Þessa daganna beinast augu margra að ástandi mála í Venesúela. Margra ára óstjórn sósíalista er nú að keyra þetta náttúruauðuga og fallega land í kaf. Í bandaríska stórblaðinu Washington Post er sagt að spurningin sé eingöngu hvort efnahagurinn eða ríkisstjórnin hrynji fyrst. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að samdráttur hagkerfis Venesúela hafi verið 10% á síðasta ári og 6% á þessu ári. Verðbólga mælist nú vera 720% og vöruskorturinn er alger. Fólk eyðir dögunum í biðröðum þó allar hillur séu tómar, meðal annars vegna þess að ríkisstjórnin bannaði verðhækkanir. Allar aðgerðir sósíalistastjórnarinnar til þessa hafa gert ástandið verra en áður. Það þarf ekki mikla sérfræðinga til að sjá að landið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar og í raun fer að verða hægt að tala um þjóðargjaldþrot. En ríki fara ekki endilega á hausinn, þau fella bara gengið! En þegar horft er til þess að landið skuldar nú 125 milljarða Bandaríkjadala og þarf að greiða 10 milljarða á þessu ári er ljóst að stærð vandans er mikil.
Allt er þetta heldur sérkennileg niðurstaða í ljósi þess að landið býr að auðugustu olíulindum heimsins en olía stendur undir 95% af útflutningstekjum landsins. Hvernig gerist þetta? Jú, hér hefur áður í pistli verið rakin hin ólánsama saga Venesúela sem í senn blandast af óheppni og hræðilegri pólitískri forystu. Niðurstöðuna núna má rekja til valdatíðar Hugo Chávez (1954-2013) en ríkisstjórn hans hugðist bæta mjög hag hinna fátæku. Í upphafi voru þeim færð allskonar hlunnindi, meðal annars nánast ókeypis eldsneyti og ókeypis húsnæði. Það gæti virst saklaus hugmynd, allir vilja jú bæta hag hinna fátæku. Á þessu var þó einn hængur. Til þess að hrinda slíku í framkvæmd þurfa menn að eiga fyrir því. Þannig var ekki staðan árið 2005 þegar Chávez hóf að dreifa fjármunum ríkisins til hinna fátæku.
Seðlaprentun á fullt
Meira að segja á meðan olíuverð var í hæstu hæðum hafði landið ekki efni á stefnu Cháves. Fjárausturinn jókst í öfugu hlutfalli við þjóðartekjur. Fljótlega var gripið til gamalkunnra ráða. Ef vantaði peninga þá voru einfaldlega fleiri peningar prentaðir. Virðist góð hugmynd en það er nokkuð langt síðan afleiðingar slíkrar stefnu urðu ljósar, óðaverðbólga sem að lokum eyðileggur verðgildi gjaldmiðilsins. Í tilfelli Venesúela bætti ekki úr skák að menn létu sér ekki nægja að prenta aðeins meira af seðlum, nei, prentvélarnar voru settar á fullt. Þegar olía byrjaði að lækka árið 2014 var ljóst að engu yrði bjargað. Venesúela er ekki eitt á báti í þeim hörmungum en þær eru að mörgu leyti verstar þar. Gjaldmiðill Venesúela hefur glatað 93% af verðgildi sínu undanfarin misseri. Hugsanlega hefur Lenín eitthvað misskilið hlutina en hann hélt að árás á gjaldmiðilinn væri besta leiðin til að eyðileggja kapítalísk kerfi. Svo virðist sem gjaldmiðillinn sundri ekki síður sósíalískum kerfum!
Þingkosningar voru í desember síðastliðnum þar sem stjórnarandstaðan vann â…” sætanna. Það var í raun pólitískur jarðskjálfti. Í fyrsta sinn í 17 ár sem Chávisminn vinnur ekki kosningar í Venesúela. Kosningarnar hafa ekki einfaldað málin enda ljóst að Cháviistar undir stjórn forsetans Nicolás Maduro ætla ekki að afhenda völdin svo auðveldlega. Ljóst er þó að Maduro neyðist til að deila völdunum nema hann kjósi að senda þingið heim.
Efnahagur landsins er í molum eins og áður sagði og flest öll viðskipti fara nú fram á svarta markaðinum þar sem erlendir gjaldmiðlar eru það eina sem dugar. Vitaskuld hafa stjórnvöld neitað tilvist svarta markaðarins og reynt að beita tækjum eins og verðstöðvunum og gjaldeyrishöftum. Án nokkurs sýnislegs árangurs.
Nicolás Maduro hefur undanfarið orðið enn öfgafyllri í tali og talar nú um samsæri innlendra og erlendra kapítalista. Það er oft síðasta haldreipið en um leið reynir stjórn hans að sækja um hjálp erlendis, meðal annars frá Rússum og OPEC. Það er gert undir formerkjum þess að skapa stöðugleika á olíumörkuðum en ljóst er að Venesúela á ekki sterka rödd á þeim vettvangi nú. Maduro hefur kallað ástandið á olíumörkuðum brjálæði en líklega lýsir það orð betur ástandinu heima við hjá honum.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.