c

Pistlar:

21. febrúar 2015 kl. 15:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bjór, mafía og lyf - saga viðskiptamógúls

Valt er veraldargengið og svo er auður sem augabragð! Það má hafa uppi margvísleg spakmæli sem minna okkur á að allt er breytingum undirorpið. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni. Flestum er kunnugt að í heimi viðskipta vegast á áhætta og ávinningur, græðgi og hræðsla. Þeir sem enga áhættu taka uppskera væntanlega áhyggjulaust líf en án mikils efnahagslegs ávinnings. Að sjálfsögðu er efnahagslegur ávinningur engin trygging fyrir hamingjuríku lífi og þeir virðast stundum brosa breiðast sem ekkert eiga.

Þetta er kannski heldur undarlegur inngangur að umföllun um bók íslenska auðmannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar: Billions to Bust and Back: How I made, lost and rebuilt a fortune, and what I learned on the way. Bókin kom út á ensku síðasta haust og er skrifuð af breska viðskiptablaðamanninum Andrew Cave. Bókin rekur ævintýraríkt líf Björgólfs sem hefur náð þeim titli að vera auðugastur núlifandi Íslendinga og komist á þá lista sem fanga slíkan efnahagslegan frama.51s03zxx3bL._SY344_BO1,204,203,200_

Þekktasti bókmenntapáfi landsins lét sig hafa að segja að það ætti að henda bók Björgólfs í ruslið! Sjálfsagt hefur hann ekki kunnað við að segja að það væri réttast að kasta henni á bálið! Allt er þetta heldur vanstillt. Björgólfur Thor er ekki fyrsti maðurinn sem dettur í hug að láta skrá sögu sína. Og væntanlega ekki sá síðasti. Hér á borðinu hjá mér er bók Steingríms J. Sigfússonar, Frá hruni og heim, sem kom út fyrir ári. Skyldu menn halda að það séu minni persónulegar réttlætingar í henni, þótt Steingrímur J. hafi sagt í blaðaviðtölum að hann legði áherslu á að segja heiðarlega frá?

Björgólfur hefur vissulega gert meira en margur til að koma sínum sjónarmiðum að í umræðunni. Hann heldur úti vefsíðunni www.btb.is þar sem hans hlið á viðskiptasögunni er rakin nokkuð rækilega. Umsjón með henni hefur öflugur talsmaður Björgólfs Thors hér á landi. Hann hefur haft aðstöðu umfram aðra til að kosta slíkt starf og telur það augljóslega nauðsynlegt. Bókin verður að að skoðast sem hluti af þeirri heild. Eðlilegt er að allir geri sér grein fyrir því en umræða um að farga bókinni ólesinni er ómálefnaleg og til vansa. Þeir sem tala þannig ættu að reyna að vinna úr reiði sinni með öðrum hætti.

Björgólfur Thor er ósáttur við þá umfjöllun sem hann hefur fengið og eðlilega er hann sár yfir að ráðist hefur verið á eigur hans og þær skemmdar. Hann slapp þó betur en margur, flaug út í heim á sinni einkaþotu og þó verkefnin hafi verið krefjandi og flókin þá þurfti hann ekki að sitja af sér þá erfiðu tíma sem voru hér fyrst eftir hrun, þegar ásakanir og reiði réðu ríkjum. Björgólfur Thor var ekki kallaður fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis og hann hefur ekki sætt neinum ákærum né hlotið dóma. Ekki verður séð að hans aðkoma hafi komið til sérstakrar rannsóknar og það verður að segjast að sú viðskiptablokkanna sem kennd var við hann (Baugur og Exista hinar - eða Kaupþing og Glitnir ef menn kjósa að horfa þannig á það) hafi sloppið þokkalega. Stjórnendur og eigendur hinna blokkanna hafa margir hverjir orðið að þola erfiðar rannsóknir, fangelsanir og ákærur. Og nú síðast þunga dóma. Björgólfur Thor slapp frá því öllu og eðlilega telur hann sér það til tekna.

Það er athyglisvert í því ljósi að í bókinni er nokkuð uppgjör við feril föður hans og nafna sem hefur verið áberandi í viðskiptalífinu hér á landi lengi og lenti í stormum Hafskipsmálsins á sínum tíma. Sem var einmitt síðasta stóra viðskiptatengda málið fyrir dómstólum áður en bankahrunið kom til. Þau málaferli verða ekki rakin hér en Björgólfur Thor rekur hvernig þau mál snertu hann sem ungan mann og engin vafi er á því að þau höfðu mótandi áhrif á hann. Í raun má segja að hann hlífi ekki föður sínum, sérstaklega í aðkomu hans að rekstri Landsbankans.

Glíman við mafíuna

Það er ævintýralegt að lesa lýsingar á því hvernig uppbygging að veldi þeirra viðskiptafélaga, Björgólfsfeðganna og Magnúsar Þorsteinssonar, átti sér stað í Pétursborg. Margt í þeirri sögu var rakið rækilega á sínum tíma. Meðal annars hefur komið út bók eftir gamlan viðskiptafélaga þeirra, Ingimar Hauk Ingimarsson, Sagan sem varð að segja, skráð af Þorfinni Ómarssyni. Þó að öll sú frásögn lúti að viðskiptum sem áttu sér stað með fyrirtækið Baltic Bottling Plant Ltd.(BBP) fyrir 20 árum þá deila menn enn um hvað gerðist.  

Björgólfur Thor segir nú nákvæmar frá því hvernig rekstrarumhverfið var í Pétursborg en miklar sögur hafa verið að af mafíustarfssemi og verndartollum. Hann rekur þetta fyrirkomulag ítarlegra en nokkru sinni áður og skyldi maður ætla að mörgum þætti það forvitnilegt í ljósi endurtekinna frásagna um slík tengsl þeirra feðga á sínum tíma. Rétt er að taka fram að aldrei hefur neitt efnislega komið fram sem rennir stoðum undir slíkt. En nú opinbera Björgólfur Thor þó hvernig viðskiptin gengu fyrir sig þarna fyrir austan. Og sannarlega eru þau frábrugðin því sem við eigum að venjast hér á Íslandi þó margir virðist telja íslenskt viðskiptalíf spillt fram úr hófi.  

Um þetta segir Björgólfur bls. 55:

„A great deal of nonsense has been written or blogged about my so-called Russian mafia connections, the vast majority of which is untrue. I say vast majority because it is virtually impossible not to come across what Russians call ‘bandits’ when operating in the country. The media like to pretend that there is a wellfunctioning Russian society, which then has to deal with a wellfunctioning foe, the Russian mafia. My experience is that this is a myth. Society in Russia is just as multy-layered as it is everywhere else, with countless sub-groups, from petty criminals to con artists and corrupt autocrats."

Hér er Björgólfur að lýsa viðskiptaumhverfinu í Pétursborg á 10 áratug síðustu aldar. Björgólfur Thor upplýsir þó að hann hafi kosið að vera ekki með lífvörð vegna þess að það að grípa til slíks ráðs hafi verið ákvörðun (e. statement) út af fyrir sig. En hjá þessu varð ekki komist. Að sjálfsögðu eru mörg siðferðileg álitaefni sem fylgja því að starfa í umhverfi sem þessu en menn verða að horfast í augu við það að víða eru viðskipti með líkum hætti. Menn borga sérstaklega fyrir öryggi, einfaldlega vegna þess að lög og regla er ekki með sama hætti og við eigum að venjast. Líklega yrðu margir undrandi hve víða þarf að greiða alskyns aukagjöld til að tryggja að ekkert óvænt komi uppá, slíkt þekkist meira að segja í hinu öfluga Evrópusambandi. Menn ættu einnig að hafa það í næst þegar þeir vilja kæra Ísland ofar á einhverja spillingarlista. En margt í Rússlandi er þess eðlis að margir vestrænir kaupsýslumenn og fyrirtæki vilja ekki stunda viðskipti þar. Kjósa stundum að koma inn á síðari stigum þegar reksturinn er komin upp og „ásættanlegur”. Það var einmitt það sem Björgólfur Thor og viðskiptafélagar hans gerðu. Þegar reksturinn var orðin stöðugur seldu þeir Heineken bjórframleiðandanum verksmiðjur sínar. Hafa verður í huga að Heineken hefði ekki keypt reksturinn nema hann stæðist áreiðanleikakröfur þeirra og í slíkum viðskiptum eru mafíusambönd ekki seld.

En áður en við fellum dóma yfir rússnesku samfélagi og þeim sem þar hafa starfað er rétt að hafa í huga að í Rússlandi störfuðu 90% vinnuaflsins hjá ríkisfyrirtækjum árið 1992, árið eftir að Sovétríkin hrundu. Rússar (og fleiri lönd í þessum heimshluta, þar á meðal Pólland) þurftu að ganga mun ákveðnar fram í einkavæðingu og umbótum í ríkisrekstri vegna þess að forsendur miðstýringar hins kommúníska kerfis voru horfnar. Þeir gátu ekki beitt sömu aðferðum og Kínverjar sem þokuðu hagkerfinu í átt til kapítalismans á allt öðrum hraða en Rússar. Hlutirnir gerðust hratt í Rússlandi og ástandið var óstöðugt og hættulegt. Inn til landsins streymdu áættusæknir menn. Segja má að lykillinn að velgengni Björgólfs Thors og viðskiptafélaga var hve vel þeir sluppu frá hruni rúblunnar. Í óvissuástandinu sem ríkti í Rússlandi sumarið 1998 var Björgólfur Thor ásamt meðeigendum sínum í Bravo International í viðræðum um nýtt hlutafé inn í fyrirtækið. „Það gekk ágætlega, en við máttum engan tíma missa," sagði hann í ítarlegu viðtali í sérblaði sem fylgdi Morgunblaðinu 26. ágúst 2006. Sú útgáfa var umdeild, meðal annars vegna þess að faðir Björgólfs Thors, Björgólfur Guðmundsson, var á þeim tíma aðaleigandi blaðsins.

Látum það liggja milli hluta. Í áðurnefndu viðtali sagði Björgólfur Thor um þessa tíma: „Við höfðum sett alla okkar fjármuni í að kaupa lóðina og hefja framkvæmdir - koma jarðýtum af stað og fá steypuhrærivélar til að snúast. Þetta var gríðarleg framkvæmd og aðeins 25% af fjármununum til staðar. En við vildum nýta peninginn strax til að sýna fjárfestum fram á að þetta væri annað og meira en viðskiptaáætlun - við værum komnir af stað." Samningar um fjármögnun á því að reisa sjöttu stærstu bruggverksmiðju í Evrópu voru undirritaðir á laugardegi og mánudaginn eftir tilkynnti forsætisráðherra Rússlands að ríkið gæti ekki greitt afborganir af erlendum lánum. Rúblan hrundi og á einni viku varð hún aðeins fjórðungur af því sem hún áður var. Og ástandið var svart. „Búðirnar í Moskvu skulduðu okkur í rúblum, en við skulduðum birgjum og allar framkvæmdir í dollurum. Við stóðum frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort við ættum að hækka vöruverðið um 300% á einni nóttu... Við hættum að svara í síma, hættum að selja og ákváðum að gera ekkert í nokkra daga."

Losnaði aldrei frá Íslandi!

Hlutirnir gengu ekki svona vel fyrir sig á Íslandi 10 árum seinna. Björgólfur Thor gagnrýnir sjálfan sig fyrir að hafa verið of nátengdur íslensku efnahagsbólunni, hann hafi haft valkosti, öfugt við marga aðra íslenska viðskiptajöfra. „There were plenty of other places I could have gone to invest but for a deal junkie, Iceland was such an easy place to score.” (bls. 157). Á sínum tíma vakti mikla athygli þegar þeir feðgar gáfu út yfirlýsingu um að þeir skiptu viðskiptum sínum. En Björgólfur Thor hvarf ekki á braut þó hann virðist hafa ætlað sér það. Líklega er það vegna þess að hann taldi sig hafa ávinning af því að vera hér áfram.

Björgólfi Thor  verður tíðrætt um að hann hefði átt að sjá hrunið fyrir. Að sjálfsögðu er hann reiður sjálfum sér. Í stað þess að fara út af markaðnum, minnka skuldsetningu og safna reiðufé eins og þeir allra varfærnustu gerðu þá hélt hann áfram að taka áhættu. Sá er þetta skrifar minnir meira að segja að hann hafi hlotið Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins 2007 einmitt fyrir að hafa selt sig út úr stöðum þótt yfirtakan á Actavis hafi verið lang fyrirferðamest í hans viðskiptum það árið. Skömmu eftir yfirtökuna sumarið 2007 reis íslenska hlutabréfavísitalan yfir 9000 stig sem sýndi sig vera einhver mesta hlutabréfabóla sem sögur fara af. Björgólfur Thor segist nú ekkert skilja í sjálfum sér, talar jafnvel um dramb. Sumt í þessari upptalningu viðskiptamistaka hans kemur okkur sem fylgst höfum með hans ferli á óvart. Þar má til dæmis nefna tilraunar hans til að komast í áhrifastöðu í Allianz, þýska tryggingarisanum. Það var glórulaust segir Björgófur Thor nú en hann tapaði ógnarfjárhæðum á þeirri fjárfestingu. Í heimi Björgólfs Thors var allt á fallanda fæti, ekki eingöngu á Íslandi. Í því sambandi má rifja upp Eike Batista, brasilískur milljarðamæringur, tapaði 30 milljörðum bandaríkjadala, tæplega 10-faldri þeirri upphæð sem Björgólfur Thor sá á eftir og virðist að mestu horfin úr viðskiptum. 

Aftur milljarðamæringur - en reynslunni ríkari

Eins og segir í upphafi hefur Björgólfur Thor sloppið bærilega frá hruninu, í það minnsta miðað við aðra íslenska viðskiptajöfra. Lykillinn að því er að honum tókst að halda stöðu sinni í Actavis. Hann lýsir því hvernig hann hafi öðlast tiltrú lánveitenda, meðal annars með því að draga inn 200 milljón dollara sjóð sinn sem hann hefði getað haldið fyrir utan uppgjörið.  Aðrir töldu að lögfræðilegar girðingar hans utan um bréfin í Actavis hafi gert það að verkum að bréfin yrðu aldrei tekin af honum nema með gríðarlegum dómsmálum. Hann var í aðstöðu til að semja en  segist í raun hafa verið í mínus um tíma. Í ítarefni má sjá töflurit sem sýnir eignarstöðu Björgólfs þar sem kemur fram að á tíma var hann með neikvæða eiginfjárstöðu. En öll él birtir upp um síðir, markaðir sveifluðust upp aftur og þeir sem áttu eitthvað þá nutu þess. Í dag er hann aftur orðin fyrirferðamikill þátttakandi í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi. En reynslunni ríkari, síður áhættusækin og ekki sami fíkill viðskipta og áður.

Í lok bókarinnar birtist stuttur kafli þar sem Björgólfur Thor hugleiðir stefnu og þróun í hinu alþjóðlega viðskipta- og stjórnmálalífi. Þar kann einhverjum að koma á óvart að hann tekur undir málflutning Nick Hanauer sem hefur verið að vara félaga sína í milljarðamæringaklúbbnum við. Í júní 2014 vakti athygli þegar birtist í hans nafni bloggfærsla með titlinum; To My Fellow Filthy Rich Americans. The Pitchforks Are Coming. Þar varar hann ríkustu íbúa jarðarinnar við vaxandi misskiptingu auðs, sjónarmið sem alla jafnan sést ekki úr þeim ranni. Um það segir Björgólfur Thor: „Have we, the top asset owners, also become reckless? Hanauer’s view may seem excessively apocalyptic, but it is a warning that capitalism desperately needs to heed.”

Að þessu leyti lýsir bókin ákveðinni tilraun til uppgjörs og Björgólfur Thor virðist hafa þörf fyrir að horfast í augu við eigin verk og athafnir. Hve trúverðugt það er; ja, hugsanlega á hann eftir að sýna það í verki. Lengi skal manninn reyna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.