Ef ástæða er til að undrast íslenska umræðuhefð á netinu getur verið forvitnilegt að skoða bandaríska miðla. Af þessu sést glögglega að utanríkisstefna Barak Obama Bandaríkjaforseta er umdeild meðal landa hans og ekki hvað síst sú ákvörðun hans að aflétta viðskiptaþvingunum á Íran og hleypa Persum þannig aftur inn í samfélag þjóðanna sem fullgildum meðlimi. Ef vel tekst til getur þetta opnað nýtt land fyrir erlendum árifum og viðskiptum en ef illa fer getur klerkaveldið í Íran hrifsað til sín völd á viðkvæmasta átakasvæði heimsins. Á meðan spyrja ættingjar og vinir þeirra Bandaríkjamanna sem létust eða særðust í Írak til hvers var barist eins og kemur fram á áðurnefndum spjallþræði.
Íran er ekkert venjulegt ríki. Með sína tæplega 80 milljónir er landið á pari við Tyrki og Þjóðverja. Þjóðin er menntuð og margt jákvætt í efnahag landsins. Auðlindir landsins eru gríðarlegar. Spurningin er hvað pólitísku stefnu klerkastjórnin tekur nú þegar viðskiptaþvingunum hefur verið aflétt. Síðan það átti sér stað hefur verið veisla í írönsku kauphöllinni sem er reyndar hvorki stór né merkileg. Miklu munar um að nú losnar um eignir sem nema allt að 100 milljörðum Bandaríkjadala. Það eru frystar eignir Írana erlendis. Um leið má gera ráð fyrir því að erlendar fjárfestingar aukist verulega og þá munu Íranar án efa reyna að koma olíubirgðum sínum í verð sem eru ekki jákvæð tíðindi fyrir þá sem vonast eftir því að olíuverð hækki.
Losnar um háar fjárhæðir
En þessir 100 milljarðar dala eru ekki allir í hendi. Samkvæmt fréttaskýringu í Foreign Affairs tímaritinu er aðeins helmingur þessa fjár á lausu. Einnig verður að gera ráð fyrir að Íran verði að halda eftir hluta fjárins sem varasjóði ef eitthvað bjátar á (sem gerir alltaf). Því telja sérfræðingar að aðeins um fjórðungur upphæðarinnar, um 25 milljarðar Bandaríkjadala, séu í raun á lausu. Það er auðvitað myndarleg upphæð en þó ekki nema lítið brot þeirrar fjárhæðar sem þarf til að endurreisa innviði Írans.
Af þessu leiðir að erlend fjárfesting verður mikilvæg fyrir landið. En hvernig á Íran að laða til sín erlenda fjárfestingu? Í fljótu bragði virkar stjórnarfarið ekki spennandi og eignaupptökur og einræði undanfarinna áratuga eru varla hvetjandi fyrir fjárfesta. Á móti vegur að Íran hefur upp á margt að bjóða og áhættusæknir fjárfestar ættu að geta gert sér vonir um myndarlega ávöxtun. Landið þarf nauðsynlega á breytingu að halda. Og ólíkt mörgum öðrum auðlindaríkum löndum (um sum hefur hér verið fjallað í pistlum hér, s.s. Nígeríu og Venesúela) þá hefur Íran upp á margt að bjóða. Efnahagurinn er fjölbreyttur og viðskiptajöfnuður landsins hefur verið jákvæður að undanförnu. Og síðast en ekki síst, í borgum landsins má finna menntaða millistétt sem er áhugasöm á að láta til sín taka. Erlendir fjárfestar ættu því að geta fundið áhugaverð tækifæri í vinnuafli landsins.
Vissulega er margt sem getur virkað fráhrindandi á erlenda fjárfesta. Stjórnarfarið skortir ýmis þau grunngildi sem við eigum að venjast, svo sem aðskilnað trúar og stjórnarfars. Spilling er talsverð í landinu og þá er eignarrétturinn síður en svo óskoraður, sérstaklega þegar kemur að hugverkaréttindum. Og jafnvel þó fjárfestar séu áhugasamir, þá er ekki með öllu ljóst hve viljugir æðstu stjórnendur landsins eru í að hleypa þeim inn með því raski og valddreifingu sem því fylgir. Augljóslega verður ríkið að slaka á eignarhaldi sínu með einhverskonar einkavæðingu og koma þannig lífi inn í atvinnulíf sitt. Algerlega er ósvarað hve mikið sjálfstæði seðlabanki landsins fær eða hvernig fjármálastarfsemi verður yfir höfuð háttað.
Gríðarlegar gas og olíulindir
Íran er annað tveggja ríkja heims sem hefur yfir ómældu magni gas og olíu að ráða. Hitt er Rússland sem á í gríðarlegum vanda með efnahag sinn. Íran er með fjórðu mestu olíulindir heims og næst mestu gaslindirnar. Ef skikk kemst á olíumarkaði - sem fátt bendir reyndar til - þá gæti Íran vissulega notið mikilla tekna af þessum auðlindum. En það má ekki gleymast að landið er einnig með margvíslega aðra starfsemi. Landsframleiðsla nemur um 1,4 trilljón Bandaríkjadala sem mun vera um 1,5% af þjóðarframleiðslu (GDP) heimsins. Samkvæmt tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hagkerfið Írans það 18 stærsta í heiminum, mitt á milli Tyrklands og Ástralíu. Þjóðartekjur eru um 17.000 dalir á mann sem setur Íran rétt á undan Brasilíu og Kína með sinn gríðarlega vöxt. Viðskiptabannið hefur haft þau jákvæðu áhrif að landið skuldar lítið og hefur byggt upp eigin framleiðsluiðnað. Hvort hann hefur styrk til að standa af sér erlenda samkeppni, þegar skjól viðskiptabannsins hverfur, á eftir að koma í ljós.
Þrátt fyrir að orkulindir Írans séu miklar þá er atvinnulífið nokkuð fjölbreytt. Um helmingur hagkerfisins er á sviði þjónustu, 41% iðnaður (þar með talin olíuiðnaður) og afgangurinn fellur undir landbúnað. Olíu- og gasframleiðsla er um einn fimmti af landsframleiðslu. Árið 2011 - áður en viðskiptabannið tók gildi - var Íran 13 stærsti bílaframleiðandi heims með framleiðslu upp á 1.650 þúsund bíla á ári. Það er meiri framleiðsla en í Bretlandi. Síðan 2013 hefur Íran notið hagstæðs viðskiptajöfnuðar sem nemur 35 milljörðum dala. Það er að mestu að þakka bílaiðnaði, efnaiðnaði, námuiðnaði, smáframleiðslu og fjarskiptum.
En hugsanlega liggur mesti auður Írans í landsmönnum sjálfum. Eins og áður sagði eru þeir um 80 milljónir talsins og 64% eru undir 35 ára aldri. 73% landsmanna býr í þéttbýli og borgum rétt eins og í öðrum iðnríkjum. Menntunarstig er með ágætum. 87% landsmanna eru læsir og 98% þeirra sem eru á aldrinum 15 til 24 ára, þökk sé nýlegum átökum á því sviði. Háskólanemar eru um 4,4 milljónir talsins og merkilegt nokk, 60% þeirra eru konur. Mikil áhersla er á raungreinar og 44% nemenda lýkur námi í verkfræði, stærðfræði eða öðrum tækni og vísindagreinum. Þó sjálfsagt megi deila um gæði námsins þá útskrifa fá ríki jafn marga vísindamenn. Það útskýrir kannski upphafið að viðskiptabanni Írans, kjarnorkuáætlun þeirra.
Aftökur og viðskipti
Hugsanlega mun allt fara vel og Íran stimpla sig inn í samfélag þjóðanna. Það má finna margt jákvætt í samfélagi þeirra. Eigi að síður er ástæða til að tortryggja þá og margir óttast að þeir nái að festa sig í sessi sem kjarnorkuveldi. Fyrir á svæðinu eru Pakistan og Indland auk Ísrael sem slík en þeir síðasttöldu hafa gefið út að þeir muni aldrei geta þolað Íran að eiga kjarnorkuvopn. Miðausturlönd og Persaflóasvæði er ótryggasta svæði heims í dag. Hinum megin Persaflóa er Sádi-Arabía, höfuðóvinur Írans í dag (svona að Bandaríkjunum undanskildum). Íranir og Sádar styðja sitthvora trúarhópana í Írak og virðast taka sér stöður sem oddvitar sítar og súnnítar. Ekki er langt síðan Ayatollah Ali Khamenei, æðsti ráðamaður Írans, sendi skilaboð til æðstu ráðamanna Sádi-Arabíu um að þeir eigi yfir höfði sér „Guðlega hefnd“ vegna aftöku þeirra síðarnefndu á sítaklerknum Nimr al-Nimr.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var viðtal við sendiherra Íran. Hann boðar nú viðskiptatækifæri í Íran fyrir íslensk fyrirtæki enda er þeim umhugað að færa sem mest viðskipti til landsins núna. Íslendingar hafa yfirleitt litið svo á að leita skuli viðskipta þar sem þau bjóðast. Íran státar hins vegar ekki af miklum afrekum í mannréttindamálum og Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International hafa haft landið undir smásjá um árabil enda aftökur tíðar.
Íranskt máltæki segir: Ef þú sérð blindan mann, sparkaðu þá í hann. Hví skyldir þú reynast honum betur en Guð? Þrátt fyrirkaldhæðnislegan tón í þessu er landinu stjórnað af guðlegum fulltrúum og nú reynir á hvernig umheiminum gengur að sætta sig við það.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.