c

Pistlar:

27. október 2016 kl. 10:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

28 stjórnarskrár Venesúela

Líkindi eru til þess að verðbólga í Venesúela verði á milli 700 og 800% á þessu ári og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur látið frá sér að spá um að hugsanlega fari verðbólgan upp í 2200% á næsta ári í Venesúela. Hagfræðileg viðmið duga varla lengur til þess að fanga ástandið í landinu. Hagkerfi landsins er hrunið og heilbrigðis- og velferðakerfið hefur farið eina öld aftur í tímann. Ljóst er að íbúar Venesúela eru að upplifa einhverja verstu krísu sem dunið hefur á landi í Suður-Ameríku og hafa íbúar álfunnar þó átt ýmsu að venjast. Við blasir að ráðast verður í sársaukafullar aðgerðir til að reisa við efnahag landsins, takist það á annað borð. En þeir sem fylgjast með í Venesúela vita að ný stjórnarskrá er ekki lausnin, ekki frekar en þær 28 sem landinu hafa verið settar í gegnum tíðina. Aðeins Dóminíkanska lýðveldið hefur haft fleiri stjórnarskrár. Haítí og Ekvador eru í þriðja og fjórða sæti, með sínar 24 og 20 stjórnarskrár.

Oft horfa menn til Bandaríkjanna þegar stjórnarskrá er til umræðu. Sagnfræðingurinn Niall Ferguson bendir á í bók sinni Siðmenning (Civilization: The West and the Rest (2011)) að í Bandaríkjunum hafi stjórnarskráin verið sett til að renna stoðum undir „ríkisstjórn laga en ekki manna”. Í Rómönsku-Ameríku hafi stjórnarskrár í reynd verið notaðar sem tól til að grafa undan lögunum. Þetta sést vel í nýjustu stjórnarskrá Venesúela sem sett var af Hugo Chávez (1954-2013). Eins og svo margir aðrir popúlískir stjórnmálamenn þá dró hann dár að lögum og reglu með því að breyta stjórnarskránni eftir hentugleika. Þetta gerði hann fyrst árið 1999, skömmu eftir að hann komst fyrst til valda og síðast árið 2009 þegar hann nam úr gildi tímamörk til að tryggja völd sín um ókomna tíð. Tveimur árum áður hafði þjóðin reyndar hafnað slíkum ákvæðum en þegar niðurstaðan er ekki „rétt”, er bara að kjósa aftur. Rétt eins og skoðanabróðir hans á Kúbu, Fídel Castró, gat Chávez ekki hugsað sér land sitt án þess að hann stýrði því. Það þarf ekki að taka fram að í stjórnarskrárbreytingum beggja átti eignarétturinn undir högg að sækja. En það er í skjóli þessarar byltingastjórnarskrá sem Nicolás Maduro, eftirmaður Chávez, rembist við að halda völdum og skirrist þá ekki við að beita þing landsins valdi.chaves

Frá Chávez til Rauðu herdeildarinnar

Chávez var sérstaklega stoltur af breytingunum sem gerðar voru árið 1999 og bar iðulega á sér litla vasabók með stjórnarskránni og vitnaði til hennar öllum stundum eins og sést á meðfylgjandi mynd. Við gerð stjórnarskrárinnar naut Chávez aðstoðar klassískra marxista eins og ítalska kommúnistans Antonio Negri (f. 1933) sem boðar að kenningar um byltingu og mannlegar framfarir þurfa ekki að vera draumórar einir. Þess má geta að Antonio Negri kom til Íslands sumarið 2009 og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands. Þar kenndi hann meðal annars að séreignarfyrirkomulag kapítalismans fellur mun verr að hugverkum nútímans en efnisverkum og það ættu kommúnistar að geta nýtt sér til að fella auðvaldið.

Negri var prófessor í heimspeki við háskólann í Padua á Ítalíu þegar hann var handtekinn árið 1979 ásakaður um að vera „heilinn“ á bakvið hryðjuverkasamtökin Rauðu herdeildirnar eins og rakið er á Heimspekivefnum sem gerir nokkuð úr kenningum hans. Negri öðlaðist friðhelgi þegar hann var kjörinn á þing árið 1983 en flúði til Parísar tveimur mánuðum síðar er þingið ákvað að rjúfa helgi hans. Hann var fjórtán ár í útlegð í nágranaríkinu Frakklandi og kenndi heimspeki við Université Paris VIII. Árið 1997 snéri hann sjálfviljugur til Rómar þar sem hann afplánaði það sem eftir stóð af dómnum fram til vorsins 2003. Negri kom hingað í fylgd með bandaríska bókmenntafræðingnum Michael Hardt en þeir hafa unnið saman að bókunum Labor of Dionysus, sem kom út árið 1994, og síðar Empire (2000) og Multitude (2004).

Marxistar um allan heim hafa sótt visku til þeirra og hafa reynt að þróa einhverskonar vísi að því sem mætti hugsanlega kalla póstmódernískur marxismi. Ekki skiptir síður máli tilraun Negri til að þróa stjórnarskrárvald (e.constituent power) sem meðal annars fól í sér að stjórnlagaþing (constituent (eða constitutional) assembly) setti slíka skrá. Þegar Chávez setti upp slíkt stjórnlagaþing til að setja nýja stjórnarskrá þá voru 125 fulltrúar af 131 úr hans eigin flokki. Stjórnarandstaðan átti aðeins 6 fulltrúa. Óþolinmæði Chávez gerði það að verkum að stjórnlagaþingið fékk aðeins um 6 mánuði til að vinna verkið og í desember 1999 voru íbúar Venesúela látnir kjósa um stjórnarskránna. 71,8% sögðu já en 55,6% kjósenda mættu ekki og drógu þar af leiðandi úr áhrifamætti samþykkisins þó Chávez léti það ekki á sig fá. Margt sérkennilegt kom úr þessari stjórnarskrárvinnu, svo sem það að nafni landsins var meðal annars breytt, flestum á óvörum!  Í stað þess að vera Lýðveldið Venesúela (Republic of Venezuela) varð það að Lýðveldi Bólivars í Venesúela (Bolivarian Republic of Venezuela). Aðdáun Chávez (sem kallaði sig gjarnan El Commandante) á Simón Bólivar (1783-1830), byltingahetju Suður-Ameríku var öllum kunn en Chávez lét árið 2010 opna grafhýsi Bólivars til að komast í tengsl við anda hans. Það gerði hann reyndar undir sterkum sjónvarpsljósum enda athöfnin auglýst rækilega.

Áhrif til Íslands

Ekki er vafi á því að hugmyndir þeirra Negri og Hardt höfðu áhrif á þá stemmningu sem ýtti stjórnarskrárbreytingum úr vör hér á landi árið eftir að þeir komu hingað. Ekki liggur fyrir hvort hugmyndir Negri og Hardt höfðu bein áhrif en þess má geta að heimspekingurinn Viðar Þorsteinsson, sem var einn þeirra sem stóð fyrir komu Negri hingað í nafni félagsskaparins Nýhils, er bróðir Vilhjálms Þorsteinssonar sem sat sem fulltrúi í stjórnlagaráð sem síðar samþykkti frumvarp til stjórnarskipunarlaga eða þá stjórnarskrá sem ætlunin er að þrýsta í gegn á næsta þingi að sögn talsmanna Pírata.bús  

Viðar hélt ræðu á Austurvelli 15. nóvember 2008. Þar talaði sannur byltingarleiðtogi: „Það er af þessum ástæðum sem við, óformlegur hópur ungs fólks, leggjum til að hið íslenska lýðveldi verði stofnað upp á nýtt! Þannig myndi skapast tækifæri til hreingerningar á meðal íslenskrar valda­ og auðmannastéttar, hreingerningar sem er lífsnauðsyn til að eðlilegt samfélag geti þrifist hér, hvort sem er innan eða utan Evrópusambandsins, með eða án evru, undir vinstri­ eða hægristjórn.”

Þetta kanna að hljóma undarlega þegar hugsað er til þess að Vilhjálmur, bróðir Viðars, telst óneitanlega til auðmanna hér á Íslandi, fyrirtæki í hans eigu reyndust vera í skattaskjólum og hann er næst stærsti hluthafi vefmiðilsins Kjarnans sem nýtur velþóknunar meðal vinstri sinnaðra menntamanna.

Augljóslega reyndi hópur íslenskra menntamanna að nýta meðbyr búsáhaldabyltingarinnar til þess að skrifa þjóðinni nýja stjórnarskrá, sannkallaða byltingarstjórnarskrá. Egill Arnarson heimspekingur er þar á meðal en hann skrifar á Heimspekivefinn og lýsir þar ágætlega nálgun þeirra á málið: „Ýmsir þátttakendur búsáhaldabyltingarinnar 2009 eru heldur ekki tilbúnir til þess að lýsa því yfir að henni hafi nokkurn tímann lokið, heldur sé hún verkefni sem enn liggi óklárað: enn eigi t.d. eftir að leiða stjórnarskrárbreytingar gæfusamlega til lykta eða að „taka til“ í stjórnar­stofnunum, embættismannakerfinu eða fjármálakerfinu.”

Það er auðvitað erfitt að meta nákvæmlega hvað af þessari marxísku byltingarhugsun rataði inn í tillögu stjórnlagaráðs. Ólíklegt er að neinn sem þar starfaði hafi með beinum hætti ætlað sér vinna í þeim anda. Það er heldur ekki sanngjarnt að segja að stjórnarskrá sú sem sett var saman í Venesúela 1999 hafi verið alslæm. Í henni var þó orðalag og áherslur sem spilltu ágæti hennar. Viðbæturnar sem gerðar voru síðar af Chávez sýndu að þá var hann farin að hugsa um það helst að halda völdum.

Tímabær varnaðarorð

Þegar allt þetta er skoðað er ekki nema von að leiðarahöfundur Fréttablaðsins, Þorbjörn Þórðarson, slái fram tímabærum varnaðarorðum um þá stefnu Pírata og vinstriflokkanna sem gengur út á að kollvarpa stjórnarskránni. Þorbjörn telur að ef gildandi stjórnarskrá verði eyðilögð sé hætt við því að margra ára flækjustig fyrir íslenskum dómstólum taki við. „Í þessum dómsmálum verða átök um túlkun og fara þarf í flóknar samanburðar- og samræmisskýringar á textum gildandi stjórnarskrár og þeirrar nýju. Mikilvæg dómafordæmi Hæstaréttar Íslands munu útvatnast og við þurfum að byrja á hálfgerðum núllpunkti.”

Það eru flestir sammála um að breytingar megi gera á gildandi stjórnarskrá. Allt það kjörtímabil, sem nú er að líða, hefur verið í gangi vinna við það. Það má taka undir með Þorbirni, um að það þurfi að endurskoða kaflann um forsetann og setja ákvæði um auðlindir, framsal valds til alþjóðlegra stofnana og þröskuld atkvæðisbærra manna til að krefjast þjóðar­atkvæðagreiðslu um tiltekin lög samþykkt á Alþingi. Því miður tókst ekki að ná sátt um þá vinnu sem unnin var þetta kjörtímabil, að mestu vegna andstöðu þingmanna með tengsl við stjórnlagaráð. Það er hins vegar afar mikilvægt að nýtt þing ljúki þeirri vinnu á sömu forsendum og lagt var upp með eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins bendir á.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.