Þau tíu svæði innan Evrópusambandsins (ESB) sem skapað hafa íbúum sínum bestu samfélagslegu innviði eru í Finnlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Sístu tíu svæðin eru í Rúmeníu og Búlgaríu. Þetta má sjá á nýjum lista Social Progress Imperative (SPI) stofnunarinnar yfir gæði félagslegra framþróunar innan ESB. Þessi listi var kynntur í Brussel í október síðastliðnum en eins og lesendur þessara pistla hafa kannski tekið eftir þá hefur talsvert verið fjallað um mælingar og rannsóknir SPI hér á þessum vettvangi.
Listi SPI nær yfir 272 svæði innan 28 aðildarlanda ESB og sýnir að efnahagslegur auður tryggir ekki endilega félagslegar framfarir. Höfuðborgir skapa íbúum þannig ekki alltaf betri félagslegar aðstæður en dreifbýli, og í nýjum aðildarríkjum í ESB eru félagslegar framfarir í sumum tilfellum hraðari en þeim eldri.
SPI-stofnunin bar saman sambærilega reynslu fólks byggt á mati þess á lífstækifærum, grunnþörfum, heilsu og aðgengi að menntun og upplýsingum. Niðurstöðurnar eru bæði „uppörvandi og aðrar en við var að búast,“ að sögn Michael Green, stjórnanda Social Progress Imperative.
Eykur skilning á Brexit
„Brexit hefur aukið tilvistarkreppu leiðtoga í Evrópu. Með því að leggja fram nákvæma greiningu á áskorunum sem blasa við á svæðum innan ESB, er vísitalan hönnuð sem verkfæri fyrir stefnumótendur til að bæta lífsmöguleika íbúa og þannig skapa sterkara og samhæfðara Evrópusamband,“ segir Green og bætir við. „Vonin er að þeir sem móta stefnu á öllum stjórnsýslustigum — frá framkvæmdastjórn ESB til staðbundinna sveitarfélaga — geti notað niðurstöðurnar sem verkfæri við frammistöðumat á framkvæmdum, og þannig hjálpað til við stýringu og bætingu á skilvirkni og árangri opinberra fjárfestinga.“
Social Progress Imperative stofnuninni hefur aðsetur í Washington og London og er hugmyndafræðin að baki mælikvarðanum sem listinn byggir á er að setja á oddinn það sem skiptir tilveru fólk mestu máli, þar á meðal eru lífslíkur, aðgangur að heilsugæslu, hagkvæmu húsnæði og menntun, og staða jafnréttismála og trúfrelsi.
Úttekt á höfuðborgum
Úttekt SPI á einstökum svæðum innan ESB leiðir margt athyglisvert í ljós. Þannig standa fjórtán höfuðborgir sig betur að meðaltali en önnur svæði viðkomandi lands en átta standa sig verr.
Á ríkasta svæði álfunnar, miðborg Lundúna, er „meðalmennskan algjör“ þegar kemur að samfélagslegum framförum að sögn Michael Green. Þetta aðsetur fjármálamiðstöðvar Evrópu og sumra af verðmætustu fasteignum heims, er aðeins í 81. sæti af þeim 272 sem voru mæld, aftar á listanum en norðaustur Skotland og Norður Írland. Alls eru 21 svæði á Bretlandi með sterkari samfélagslega innviði en miðborg Lundúna. Nokkur önnur höfuðborgarsvæði eru langt undir pari. Þar á meðal eru Brussel, svæði innan Parísar, Róm, Varsjá, Prag og Aþenu.
Ójöfnuður meiri í borgarsamfélögum
Undanfarin misseri hefur kastljósið beinst að borgarsamfélögum en í kjölfar stöðugt aukinnar þéttibýlismyndunar hafa áhrif þess verið til stöðugrar skoðunar. Meðal annars sú staðreynd að borgarsamfélög virðast frekar auka á ójöfnuð en hitt. Í upphafi vikunnar hittust í París borgarstjórar hvaðan æva að til að ræða þessi mál en þessi félagsskapur hefur fengið formlegt hlutverk hjá OECD (OECD Champion Mayors for Inclusive Growth Initiative). Þar var meðal annars til umræðu nýjar upplýsingar, byggðar á rannsókn OECD og Ford stofnunarinnar, en hún sýnir að í 9 af hverjum 10 borgum er ójöfnuður meiri í borgunum en landsmeðaltalið segir til um.
Social Progress Imperative birti úttekt sína á löndum heimsins í júní og var Ísland í 10. sæti af 133 þjóðum. Norðurlöndin voru öll í hópi tólf efstu þjóða á 2016 listanum. Finnland í efsta sæti listans, Danmörk í því þriðja, Svíþjóð í sjötta og Noregur í sjöunda. SPI vísitalan nýtur vaxandi áhuga um heim allan og æ fleiri eru að taka hana upp við mat á félagslegri framþróun innan sinna svæða. Tímamót eru í því að Indland hefur ákveðið að taka upp þennan mælikvarða og er stefnt að því að tilkynna það 19.nóvember.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.