Óskar Jóhannsson kaupmaður er það sem í Bandaríkjunum er talað um sem „self-made man". Hann kemur úr sárri fátækt að vestan eins og var rakið í bernskuminningabók hans (Bernskudagar, sem kom út fyrir síðustu jól) og nær með ótrúlegum dugnaði og elju að koma undir sig fótunum. Vafasamt er að tala um hann sem ríkan mann þó hann komist í þokkalegar álnir. Maður eins og hann hefði sjálfsagt orðið efnaður í Bandaríkjunum, þar sem hann hefði ekki þurft að glíma við höft, verðstýringu og endalaust stjórnlyndi. Óskar er sjálfstæðismaður, trúir á sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins og frelsi til athafna. Þegar starfsumhverfi hans er skoðað er eðlilegt að hann hafi mikla ótrú á þeim höftum sem sett eru á athafnamennsku og frumkvæði hér á landi. Það má Óskar hins vegar eiga að hann missir aldrei trúna á sjálfan sig og að hægt sé að geta hlutina betur, til hagsbóta fyrir sig og aðra.
Óskar var kaupmaðurinn á horninu í samtals 31 ár — frá 1951 til 1982 — en alls starfaði hann í fjóra áratugi við matvöruverslun. Um skeið rak hann fjórar búðir í félagi við annan. Lengst af var Óskar jafnframt atkvæðamikill í samtökum kaupmanna. Þetta var á þeim árum þegar frjáls verslun og viðskipti áttu undir högg að sækja á Íslandi vegna víðtækra gjaldeyris- og innflutningshafta, skömmtunar á ýmsum varningi, strangs verðlagseftirlits og langvarandi verðbólgu. Auk þess var samvinnuverslun skipulega ívilnað á kostnað kaupmannaverslunar. Frá öllu þessu segir Óskar og rekur þau mörgu vandamál sem kaupmanni var ætlað að eiga við í umhverfi hafta og verðlagsnefnda. Oft er ótrúlegt að lesa um hvaða verklag viðgekkst til þess að tryggja að ekkert breyttist. Er ekki að efa að neytendur guldu allt þetta dýru verði eins og Óskar rekur samviskusamlega. Frásagnir hans eru greinagóðar og skýrar og trúverðugar í alla staði. En vitaskuld verður að hafa í huga að það er kaupmaðurinn sem segir frá. Þetta er hans saga.
Hörð lífsbarátta
Óskar færir okkur sögu sem margir eru búnir að gleyma. Þegar Óskar var fjögurra ára dó faðir hans frá sex ungum börnum. Stuttu seinna fór Óskar að vinna fyrir sér í sveit. Eftir það var hann aldrei heima á sumrin, nema eitt sumar þegar hann lá í kíghósta í 14 vikur.
„Ég tók þátt í lífsbaráttu sem þjóðin hafði með svipuðum hætti gert mann fram af manni, öldum saman,“ segir Óskar í bókinni: „Strit frá vöggu til grafar, stanslaus ótti og barátta við hungur, kulda, myrkur og sjúkdóma ásamt barnadauða sem engin ráð fundust við. Þótt ég óski engu barni þess hlutskiptis, sem ég þurfti að búa við í bernsku, voru okkur systkinunum innrættar dyggðir á æskuárunum sem reyndust okkur ómetanlegar síðar á lífsleiðinni. Nánast frá því að við mundum eftir okkur tókum við fullan þátt í brauðstriti fullorðna fólksins og um fermingaraldur kunnum við að heita má öll störf til sjávar og sveita.“
Höft og aftur höft
Bókin fjallar að stærstum hluta um haftaárin og íslenskt þjóðfélag á þeim tíma. Það kemur sér vel að höfundurinn, Jakob F. Ásgeirsson, þekkir öðrum mönnum betur þá tíma en flestum ætti að vera kunn hans ágæta bók, Þjóð í hafti. Svona er ástandinu lýst í bókinni:
„Undirrót haftanna hér á landi var þó í raun ekki afstaða stjórnmálaflokkanna, heldur innlend verðþensla. Verðbólga á Íslandi hefur löngum verið meiri en í viðskiptalöndum okkar og oftast mun meiri. Það þýðir að gengi krónunnar rýrnar. En stjórnvöld þráuðust við að skrá gengi krónunnar sínu rétta verði, gengisfelling var um langt skeið nánast bannorð í íslenskum stjórnmálum. Opinbert gengi krónunnar var því rangt skráð langtímum saman, það var alltof hátt. Þar með skapaðist ójafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á gjaldeyri, framboðið annaði ekki eftirspurn. Þar að auki blasti þrot við aðalútflutningsgrein landsins, sjávarútveginum, sem aflaði þess gjaldeyris sem þjóðarbúið þarfnaðist til innkaupa frá útlöndum. Söluverð fiskafurðanna erlendis hækkaði nefnilega ekki í samræmi við hækkun alls tilkostnaðar við framleiðsluna innanlands. Það þurfti því að grípa til dulbúinna gengisfellinga af ýmsu tagi til að halda efnahagslífinu og gjaldeyrisatvinnuveginum gangandi. Þessar dulbúnu gengisfellingar voru höftin.“
Af þessu leiddi að Íslendingar bjuggu árum saman við víðtæk höft, hvaða nafni sem þau nefndust — gjaldeyrishöft, innflutningshöft, fjárfestingarhöft, verðlagshöft. Pólitískt skipaðar nefndir úthlutuðu leyfunum og ákváðu hvað mætti flytja inn, hvaða framkvæmda mætti stofna til og á hvaða verði mætti selja vörur. Spilling grasseraði og svartamarkaðsbrask. Vöruskortur og biðraðir voru daglegt brauð. Þetta eru augljóslega ekki þau fjármagnshöft sem almenningur þekkir fyrst og fremst af afspurn í dag. Höft þessara tíma gegnumsýrðu daglegt líf fólks og sugu máttinn úr öllum. Þess aðdáunarverðara er að menn eins og Óskar skyldu reyna að stunda sjálfstæðan verslunarrekstur í þessu umhverfi. Því það voru ekki bara höftin og verðlagseftirlitið heldur allskonar klíkuskapur og stjórnlyndi sem einnig var við að eiga.
Árásir á kaupmenn
Það blasir við að þetta umhverfi hefur gert Óskar pólitískan og hann upplifði miklar árásir á kaupmenn. Þær voru af stéttarlegum toga en eru líklega að mestu þagnaðar í dag. Kannski að útgerðarmenn beri þennan kaleik núna. En svona lýsir Óskar ástandinu:
„Á minni tíð sem kaupmaður sættu matvörukaupmenn linnulausum árásum vinstri manna. Harðast gengu þeir fram sem voru sannfærðir um að eina ráðið til að gera Ísland að fyrirmyndarþjóðfélagi væri að það fengi inngöngu í hóp hinna hamingjusömu sovétríkja og auðvitað yrði þeim sjálfum falið að stjórna íslenska sovétlýðveldinu um ókomna tíð, í umboði hins mikla og dáða leiðtoga í Moskvu. Margir af forystumönnum íslenskra kommúnista og sósíalista fóru reglulega til Sovétríkjanna og boðuðu fagnaðarerindið af trúarlegri sannfæringu. Þótt þeir hafi alltaf þrætt fyrir það hafa nýlegar rannsóknir í rússneskum skjalasöfnum leitt í ljós, að æðsta takmark þeirra var að ganga á milli bols og höfuðs á „auðvaldinu“ á Íslandi, með blóðugri byltingu ef ekki dygði annað.
Samkvæmt kenningunni voru allir þeir sem stunduðu verslun og viðskipti „auðvald“. Skilyrði þess að hægt væri að bæta hag alþýðunnar var að koma „auðvaldsöflunum“ fyrir kattarnef. Mikil áhersla var lögð á að telja fólki trú um að kaupmenn hefðu stolið frá hinum snauðu og að það væri ástæðan fyrir því að kaupmenn væru ríkir en almenningur fátækur. Margir urðu til að trúa því.“
Af þessu sést að í aðra röndina er saga Óskars, saga stjórnmálabaráttu síðustu aldar þar sem tókust á stjórnlyndi og haftastefna annars vegar og frelsi og framfarastefna hins vegar. Víða má lesa furðulegar frásagnir sem sýna glögglega hve hagsmunir neytenda voru með öllu hundsaðir í því reglugerðarfargani sem fylgdi haftastefnunni og verðlagsstýringu. Sjálfsagt verða margir hissa á þeim lýsingum en frásögn Óskars ætti að nýtast öllum þeim sem vilja kynna sér atvinnusögu landsins. Eins og hefur áður komið fram á þessum vettvangi þá situr verslunin oft hjá þegar verið er að ræða viðskipti og atvinnulíf.
Hér hefur fyrst og fremst verið vikið að atvinnusögu Óskars. Það er ekki með öllu sanngjarnt gagnvart bókinni því víða má lesa fjörlegar og skemmtilegar lýsingar á persónulegri nótum. Þær auðga bókina sem er læsileg og skemmtileg aflestrar í alla staði. Frágangur góður og myndskreytingar ríkulegar og mikill fengur að mörgum myndum sem koma úr persónulegu safni Óskars. Þetta er verðug saga kaupmannsins á horninu í íslensku viðskiptalífi.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.