,,Íslenskt heilbrigðiskerfi stendur sig mjög vel. Það eru vafalaust tímabundnir erfiðleikar núna. En íslenskt heilbrigðiskerfi hefur alltaf verið mjög gott miðað við önnur heilbrigðiskerfi.” Þannig komst Birgir Jakobsson, nýr landlæknir að orði í viðtali við Fréttablaðið þegar tilkynnt var um ráðningu hans í starf Landlæknis. Birgir kemur til starfa frá Svíþjóð og segir íslenska heilbrigðiskerfið standa sig vel í samanburði við það sænska. ,,Það er ekki mjög ósvipað. Maður hugsar svipað í þessum tveimur löndum, merkilegt nokk. Það er gífurlega mikil kunnátta hér, fjölhæft starfsfólk og Íslendingar hafa notið góðs af því að geta sent sitt fólk til annarra landa,” sagði Birgir og klikkir út með að það séu gífurlegir möguleikar á að hafa ,,toppþjónustu hér.”
Það er freistandi að halda að nýr landlæknir viti hvað hann er að segja. Hann hefur dvalið langdvölum erlendis og hefur haft tækifæri til að gera samanburð við önnur lönd. Orð hans stangast hins vegar á við þá umræðu sem fer hátt hér á landi um þessar mundir, meðal annars í kjölfar læknaverkfalls. Sú umræð sannar líklega það helst að þegar kemur að heilbrigðiskerfinu taka tilfinningarnar völdin. Skiljanlega, við eigum mikið undir því að þar séu hlutirnir í lagi. En við meigum hins vegar ekki gleyma okkur og vond, einhliða og ónákvæm umræða getur líka verið skaðleg. Það er nefnilega ekki aðeins á vettvangi stjórnmálanna þar sem umræðuhefðin hefur verið að þróast á verri veg. Það er því hægt að taka undir orð Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hann lét falla á opnum fundi Félags stjórnmálafræðinga í Háskóla Íslands í síðustu viku. Þar sagði hann: ,,Vandinn er að komast hjá því að lýðskrumið taki völdin og ýti rökræðunni í burtu. Það er þetta stóra viðfangsefni sem við þurfum að fást við,...”
Góð menntun
Menntun heilbrigðisstarfsmanna hér á landi er eins og best verður á kosið. Sem betur fer eigum við mikið af ungu fólki sem vill leggja mikið á sig til að læra fyrir þau störf sem heilbrigðiskerfið þarf. Fyrir vikið er íslenskt heilbrigðisstarfsfólk eftirsótt erlendis enda menntunin sem slík alþjóðleg. Við finnum að mikið er sótt í íslenskt heilbrigðisstarfsfólk frá nágranalöndum okkar, sérstaklega frá Noregi og Svíþjóð. Norðmenn eru meira að segja svo kappsfullir að þeir koma hingað til lands og setja upp atvinnumiðlanir. Bæði þessi lönd búa nú við að ekki er nægilegur fjöldi ungs fólks reiðubúinn að leggja á sig langt og strangt nám eins og læknanám, og reyndar einnig hjúkrunarfræðinám. Öfugt við íslensk ungmenni sem sækja meira að segja til annarra landa til að sleppa framhjá óskiljanlegum fjöldatakmörkunum hér heima. Nú munu ríflega 100 Íslendingar vera að mennta sig til læknis í Slóveníu, og allmargir einnig í Ungverjalandi. Ekki er hægt annað en að dáðst að einurð þessa fólks sem nýtur í flestum tilvikum tilstyrks Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Sem niðurgreiðir námslán í von um að fólk launi það með því að efla íslenskt þjóðfélag síðar meir með menntun sinni.
Í Svíþjóð stefnir í gríðarlega vöntun á læknum og þeir leita allra leiða að fá til sín lækna, meðal annars frá Austur-Evrópu og alla leið frá Indlandi. Vandinn er að það tekur talsverðan tíma að þjálfa lækna frá þessum svæðum í starfið og svo hefur það sýnt sig að sjúklingar vilja síður fara til þessara lækna. Í þessu ástandi eru íslenskir læknar gríðarlega eftirsóttir enda stór hluti þeirra með framhaldsmenntun frá Svíþjóð og tala málið sem innfæddir. En þessi eftirspurn eftir læknum hefur líka áhrif víða um heim og mikil tilfærsla á þeim milli landa. Í Bretlandi er það vandamál núna hve stíft Ástralir sækja í breska heilbrigðisstarfsmenn.
Methafar hjá OECD
Það var einkennandi hve litla athygli ummæli landslæknis, sem hér var vitnað til í upphafi, fengu. Þau koma hins vegar heim og saman við flest þau tölfræðilegu gögn sem við höfum aðgang að. Íslenskt heilbrigðiskerfi stendur vel og færir okkur öfundsverða aðstöðu. Það er vissulega ekki sjálfgefið en margir tala eins og það sé alls ekki svo. Í Morgunblaðinu í morgun var sagt frá því að íslenska þjóðin á nokkur met þegar rýnt er í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um heilbrigði þjóðanna árið 2012.
Þar kemur fram að við megum búast við að lifa lengst allra þjóða þegar við fæðumst og hér mælist lægst dánartíðni við fæðingu. Og þetta er gerist þó að við tökum mest allra inn af þunglyndislyfjum og erum feitasta Norðurlandaþjóðin. Varðandi neyslu þunglyndislyfja þá getur hún verið merki um greiðari aðgang sjúklinga hér á landi að læknum. Með öðrum orðum, meiri notkun einnar tiltekinnar lyfjagerðar í einu tilteknu landi, getur allt eins verið merki um góða þjónustu eins og ofneyslu. Til að skilja til fullnustu hvað býr að baki þarf að rýna betur í undirliggjandi gögn, í stað þess að gefa sér að aukning lyfjaneyslu sé alltaf merki um vanhæfni eða mistök.
Mestu lífslíkur á Norðurlöndum
Samkvæmt áðurnefndum tölum OECD eru lífslíkur við fæðingu hér á landi 83 ár en meðaltalið er 79,2 ár. Fast á hæla okkur eru Svisslendingar, þar eru lífslíkur litlu minni eða 82,8 ár. Lífslíkur allra þjóða hafa aukist frá árinu 1990 en þó mismikið. Íslenskir karlar mega búast við að verða langlífastir eða ná 81,6 árum, meðaltalið er 76,1 ár. Þeir svissnesku og sænsku eru næstir þar á eftir. Lífslíkur spænskra kvenna eru mestar, 85,5 ár. Íslenskar konur eru í fimmta sæti á þeim lista, 84,3 ár og efst Norðurlandaþjóða. Það er vel yfir meðaltali sem er 82,2 ár. Séu lífslíkur skoðaðar við 65 ára aldur þá er íslenska þjóðin vel yfir meðaltalieins og rakið er í grein Morgunblaðsins en þaðan er meðfylgjandi mynd fengin að láni. Þetta eru staðreyndir sem hægt er að gleðjast yfir og bera að hafa í huga þegar íslenska heilbrigðiskerfið er skoðað.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.