Á síðasta stýrivaxtafundi evrópska seðlabankans (ECB) sagði Mario Draghi seðlabankastjóri að evran væri eyja stöðugleikans (e. island of stability). Síðari tímar ættu hins vegar eftir að leiða í ljós hvort hún væri jafnframt eyja hagsældar og atvinnusköpunar. Svarið lýsir ágætlega þeirri stöðugleikahugsun sem evrópski seðlabankinn hefur unnið út frá, væntanlega þýskum bankamönnum til ánægju. Á sínum tíma var tekin sú ákvörðun að staðsetja ECB í Frankfurt, miðstöð evrópsks fjármálalífs. Til að sætta andstæð öfl á þeim tíma var einnig ákveðið að seðlabankastjórinn kæmi frá Frakklandi. Þjóðerni seðlabankastjórans hefur breyst með tímanum en bankinn er þó enn staðsettur í Frankfurt, með skýrri tengingu við þýska hagkerfið og vilja þess í peningastjórnun. Núverandi bankastjóri, Mario Draghi, er ítalskur hagfræðingur en hann leysti Jean-Claude Trichet af hólmi í nóvember árið 2011.
Mario Draghi hefur mætt talsverðri andstöðu frá því hann tók við og óhætt er að segja að hún hafi verið mest frá Jens Weidmann, seðlabankastjóra Þýskalands, Bundesbankanum sjálfum. Weidmann situr í bankastjórn ECB eins og aðrir seðlabankastjórar Evrópu en á áhrifasvæði ECB eru hvorki fleiri né færi en 6.000 bankar. Mikil gagnrýni kom frá þýska fjármálakerfinu á þá stefnu ECB, undir stjórn Draghi, að kaupa bankaskuldabréf eins og enginn væri morgundagurinn, að bandarískri fyrirmynd. Svo rammt kvað að þessari gagnrýni að farið var að tala um ,,Draghi og Þjóðverjana" eins og rakið var í grein í Spiegel á síðasta ári. Á þeim tíma voru samskipi Draghi og Weidmann þannig að erfitt var að hafa þá í sama herbergi. Stuðningsmenn Draghi sögðu að Weidmann styddist við; ,,Nein zu allem" stefnu. Augljóslega hefur þetta dregið úr trúverðugleika ECB og um leið leitt til þess að Draghi segir já við fleiri hlutum en gott þykir, svo sem kaupum á bankabréfum, ríkisskuldabréfum og því að samþætta evrópska fjármálakerfið enn frekar. Þannig hafa menn talið best að bregðast við efasemdum Þjóðverjanna. Alvarlegasta athugasemdin við störf Draghi er hins vegar sú að hann líti á bankann sem annað og meira en tæki til að tryggja verð- og fjármálastöðugleika á evrusvæðinu. Bankinn eigi þar til viðbótar að gegna mikilvægu hlutverki sem hugmyndabanki (sic!) (e. think tank) við endurreisn evrópska fjármálakerfisins og þá pólitísku stefnumótun sem hún byggir á. Nokkuð sem ekki ríkir sátt um meðal 28 ríkja Evrópusambandsins. Gagnrýni Þjóðverja laut einkum að því að ECB myndi að lokum dragast niður með gæðum þess lánasafns sem hann væri búinn að taka inn í bækur sínar með óhóflegum kaupum á bankaskuldabréfum. Draghi hefur þó hvergi hvikað frá stefnu sinni og virðist hafa haft sigur um sinn.
Spá 1,2% hagvexti á evrusvæðinu
En víkjum aftur að peningastefnu ECB. Á áðurnefndum fundi í byrjun mars kynnti Draghi óbreytta stýrivexti og nýja hagspá ECB. Stýrivextir ECB hafa verið 0,25% síðan í nóvember síðastliðnum sem er sögulegt lágmark þeirra, og hafa raunstýrivextir verið neikvæðir á svæðinu allt frá því í mars 2010.
Í spánni er gert ráð fyrir 1,2% hagvexti á þessu ári á evrusvæðinu, 1,5% árið 2015 og 1,8% 2016. (Til samanburðar má nefna að Hagstofan telur hagvöxt hér á landi á síðasta ári hafa verið 3,3% og Seðlabanki Íslands spáir 2,6% hagvexti á þessu ári og 3,7% á næsta ári). Hagvaxtarspá þessa árs á evrusvæðinu hækkaði lítillega frá síðustu spá en að öðru leyti eru litlar breytingar á horfum. ECB spáir 1,0% verðbólgu á þessu ári, 1,3% árið 2015 og 1,5% árið 2016, þó þannig að í árslok 2016 verði verðbólguhraðinn 1,7%. Það hefur haft nokkur áhrif á verðbólgu undanfarinna mánaða að orkuverð hefur heldur verið á niðurleið í Evrópu en rétt eins og í Bandaríkjunum ræðst orkuverð verulega af því hvort veturinn er kaldur eða hlýr.
Í samanburði við undanfarin ár gætu þessar tölur gefið tilefni til þokkalegrar bjartsýni en sem áður er það stöðnun og kyrrstaða sem veldur öðrum en seðlabankamönnum mestum áhyggjum. Það sést ágætlega af þeim spurningum sem lagðar voru fyrir Draghi á stýrivaxtafundinum. Sérstaklega horfa margir til Japans þar sem hagkerfið sökk niður í verðhjöðnun og viðvarandi fjárfestingaslaka. Skipti þá engu engu þó vextir væru orðnir neikvæðir á tímabili. Draghi neitar þó staðfastlega öllum samlíkingum þar á milli og er bjartsýn á að fjárfestingar taki við sér. Vitaskuld var hann spurður mikið um ástandi í Úkraínu en aukinn pólitískur óstöðugleiki þar getur haft áhrif á sjálfstraust fjárfesta.
Líklega er það heldur bjartari staða á Spáni og Ítalíu sem lyftir upp hagvaxtarspánni þó fráleitt sé að segja að þau séu komin fyrir horn. Ef horft er til einstakra ríkja má nefna að gert er ráð fyrir 0,6% hagvexti á Ítalíu á þessu ári, 0,1% samdrætti í Slóveníu, og 0,2% vexti í Finnlandi. Það er áhyggjuefni fyrir norrænar þjóðir hve mörg alvarleg teikn eru á lofti í finnsku efnahagslífi sem frá upphafi hefur tekið evrusamstarfinu af mestri staðfestu. Staða atvinnumála er sem fyrr svört á evrusvæðinu en þar ríkir nú ríflega 12% meðalatvinnuleysi. Á Grikklandi og Spáni er það í kringum 26%, 16,8% í Portúgal og víða yfir 10%.
Sameiginleg lausn
Nú 25. mars síðastliðinn hélt Draghi fyrirlestur í París. Þar rekur hann efnahagsþróun undanfarina ára og gerir grein fyrir hvernig hann telur heppilegast að leysa úr yfirstandandi vandamálum, með langtímastöðugleika að leiðarljósi. Augljóslega telur hann að efnahagskreppa sú sem reið yfir heiminn upp úr 2008 muni móta bankakerfi framtíðarinna og þá sérstaklega á evrusvæðinu. Fyrirlesturinn veitir skýra innsýn í nálgun ECB á efnahagsvanda Evrópu og mikilvægi þess - að mati Draghi - að finna sameiginlega lausn. Ég ætla að leyfa lokaorðum Draghi úr fyrirlestrinum að fylgja hér með, seðlabankastjóri sem vitnar í Churchill hlýtur að hafa skýra stefnu!
,,Rather, it is by making our policies consistent across borders that we have achieved positive results, and it is by heeding this lesson that we will continue to do so. In some areas, such as the banking union, this means formulating policy centrally. In other areas, such as fiscal policy or structural reform, it means accepting effective scrutiny from peers. In both cases, this is not a loss of sovereignty. In fact, I regard it as a recovery of sovereignty, because it is the means to provide once again, and sustainably, the stability and the opportunities that citizens demand from policymakers.
Winston Churchill said that “to achieve great things, two things are needed: a plan, and not quite enough time”. I hope that I have made clear today that we do have a plan. And since we certainly have no time to spare, I trust that, if we remain resolute, great things for the euro area and its citizens can become possible."