c

Pistlar:

7. ágúst 2016 kl. 23:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela: Frá biðröðum til hungurs

Fyrir ríflega áratug töldu íbúar Venesúela sig þokkalega hamingjusama þegar þeir voru spurðir um það í könnunum. Í dag hefur hungurvofan knúið dyra og nýjar rannsóknir benda til þess að um 20% barna í Venesúela búi við næringarskort. Ekki er langt síðan hér var skrifuð grein um biðraðir eftir mat í Venesúela. Í dag þýðir lítið að fara í biðröð, það er ekkert lengur til í verslunum. Þeir sem enn hafa orku og getu fara yfir til Kólumbíu til að kaupa mat. En neitar sósíalistastjórnin að bregðast við ástandinu og kalla til alþjóðlega hjálp og segja af sér. Þess í stað þrjóskast hún við og reynir að halda því fram að hún geti staðið við skuldbindingar sínar og hirðir þannig lítið um þær þjáningar sem yfir íbúa landsins ganga. Mótmæli eru daglegt brauð eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Oft breytast þau í blóðug átök. motmæli

Áhrifin á Kúbu

Ástandið í Venesúela hefur alvarleg áhrif á Kúbu en hin pólitíska vinátta sem ríkti á milli Hugo Rafael Chávez (1954-2013) og Fídel Castró óf saman efnahag landanna. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur tók Chávez að sér að sjá Kúbu fyrir olíu. Á móti sendi Castró lækna og hjúkrunarfólk til Venesúela í furðulegum nauðungarflutningum eins og áður hefur verið rakið hér en þeir virtust njóta velvildar forystu BSRB. Þessi samskipti skiptu miklu fyrir yfirvöld á Kúbu en á fyrsta áratugnum eftir fall Sovétríkjanna ríkti mikill skortur á Kúbu, svo mjög að þar jaðraði við hungursneið. Er átakanlegt að lesa lýsingar af þeim skorti sem ríkti á Kúbu á þeim tíma eins og kúbverski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Pedro Juan Gutiérrez lýsti ágætlega í bókum sínum, meðal annars í Dirty Havana Trilogy.

Hugmyndafræðilegt skipbrot

Ástandið núna er mikið áfall fyrir landsmenn og ekki síður sú staða sem nýja vinstrið í Suður-Ameríku er nú í. Chávez hugðist efla hugmyndafræðilega arfleifð Castró og vísaði í ýmsa byltingarmenn, sérstaklega þó Símon Bolivar. Og á tímabili töldu vinstri menn sig vera að ná árangri. Uppgangur í Brasilíu og Argentínu var kenndur við vinstri sinnaða stjórnmálamenn eins og Néstor Kirchner í Argentínu (sem reyndar túlkaði einhverskonar vinstri arm Perónista) og síðar konu hans Christina Fernándes de Kirchner og Luis Inácio Lula da Silva í Brasilíu en hann og eftirmaður hans, Dilma Rousseff, sæta nú bæði ákærum og rannsóknum vegna spillingar. Það er reyndar sérkennileg staðreynd að um 60% þingmanna á brasilíska þinginu eru nú til rannsóknar eða sæta ákærum vegna glæpa, allt frá því að þiggja mútur til þátttöku í morðum!

Chávez var herskár í orðum og beindi skeytum sínum gjarnan að Bandaríkjunum enda gekk hugmyndafræði Chávezismans út á að hafna forystuhlutverki þeirra sem Cháves taldi byggja á nýlendustefnu. Þessi óvild ríkti allt þar til Obama var kosinn forseti en Chávez skemmti heimspressunni með því að tilkynna að hann myndi kjósa Obama ef hann hefði kosningarétt í Bandaríkjunum! Og taldi að það væri gagnkvæmt, væri Obama kjósandi í Venesúela. Þetta var annar talsmáti en þegar hann sagði Georg W. Bush djöfullegan drykkjuhrút eða eitthvað í þá áttina. En þessi þýða stóð ekki lengi og síðar féll Obama í ónáð og í framhaldi vandaði Chávez honum heldur ekki kveðjurnar. Chávez herti tökin á efnahagslífi Venesúela og jók sósíaliseringu landsins upp úr 2007. Allt með hástemmdum yfirlýsingum um að nú væru hlutirnir að fara að breytast í Venesúela og öðrum löndum Suður-Ameríku sem tækju upp sama skipulag.

Staðreyndin er hins vegar sú að uppgangur Suður-Ameríku landanna byggði að stórum hluta á auðlindanýtingu og gríðarlegum viðskiptum við Kína sem sogaði til sín hráefni þessara landa. Í raun voru þessar stjórnir popúlískar og lifðu fyrir líðandi stundu. Þannig treysti Chávez og reyndar einnig Maduro eftirmaður hans alfarið á tekjur af olíu. Ekkert var gert til að styðja við efnahag landsins eða skapa tækifæri fyrir framtakssamt fólk. Allt varð að vinna undir formerkjum sósíalískrar forræðishyggju þar sem stórar lausnir fæddust hjá leiðtogunum og ríkisvaldinu síðan falið að hrinda þeim í framkvæmd. Skipbrotið í Venesúela er ekki vegna þess að olíumarkaðir hafa hrunið heldur vegna þess að efnahagslífið var einhæft og ekkert var gert til að ýta undir framtakssemi fólks.  

Landsframleiðslan dróst saman um ríflega 7% í Venesúela fyrra og var sú frammistaða sú langversta í Suður-Ameríku. Spáð er að verðbólgan verði því sem næst stjórnlaus þegar líður á árið en svartamarkaðsbrask hefur í raun gert gjaldmiðilinn verðlítinn. Fá teikn eru á lofti um að nokkuð geti lagast undir núverandi stjórn.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.