c

Pistlar:

9. desember 2013 kl. 22:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nelson Mandela: Maður til að minnast

Um svipað leyti og Nelson Mandela var að taka við völdum í Suður-Afríku var Slobodan Milosevic að taka við valdataumunum í Serbíu. Sá síðarnefndi efndi til uppgjörs og blóðbaðs sem kostaði hundruð þúsunda manna lífið og skapaði ástand sem eitraði öll samskipti á Balkanskaganum. Að lokum dó Slobodan Milosevic í fangelsi, þar sem hann beið réttarhalda vegna glæpa gegn mannkyninu.  Þetta sýnir að þjóðir geta verið misjafnlega heppnar með leiðtoga sína; Suður-Afríka fékk Nelson Mandela og Serbar Slobodan Milosevic. Hugsanlega skipti það sköpum en varla þarf að útskýra muninn á þeim tveimur.

Nú þegar Nelson Mandela er allur er eðlilegt að menn leitist við að skoða sögu hans og Suður-Afríku og meta þau áhrif sem hann hafði á samfélag sitt en það var samfélag sem var í sárum eftir aldalanga aðskilnaðarstefnu. Engum blöðum er um það að fletta, að Nelson Mandela hafði gríðarlega mikið með það að gera að borgarastyrjöld tók ekki við þegar hvíti minnihlutinn skilaði af sér völdum fyrir rúmum 20 árum. Sem gefur að skilja vildu margir ráðast í uppgjör við kúgarana og ekki var listinn fagur hjá aðskilnaðarstjórninni; morð, nauðganir og mannshvörf svo fátt eitt sé talið. Hvernig Mandela fékk svarta meirihlutann til að sætta sig við orðin hlut og horfa fram á veginn er óskiljanlegt og hugsanlega ekki síður það afrek hans að fá hvíta minnihlutann til að treysta sér. Það eru líklega einhver mestu pólitísku afrek sem einn leiðtogi hefur unni.

nelson-mandela

Leiðtogi verður til

Þegar saga Nelson Mandela er skoðuð þá blasir við að það var ekki sjálfgefið að hann myndi vaxa upp í að verða það sem hann varð. Greinargóða lýsingu á þessu má finna í bók Richard Stengler; Nelson Mandela: Portrait of an Exstraordinary Man. Stegler, sem ritstýrir Time tímaritinu, eyddi þremur árum í að skrifa ævisögu Mandela, Long Walk to Freedom, og þekkti hann betur en flestir. Í fyrrnefndu bókinni fyllir hann upp í myndina af Mandela og dregur fram ýmislegt sem ekki átti erindi inn í ævisöguna auk persónulegra hugleiðinga um persónu og skaphöfn Mandela. Engum duldist að sá maður sem kom úr fangelsi 71 árs að aldri árið 1990, eftir að hafa eytt þar 27 árum ævi sinnar, var mjög ólíkur þeim uppreisnarsegg sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Mandela fór í fangelsi fyrir þátttöku sína í hryðjuverkum og á þeim tíma virtist hann vera hallur undir beitingu þeirra í pólitískum tilgangi. En er fólk í Suður-Afríku sem segir að Mandela hafi verið hryðjuverkamaður, jafnvel þó það hafi tekið hann í sátt síðar. Sjálfur játaði Mandela að hann hefði verið á hættulegri braut. Hann hafði leitt ungliðahreyfingu African National Congress (ANC) og var aðalhvatamaður að baráttu sem hófst upp úr 1952 sem gekk meðal annars út á beita ofbeldi. Í réttarhöldum sem háð voru yfir honum 1963-'64 játaði hann að hafa stundað skemmdaverk í þeim tilgangi að steypa stjórninni.

Handtök leiðtogans

Fangelsisvistin langa gerbreytti Nelson Mandela og hann varð algerlega fráhverfur vopnuðum átökum. Þar má finna sterka samsvörun við þroskasögu ekki ómerkari leiðtoga en Mahatma Gandhi sem einnig hvarf af leið ofbeldis og átaka. Nánast skilyrðislaus höfnun ofbeldis gerði það meðal annars að verkum að aðskilnaðarstjórnin hóf viðræður við Mandela um breytingu á stjórn landsins. En um leið hafði hann miklar áhyggjur af harðlínumönnum innan ANC, ekki síst kommúnistum. Margir innan ANC töldu að Mandela hefði svikið baráttuna með því að ræða við aðskilnaðarstjórnina um friðsamlega lausn. Vildu margir horfa til Chris Hani sem stýrði hernaðararmi ANC. Á  þeim tíma (1993) var Hani næst vinsælasti leiðtoginn í Suður-Afríku, næst á eftir Mandela. Hani gekk vanalega um í herklæðnaði og engum duldist að hann var alger andstæða Mandela. Þegar Mandela talaði um að fyrirgefa og gleyma talaði Hani um að muna og endurgjalda. Þegar Mandela talaði í mildum tóni öskraði Hani. Þegar Mandela talaði fyrir því að hreyfa sem minnst við hagkerfinu og treysta áfram á þekkingu og reynslu hvíta minnihlutans talaði Hani fyrir upptöku eigna og dreifingu þeirra upp á nýtt til fólksins, rétt eins og kommúnista er háttur. Mandela hafði fyrir sið að hafa Hani og aðra álíka æsingamenn sem næst sér. Hann setti þá við hlið sér á fundum og hélt gjarnan í höndina á þeim eins og sönnum landsföður sæmdi. Þannig reyndi hann að beita persónutöfrum sínum og áhrifavaldi til að milda æsingamennina. Það hafði áhrif en örlögin höguðu því þannig að Hani var myrtur nokkrum árum síðar. Innan ANC hefur alltaf verið til harðlínuhópur sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.   

Mikill ójöfnuður og lýðræði á brauðfótum

Um langt skeið hafa menn haft áhyggjur af því hvað verður þegar Mandela er allur. Þó hann hafi verið alvarlega veikur undanfarin ár hefur andi hans svifið yfir vötnunum. Áhrif hans hafa verið gríðarleg og hafa móta pólitík Suður-Afríku og reyndar Afríku allrar eins og Kofi Annan skrifaði í Financial Times um síðustu helgi. Þar beindi Annan þeirri áskorun til leiðtoga Afríku að halda minningu Mandela á lofti, væntanlega í von um að það geti styrkt stjórnarfarið í álfunni.

En vandamálin í Suður-Afríku eru mikil og ANC er eina stjórnmálaaflið, lýðræði stendur því á brauðfótum. Þegar hugað er að því að efnahagurinn er ótraustur og misskiptingin gríðarleg er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mála að Mandela gengnum. Framferði þeirra sem hafa stýrt landinu eftir að Mandela vék frá völdum er ekki til þess falið að auka mönnum bjartsýni. Leiðarahöfundur Financial Times gengur svo langt að efast um að ANC geti stýrt landinu og leggur traust sitt á að ný kynslóð stjórnmálamanna stígi fram á sjónarsviðið. Á meðan verða menn að vona að áhrif Mandela nái út yfir gröf og dauða.