sjálfsagt ekki á allra færi að fjalla um arabaheiminn svo vel sé. Og líklega ættu menn að varast einfaldanir og alhæfingar þegar kemur að því að greina og skilja þennan til þess að gera fjarlæga heim. Eigi að síður er það svo að þessi heimshluti skiptir okkur miklu. Af virkum átakasvæðum í heiminum í dag eru langflest í þessum heimshluta, svona gróft á litið. Engum dylst að pólitískur órói er gríðarlegur í arabalöndunum og borgarastyrjöld geisar nú í einu þeirra og sum önnur eru á barmi þess að dragast inn í slík átök. Og allt er þetta tengt með einum eða öðrum hætti. Að sum leyti minnir arabaheimurinn nú á Evrópu 16. og 17. aldar áður en þjóðríki náðu að festa sig í sessi. Evrópa logaði þá enda á milli og var 30 ára stríðið í Þýskalandi líklega skýrasti vitnisburður þess. Trúarátök í bland við óskýr landamæri og en óskýrari afmörkun þjóða stuðluðu að því. Síðar urðu Napóleonsstríðin og heimsstyrjaldirnar tvær til að tvístra Evrópu í frumeindir sínar. Við endalok kommúnismans hrundu ríkjablokkir Austur-Evrópu sem kostaði nokkurra ára átök á Balkanskaganum. Kjósi menn hins vegar að miða við lok síðari heimsstyrjaldar hefur ekki áður verið svona langur friðarkafli í Evrópu. Meira að segja staðbundin átök eins og á Norður-Írlandi og í Baskahéruðum Spánar eru að lognast útaf. Þeir finnast sem halda því fram að efnahagsleg velgengni borgaranna hafi smám saman eyðilagt bakland átakasveitanna. Þegar Norður-Írar fóru að fylgjast með uppgangi nágranna sinna hinum megin við landamærin sáu þeir að það lífið gat snúist um eitthvað meira en átök og illdeilur og óljós pólitísk markmið. Heimssýn litla kaupmannsins tók við.

Mikilvægi aðskilnaðar veraldlegs og andlegs valds

En er þá eina leiðin til að skilja ástandið í arabaheiminum að horfa til Evrópu á 17. öld? Að sjálfsögðu ekki en þó er áberandi að á báðum tímum skorti miðstjórnarvald og stofnanaumgjörð þá sem síðar mótaði valdauppbyggingu Evrópu. Þá verður ekki horft framhjá því að aðskilnaður hins veraldlega og andlega valds var lykilþáttur í að tryggja borgaraleg réttindi sem Evrópubúar telja sig njóta í dag. Nokkuð sem arabaheimurinn virðist ekki ráða við, slík sem áhrif íslam eru í mörgum löndum, ekki síst í gegnum löggjöf og dómsvald. Við tökum eftir í þeim löndum sem hafa verið átök eins og Írak, Líbýa og Sýrland að fremur er hægt að skipta þeim eftir ættbálkum en þjóðerni. Þegar átökin blossa upp hverfur allt er sameinar landsmenn og hver og einn snýr sér að sinni ætt eða ættbálki til að lifa af hjaðningavígin. Það má ekki gleyma því að Hafez al-Assad, faðir núverandi Sýrlandsforseta, friðaði landið á sínum tíma og hlaut fyrir það nokkurt þakklæti. Hann ríkti sem fullkominn einræðisherra frá 1971 til ársins 2000 þegar Bashar Hafez al-Assad tók við. Á valdatíma Hafez al-Assad ríkti friður að mestu í Sýrlandi sem gerði fólki kleyft að stunda sín viðskipti og lifa í þokkalegri efnahagslegri vissu. Litli kaupmaðurinn var ánægður og fólk gat farið á markaðinn, spjallað við nágranna og glaðst með fjölskyldu og vinum þegar tilefni gáfust. Einræði ríkti og ástandið var brothætt en á meðan fólk mundi upplausnartíma fyrri ára sætti það sig við að njóta ekki borgaralegra réttinda sem það vissi lengst af ekki mikið um. Þegar á reyndi tókst einræðisstjórninni ekki að hindra að það, sem hófst sem friðsæl mótmæli, þróaðist út í blóðuga borgarstyrjöld og í dag er Sýrland versta átakasvæði heims og stór hluti landsmanna hefur orðið að flýja heimili sín.

Mohamed_Bouazizi_candle-360x248

Tareki Mohamed Bouazizi

Efnahagur arabaheimsins er sem gefur að skilja jafn fjölbreyttur og ríkin eru mörg. Til einföldunar má þó benda á að mannfjöldinn í arabaheiminum samsvari Bandaríkjunum en landsframleiðslan er sú sama og í Frakklandi. Ýmist höfum við ofurfátæk ríki eins og Jemen og Súdan eða ofurrík lönd eins og olíuríkin við Persaflóa. Í öllum tilfellum ráða trúarbrögðin miklu þó misjafnt sé hve vel ráðamönnum gengur að halda þeim frá hinu daglega pólitíska valdi. Viðskiptalífið mótast af þessu, ætterni og trú ráða því umfram annað hvernig mönnum farnast. Litli kaupmaðurinn hefur fá tækifæri til að vaxa og dafna.

Og þá erum við komin að Tarek Mohamed Bouazizi, litla ávaxtakaupmanninum sem hóf þetta allt. Margir telja að hin óljósa pólitíska hreyfing sem hefur fengið heitið arabíska vorið hafi farið af stað þegar hin 26 ára gamli Tarek ákvað að kveikja í sjálfum sér fyrir framan stjórnarbyggingu í Túnis í desember 2010. Hann greip til þess óyndisúrræðis nákvæmlega einni klukkustund eftir að lögreglan, studd af embættismönnum, hafði tekið af honum lifibrauðið. Yfirvöld gerðu upptækar tvær körfur af perum, körfu af banönum, þrjár körfur af epplum og notaða rafmagnsvigt, samtals að verðmæti 179 Bandaríkjadala. Í bók sinni The Great Degeneration rekur skoski sagnfræðingurinn Niall Ferguson þessa atburðarás. Tarek átti ekkert og tilvera hans valt á þeim tekjum sem ávaxtasala hans skapaði. Að sjálfsögðu varð hann að greiða embættismönnum mútur og rekstrargrundvöllur hans byggðist á tiktúrum valdamanna fremur en skýrri lagaumgjörð og almennu frelsi til viðskipta. Hugsanlega má af þessu öllu draga þá ályktun að arabaheimurinn nái ekki að tryggja íbúum sínum frið og velsæld fyrr en hann gerir litla kaupmanninum kleyft að stunda sín viðskipti í friði.