Af hverju vegnar einum betur en öðrum? Við veltum þessu fyrir okkur varðandi einstaklinga en einnig um samfélög, jafnvel heilu þjóðfélögin. Við þekkjum það úr okkar gamla bændasamfélagi að einum búnaðist betur en öðrum, jafnvel á jörðum sem virtust njóta svipaðra landkosta. Sumir voru einfaldlega kallaðir búskussar. Umræðan getur verið grimm en oft skildi á milli lífs og dauða hvernig mönnum farnast í samfélögum sem voru nánast ofurseld duttlungum náttúrunnar. Við Íslendingar erum komnir frá þessum dauðans óvissu tímum en margar þjóðir feta einstigið ennþá.
Síðasta fimmtudag var haldinn hér á landi alþjóðleg ráðstefna „Social Progress - What Works" með þátttöku margra af fremstu vísinda- og fræðimönnum heims á sviði samkeppnishæfni þjóða og stefnumótunar fyrirtækja. Fundarefnið var ný aðferð til að mæla efnahagslega velgengni þjóða, sem kallast mælikvarði um gæði samfélagsinnviða. Um er að ræða svokallaðan Social Progress Index (SPI), vísitölu sem sett er saman af teymi hagfræðinga undir stjórn Michael E. Porter, prófessors í hagfræði við Harvard háskóla. Við uppröðun á lista SPI er horft framhjá hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar, mælikvörðum á borð við hagvöxt og þess í stað litið til lífsgæða og tækifæra til velgengni. Styðst listinn við opinber gögn frá alþjóðastofnunum og er meðal annars litið til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta. Í stuttu máli má segja að listinn horfi fremur til þess hvað kemur út úr kerfinu heldur en þess sem fer inn í það. Í stað þess að einblína á framlög til heilbrigðismála er reynt að horfa til þess heilbrigðis sem framlögin skila til samfélagsins. Í því ljósi blasir við að þessi aðferðarfræði getur hæglega nýst stjórnvöldum við forgangsröðun, stefnumótun og ákvarðanatöku.
Áhrifamikil dæmi
Segja má að ráðstefnan hafi snúist um tvennt. Annars vegar að ræða samsetningu og aðferðafræði þeirra mælitækja sem SPI vísitalan byggir á. Að því leyti var ráðstefnan talsvert fræðileg. Hins vegar voru rædd einstök dæmi, byggð á reynslu einstakra landa. Þar var sérlega áhrifamikið að heyra lýsingar frá löndum eins og Rúanda, Nepal og einnig frá borginni Medellin í Kólombíu. Þessi lönd og borgir hafa náð ótrúlegum árangri samkvæmt SPI vísitölunni og um leið sýnir mæling þeirra hvað vísitalan hefur fram að færa. Í stað þess að vera föst í einföldum þjóðarframleiðslu- eða hagvaxtarútreikningum, þá er hægt að mæla áhrifamiklar breytingar á samfélögum og bera þær saman við tiltekna samanburðarhópa. SPI vísitalan byggist á skorkorti sem getur orðið áhrifamikil leiðbeining fyrir stjórnvöld í framtíðinni. Þjóðir eða borgir sem forgangsraða með nýjum hætti geta þannig séð mælanlegan árangur sem skiptir vissulega máli við að útskýra fyrir öðrum hvað er verið að reyna að ná fram.
Maðurinn er mælikvarði allra hluta sögðu Forn-Grikkir og hittu naglann á höfuðið. Alltaf er það maðurinn og hvernig honum farnast í lífinu sem liggur hér til grundvallar. Það er því ekki skrítið að Michael E. Porter skyldi vera tíðrætt um hamingjuna, hve mikla hamingju væri hægt að mæla og hvernig hún birtist í einstökum þjóðfélögum samkvæmt mælingum eins og þeim sem SPI stendur fyrir. En um leið er hann að benda á að huglæg upplifun eins og hamingja er ákveðið vandamál þegar verið er að smíða mælitæki sem eiga að endurspegla velsæld mannsins í samfélaginu. Það var enda athyglisvert að fátækt ein og sér segir ekki alla söguna þó að peningar séu alstaðar afl þeirra hluta sem gera þarf. En með því að veita fólki tækifær má ná langt á hamingjumælikvörðum. Að því leyti má segja að krónur og aurar einir saman mæli sannarlega ekki hamingjuna.
Það eru ákveðin vonbrigði hve litla umfjöllun ráðstefnan hefur fengið hér á landi, með heiðarlegum undantekningum, en reynt verður að bæta úr því í pistlum hér á næstunni.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.