Þó margir gætu haldið það af umræðunni þá er Ísland ekki eina landið í heiminum sem reynt hefur að koma til móts við skulduga íbúðaeigendur. Líklega er á fá hallað þó bent sé á framtak Kamala D. Harris, ríkissaksóknara Kaliforníu. Undanfarin ár hefur hún hefur beitt sér mjög fyrir lækkun skulda hjá íbúðaeigendum og um leið reynt að fá lánafyrirtæki til að milda aðgerðir sínar gagnvart skuldugu fólki. Ekki hefur verið vanþörf á því margir einstaklingar hafa farið mjög illa út úr húsnæðisbólunni sem varð í Bandaríkjunum fyrir um það bil áratug.
Kamala D. Harris tók við embætti ríkissaksóknara Kaliforníu í janúarbyrjun 2011 og sagði þá strax að það yrði að gera meira fyrir skulduga íbúðaeigendur og fórnarlömb undirmálalánanna (e. subprime mortage crisis). Hún tók þátt í að knýja í gegn samkomulag við fimm fjármálastofnanir (National Mortgage Settlement). Það voru Ally, Wells Fargo, Bank of America, Citi Bank og Chase Manhattan. Harkan var mikil í viðræðunum og kaus Kamala að hverfa frá þeim um tíma vegna þess að hún taldi lánastofnanirnar draga lappirnar. Að lokum var þó gengið frá samkomulagi um 12 milljarða dala lækkun hjá íbúðaeigendum í Kaliforníu en talið var að eftirgjöfin næmi um 26 milljörðum Bandaríkjadala á landsvísu. Hluti fjármunanna fór í að fjármagna ráðgjafastofur á vegum hins opinbera (stofnanir sem má líkja við Umboðsmann skuldara hér á landi) og aðra lögfræðilega aðstoð. Hluti aðgerðanna fólst í að 23 þúsund yfirskuldsettir íbúðaeigendur fengu að ganga frá yfirskuldsettum húsum án eftirmála.
Hafa verður í huga að strax eftir bankakreppuna í Bandaríkjunum var farið að huga að lækkun á greiðslubyrði íbúðaeigenda. Í maí 2009 undirritaði Obama Bandaríkjaforseti aðgerðaráætlun sem var ætlað að aðstoða fjölskyldur við að verja heimili sín (Helping Families Save Their Homes Act). Strax í desember sama ár höfðu 650.000 íbúðaeigendur náð að lækka mánaðarlega greiðslu sína með slíkri höfuðstólsaðlögun. Þegar hugað er að því að deila þarf í allar tölur með 1000 til að fá íslenskan samanburð sést að sú aðgerð ein og sér dugði skammt. Þar eins og hér voru allar aðgerðir of smáar í sniðum. Í Kaliforníu var þó reynt að breyta því.
Ein af hverjum fimm yfirskuldsettir
Í upphafi árs 2012 var talið að einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum skuldaði ennþá meira en sem næmi verðmæti húsnæðis hans. Talið er að þetta ójafnvægi - eða neikvæður mismunur íbúðaskulda og eigna - næmi um 700 milljörðum Bandaríkjadala. Með því að lækka þessar skuldir var talið unnt að bjarga fólki frá því að missa heimili sín eða að burðast með lán sem það ræður ekki við.
Lánastofnanir í Kaliforníu samþykktu semsagt á síðasta ári að gefa eftir lán sem samsvarar 12 milljörðum Bandaríkjadala (um ein íslensk landsframleiðsla). Við það tækifæri sagði Harris: ,,I know this effort will confirm what many economists have already concluded: principal reduction plans are the most helpful form of loss mitigation for homeowners and the most cost-effective for investors when compared to foreclosures."
Með öðrum orðum, það var viðurkennt að þessi aðgerð sparaði skattgreiðendum fjármuni þó vissulega væri deilt um hve miklir þeir væru. Einnig nýttist hún íbúðaeigendum og skuldurum þó mikið vantaði uppá að eining væri um það. Lánastofnanirnar vildu frekar fara þá leið að fresta greiðslum og bæta þeim aftan við höfuðstól sem þær töldu að fæli í sér betri nýtingu fjármuna og þannig væri hægt að gera meira fyrir fleiri skuldara. Yfirvöld, undir forystu Harris, náðu að þvinga fram aðra leið sem fólst í eftirgjöf höfuðstóls skulda, nokkurskonar skuldaleiðrétting.
Seinna stóð Kamala D. Harris fyrir því að kynna réttindaskjal íbúðaeigenda (California Homwowner‘s Bill of Right) í Kaliforníu sem gaf íbúðaeigendur ríkulegri lagastuðning í baráttu við lánastofnanir. Það takmarkaði heimilir lánastofnanna til að sækja að skuldurum úr öllum áttum og knúði þá til að aðstoða skuldara við að setja upp greiðsluplan eða áætlun sem auðveldaði þeim að yfirgefa yfirskuldsett húsnæði. Um leið var styrktur lagagrundvöllur saksóknaraembættisins í baráttu þess við lánastofnanir. Þessi nýja löggjöf kom til framkvæmda í upphafi árs 2013 og hefur aðstoðað skuldug heimili við að vinna sig út úr vandanum.