Hvammsvirkjun í Þjórsá var færð úr biðflokki í nýtingarflokk á nýafstöðnu þingi. Landsvirkjun hefur þegar hafið undirbúning að framkvæmdum og ef engar ófyrirséðar tafir verða er hugsanlegt að Hvammsvirkjun verði tilbúin innan 3 til 4 ára. Það er þá 5 til 6 árum eftir að Búðarhálsstöð var gangsett en það var í mars 2014. Búðarhálsstöð var fjórtánda vatnsaflsstöðin sem Landsvirkjun tók í rekstur og nýtir 40 metra fall frá Hrauneyjafossi að Sultartanga. Með nýrri stöð jókst orkuvinnslugeta Landsvirkjunar um 585 GWst á ári.
Landsvirkjun undirritaði samninga við tvo nýja viðskiptavini í kísilmálmiðnaði á síðasta ári, United Silicon og PCC. Í ársskýrslu Landsvirkjunar segir að áætlað sé að fyrirtækin hefji rekstur á næstu tveimur árum og þurfi samtals í kringum 90 MW af raforku á ári. Ljóst er að Landsvirkjun sárvantar orku til að geta staðið við samninga og útvegað nýjum kaupendum orku.
Landsvirkjun er með allmarga virkjunarkosti til rannsókna víðsvegar um landið. Ný Þeistareykjavirkjun er sá virkjunarkostur sem er kominn hvað lengst í ferli hjá Landsvirkjun en framkvæmdir hófust þar fyrr á árinu. Fyrsta skrefið er að byggja þar 45 MW virkjun með mögulegri stækkun í 90 MW í öðrum áfanga. Áætlanir gera ráð fyrir allt að 200 MW orkuvinnslu í fullbyggðri Þeistareykjavirkjun. Á síðasta ári fóru fram umfangsmiklar undirbúningsframkvæmdir á Þeistareykjum en þar er nú framkvæmt í gangi enda undirbúningur að verksmiðju PCC á Húsavík í fullum gangi.
En nú er komið að vatnsaflsvirkjunum. Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi virkjana í Þjórsá neðan Búrfellsvirkjunar. Um er að ræða þrjá virkjunarkosti: Hvammsvirkjun er efsti kosturinn, fyrir neðan kæmi Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun sá neðsti.
Hvammsvirkjun skilar 93 MW
Fyrirhuguð Hvammsvirkjun myndi nýta fall Þjórsár rétt ofan við bæinn Haga í Gnúpverjahreppi og niður fyrir Ölmóðsey. Inntakslón Hvammsvirkjunar, Hagalón, myndast með stíflu yfir farveg Þjórsár. Stíflan verður um 450 m á lengd og um 16 m á hæð. Á vesturbakkanum afmarkast lónið að mestu leyti af Þjórsárdalsvegi sem verður endurbyggður að hluta. Með virkjuninni verður unnt að komast á milli Árnessýslu og Rangárvallarsýslu á nýjum stað. Er ekki að efa að það verður mikil samgöngubót.
Inntakslón Hvammsvirkjunar, Hagalón, er myndað með stíflu í Þjórsá ofan við Minnanúpshólma og stíflugörðum á austurbakka árinnar. Stöðvarhús er staðsett í landi Hvamms og verður aðeins efsti hluti þess sýnilegur. Frá inntaksmannvirkjum við Hagalón liggja tvær 270 metra langar þrýstivatnspípur að virkjuninni. Frá virkjun rennur vatnið fyrst um jarðgöng og síðan í opnum skurði samtals 3,3 km til Þjórsár neðan við Ölmóðsey. Virkjað fall er 32 metrar, afl verður 93 MW (ekki 82 eins og Framtíðarlandið kýs að segja ranglega á heimasíðu sinni). Orkugeta er 735Gwh/ári.
Hönnun og rannsóknir vegna virkjana í Þjórsá hafa staðið í áratugi og á þeim tíma hefur hönnun þeirra breyst mikið. Þannig kom í ljós fyrir nokkrum árum að með því að lengja frárennslisskurð við Hvammsvirkjun megi auka fallið um 10% eða allt að þrjá metra. Þetta getur aukið kostnað við virkjunina en mestu skiptir að þetta eykur arðsemi á orkueiningu. Ávinningurinn er umtalsverður en Hvammsvirkjun hafði fram að því verið áætluð 80 MW.
Hvammsvirkjun hefur verið tekin inn á staðfest aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Mesta röskun vegna virkjunarinnar verður á jörðinni Hvammi. Vinna við endanlegar hönnunarforsendur er á lokastigi. Landsvirkjun beið niðurstöðu Alþingis um breytta flokkun virkjunarkostsins sem liggur nú fyrir eins og áður segir. Einnig þarf ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort að endurskoða þurfi matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum eða ekki. Ef það er nauðsynlegt gæti dregist um hálft til eitt ár að framkvæmdir hefjist. Umhverfismatið er 15 ára gamalt og eðlilegt er að gera nýtt. Um leið ætti að vera tækifæri til að flýta gerð þess eins og mögulegt er enda unnt að styðjast við fyrra mat.
Fallegt svæði en þegar raskað
Sá er þetta skrifar hefur margoft ferðast um svæðið sem hér um ræðir og finnst það bæði fallegt og aðlaðandi. Komandi af Skeiðunum fannst mér sem ungum dreng alltaf talsvert til um landslag Gnúpverjahrepps en hrepparnir hafa nú verið sameinaðir. Einhverju er því fórnað þó vel sé hægt að sjá fyrir sér að miðlunarlónið falli að umhverfinu í framtíðinni. Engin getur neitað því að framkvæmdin er afskaplega hagkvæm og Þjórsársvæðinu hefur verið raskað nú þegar. Á móti má væntanlega hlífa öðrum óröskuðum svæðum.
Þjórsáin er nú þegar vel miðluð og því þarf aðeins inntakslón en engin miðlunarlón. Inntakslónin eru að mestu leyti í farvegi Þjórsár. Svæðið er hluti af samfelldri heild virkjanasvæða. Vegna ísmyndunar í ánni þarf að byggja Hvammsvirkjun og Holtavirkjun á undan Urriðafossvirkjun. Ætli menn á annað borð að virkja áfram vatnsafl á Íslandi blasir við að Hvammsvirkjun er í senn augljós og skynsamur kostur.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.