c

Pistlar:

19. apríl 2015 kl. 12:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Af hverju eru sumar þjóðir ríkari en aðrar?

Margar kenningar má finna sem reyna að svara þessari spurningu, sumar eru um leið að reyna að svara spurningum um ójafna skiptingu auðsins fremur en af hverju sumir verða ríkari en aðrir. Í síðasta pistli mínum um Nígeríu spunnust umræður um hvernig Nígeríu hefði tekist að vinna úr þeim mikla olíuauði sem landið býr yfir. Og jafnvel gerður samanburður við Noreg en olíuævintýri landanna hefjast um líkt leyti.

Hagfræðin hefur sem gefur að skilja gert sitt besta til að skýra tilurð auðs og hagsældar. Hér er ætlunin að horfa meira til þess hvernig sagnfræðin fjallar um þetta efni. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor gerði þetta að  umræðuefni í pistli sínum í Morgunblaðinu á laugardaginn. Þar segir hann að eitt skynsamlegasta svarið, sem hann hefur fundið við þessari spurningu, sé í bókinni Þess vegna vegnar þjóðum illa (Why Nations Fail) eftir Daron Acemoglou í MIT og James Robinson í Harvard, sem út kom 2012. Í fæstum orðum er þetta svar, að gæfumun þjóða geri, hvort skipulagið einkennist af sjálftöku (extraction) eða þátttöku (inclusion). Hugsanlega hjálpar sú kenning við að skýra muninn á Noregi og Nígeríu.

En ef við höldum okkur við sagnfræðina þá má segja að lengst af hafi auðsöfnun þjóða verið lítil og tilviljanakennd. Fremur helgast af valdi og hernaðarsigrum en margvissri uppbyggingu þjóðfélaga og framleiðslutækja. Vitaskuld náðu einstaka þjóðfélög að bæta velferðarstig sitt og er sérstaklega forvitnilegt að horfa til þeirra siglingavelda sem byggðu á verslun, svo sem Fönikíumenn og síðar Feneyingar og Flórensbúar. Þar safnaðist fyrir gríðarlegur auður eins og við sjáum á viðskiptasvæðum eins og Hong Kong og Singapúr í dag.hk-city

Mikilvægi iðnbyltingarinnar

Þær breytingar sem urðu í Bretlandi á miðri átjándu öldinni eru um margt athyglisverðar en þar tölum við oftast um að vagga iðnbyltingarinnar liggi. Þessar breytingar voru svo áhrifamiklar að þær breyttu þjóðfélögum hins vestræna heims. Notkun gufuaflsins margfaldaði framleiðslugetu og samgöngur urðu aðrar og hraðari. Fjöldaframleiðsla hélt innreið sína og framleiðsla færðist inn í verksmiðjur. Borgir lýstustu upp með tilkomu gaslýsingar og síðar rafmagnsljósa. Járnbrautir bættu samgöngur gríðarlega og skipaskurðir reyndust iðnvæðingunni mikilvægir með því að auðvelda þungaflutninga. Lífsskilyrði í borgum bötnuðu og farið var að reyna að halda þeim hreinum með því að leiða skólp og óhroða í burtu.

Á viktoríutímanum var mesta gæfa Breta sú þegar iðnbyltingin var að komast á skrið að þá tók forsætisráðherrann Robert Peel frjálsri verslun opnum örmum en bannaði hana ekki eins og gert var sumstaðar annars staðar eins og til dæmis í Kína. Í bók sinni Heimur batandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves) segir Matt Ridley að Bretar hafi árin 1846 til 1860 gripið til ýmissa aðgerða í mæli, sem á sér ekki fordæmi í sögunni, til að opna markaði fyrir frjálsa verslun. „Þeir felldu kornlögin úr gildi, afnámu siglingalögin og tolla, gerðu viðskiptasamninga við Frakka og aðra og tóku upp þá reglu að leita alltaf að bestu viðskiptakjörunum — litu svo á að allir viðskiptaaðilar hefðu frelsi til að semja. Þetta varð til þess að tollalækkun breiddist eins og veirusýking út um allan heim og heimsviðskiptin urðu loks frjáls. Þetta var eins konar Fönikíutilraun á heimsvísu.”

En af hverju gerðist iðnbyltingin í Bretlandi en ekki t.d. í Frakklandi sem á miðri 18. öld var mun stærra og ríkara land? Margar starfsgreinar stóðu traustum fótum í Frakklandi og segja má að nútímavæðing þjóðfélagsins hafi verið meiri en hinum megin Ermasundsins þar sem allt fór á fleygiferð.  Margt var hagfellt Bretum. Þrátt fyrir að landið væri fremur lítið þá myndaði það nokkuð sterka efnahagslega einingu án þess að innri hindranir trufluðu mikið. Þá breytist fjármálakerfið til hins betra og auðveldara var að afla fjármagns til verkefna. Einkaleyfi og önnur form eignarréttar stóðu traustum fótum í lagaumgerðinni og dómstólar áttu auðvelt með að skera úr deilumálum svo að menn sættu sig við. Eins og áður sagði voru samgöngur orðnar mjög góðar. Frá aldamótunum 1800 hafði verið lögð mikil áhersla á að bæta alla vegi sem í mörgum tilfellum voru með varanlegu slitlagi. Skipaskurðir og góðar hafnir skiptu einnig miklu. Félagslegur hreyfanleiki varð auðveldari og frumkvöðlar og hugvitsmenn gátu risið upp til auðs og áhrifa, svo sem John Dalton, Henry Maudsley, James Watt og George Stephenson sem allir nutu virðingar og urðu auðugir. Richard Arkwright, yngstur 13 systkina og rakaranemi, var að lokum aðlaður. Hinum megin Ermasundsins var hin mikli efnafræðingur Antoine Lavoisier og upphafsmaður metrakerfisins tekin af lífi. Aðrir Frakkar voru heppnari eins og Marc Isambard Brunel sem flúði til Englands og var að lokum aðlaður.hi-james-watt-0803_1843037c

Tóku umbyltingu fram yfir iðnbyltingu

Það blasir einnig við að leita pólitískra skýringa á því af hverju Frakkland var ekki að ná iðnbyltingarlestinni. Þeir voru einfaldlega uppteknir við að umbylta þjóðfélaginu í leit að  jafnrétti, frelsi og bræðralagi og lýðskrumarar náðu völdum. Franska stjórnarbyltingin er að mörgu leyti misheppnuð aðgerð og varð tilefni mikilla hörmunga og hálf hjákátlegt að tala um „mannúð frönsku stjórnarbyltingarinnar” eins og fyrirferðamikill pistlahöfundur gerði fyrir skömmu. Tímabilið sem tók við eftir byltinguna einkenndist af átökum og skefjalausu ofbeldi en talið er að um 250.000 manns hafi verið drepnir í Frakklandi á fyrstu árunum eftir byltingu. Tækninýjung byltingarinnar var fallöxin og varð nokkurs konar tákn hennar. Hryllingsstjórn tók við og efasemdir og andmæli voru kæfð í fæðingu með aftökum fjölda fólks. Maximilien Robespierre (1758–1794) fór þar fremstur í flokki en að lokum var fólk leitt undir fallöxina í löngum röðum án nokkurrar tilraunar til að rétta yfir því. Það er fráleitt að tala um nokkur borgaraleg réttindi á tímum slíkrar ógnarstjórnar. Það verður því ekki deilt um það að í Frakklandi geisaði nokkurskonar borgarastríð árin eftir byltingu og það varð að orðtaki að „byltingin étur börnin sín“. Umrótið leiddi að lokum Napóleon Bónaparte (1769–1821) til valda en hann gerði sitt besta til að berja niður allt andóf. Árið 1799 hrifsaði hann öll völd í sínar hendur og þá var orðið fátt eftir af byltingarandanum sem hafði fengið fólk til að ráðast á Bastilluna áratug fyrr. Í framhaldinu hóf Napóleon styrjaldir sínar sem drógu alla Evrópu inn í byltingarhörmungar Frakka og kostuðu milljónir manna lífið.

Bætti iðnbyltingin lífskjörin?

Á þetta er bent til að fólk átti sig á því að það er sitthvað, iðnbylting og pólitísk bylting. En bætti iðnbyltingin lífskjörin í raun og veru? Við skulum ljúka þessu á svörum Matt Ridley við því: „Enn er til fólk sem fylgir í fótspor Karls Marx og heldur því fram að iðnbyltingin hafi skert lífskjör flestra með því að troða áhyggjulausum og glaðlyndum bændum inn í djöfullegar spunaverksmiðjur og mengaðar leiguíbúðir þar sem þeir strituðu sér til óbóta og gengu síðan hóstandi til móts við ótímabæran dauða. Í þessum hópi eru meðal annarra þeir sem skrifa kennslubækurnar sem börn mín læra söguna af. En er í raun og veru nauðsynlegt að benda á að fátækt, ójöfnuður, barnaþrælkun, sjúkdómar og mengun voru til áður en verksmiðjur komu til sögu? Fátækt fólk í sveit árið 1700 stóð miklu verr að vígi en fátækt fólk í borg árið 1850 og það var líka miklu fleira. Í rannsókn Gregorys Kings á íbúum Bretlands árið 1688 kemur fram að 1,2 milljónir verkamanna framfleyttu sér á aðeins fjórum pundum á ári og 1,3 milljónir smábænda á aðeins tveimur pundum á ári. Með öðrum orðum, helmingur allrar þjóðarinnar bjó við ömurlega örbirgð og hefði soltið ef hjálparsamtök hefðu ekki starfað. Talsvert var um fátækt í iðnbyltingunni en hún var ekki nærri jafnmikil og ekki nærri jafnömurleg.”

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.