Sólkonungurinn Loðvík 14 (1638 –1715) ríkti lengur en dæmi eru um, eða frá fjögurra ára aldri þar til hann var nærri 77 ára gamall. Faðir hans dó árið 1642 þegar Loðvík var 4 ára. Hann ríkti því í 72 ár og 110 daga yfir fjölmennasta ríki Evrópu á þeim tíma, lengur en nokkur annar franskur konungur eða nokkur annar af helstu einvöldum Evrópu. Til samanburðar má nefna að Elísabet II Bretadrottning er núna búin að sitja í 65 ár en hún fór framúr Víktoríu langalangömmu sinni fyrir tveimur árum.
Óhætt er að segja að Loðvík 14 hafi hafið einveldið upp annað stig enda er honum eignuð setningin: „Ríkið, það er ég“ („L'État, c'est moi“) og síðar var hann kenndur við sjálfa sólina, Le Roi Soleil, sólkonungurinn. Í stíl og lífsháttum hafði hann ómæld áhrif og frönsk tunga og franska hirðin urðu að viðmiði annarra. Barokkstílinn hefur stundum verið kenndur við Loðvík 14 en hann ber með sér heldur uppskrúfað óhóf og sjálfur Kjarval taldi hann ljótastan allra stíla. Þegar Kjarval dvaldist á Ítalíu 1920 skrifaði hann: „Barokk er ljótur stíll og líkist mest illu íslensku hrauni eða eins og einhver listdómari franskur hefur sagt „deigi hálfhnoðuðu.”” Kjarval var að sönnu meira fyrir endurreisnarstílinn.
Ríkissjónvarpið sýnir um þessar mundir framhaldsþætti, unna í samstarfi BBC og Canal Plus, þar sem Loðvík 14 og þó einkum uppbygging hans í Versölum er í forgrunni. Þættirnir eru um margt forvitnilegir þó sumum kunni að þykja heldur nærgöngular lýsingar á hirðlífi sólkonungsins sem einkenndist af því að hver var að ota sínum tota og sáust hirðmenn ekki fyrir í þeim efnum. Þar var sannarlega engin annars bróðir í leik. Þættirnir eru líklega ágætlega nákvæmir þó varla jafnist þeir á við hina bresku Downton Abbey þætti sem hér var fjallað um fyrir ári síðan.
Erfiður fjárhagur
En Loðvík 14 var sannarlega áhugaverður stjórnandi og þá ekki síður fjáröflunaraðferðir hans. Rétt eins og átti við um flesta konunga í Evrópu þá var tómur ríkissjóður viðvarandi ástand. Meira að segja á Spáni, þar sem nýjaheimsgullið sigldi inn, þar var ríkissjóður einnig tómur. Eilífar styrjaldir og óhóf hirðarinnar var ekki til að bæta úr. Loðvík 14 var hins vegar líkt farið og mörgum vinstri mönnum í dag. Hann leit svo á að erfið fjárhagsstaða ríkissjóðs byggði á tekjuvanda, miklu meira en útgjaldavanda. Því var hann duglegur að finna nýja skatta og dreifa skattbyrðinni á fleiri. Það var reyndar ekki með öllu ósanngjarnt því framan af voru það einkum smælingjarnir sem báru skattbyrðarnar. Aðalinn og kirkjan var lengst af undanskilin skatti enda var talið að þessar stéttir ættu líka við tekjuvanda að stríða og væru því varla aflögufærar.
Þegar Loðvík 14 kom til valda þyrsti almenning eftir frið og lögum og reglu en ekki löngu áður hafði Þrjátíu ára stríðinu (1618-1648) lokið með Vestfalíu samkomulaginu. Frakkar fengu lög og reglu en Loðvík 14 hélt þann sið konunga að reka útþenslu og varnarstríð með reglulegu millibili, þá helst við Spánverja og Niðurlendinga. Heima fyrir vann hann að því að tryggja völd sín gagnvart aðlinum um leið og hann efldi miðstjórnarvaldið. Lénskerfi miðaldanna var að gefa eftir og aðalinn var minntur á að hann fékk forréttindi sín frá konunginum. Franski sagnfræðingurinn Chateaubriand hrósaði Loðvík 14 fyrir að velja sér hæfileikafólk til aðstoðar og efla það til aðgerða („...it is the voice of genius of all kinds which sounds from the tomb of Louis"). En hér fylgir með hefðbundnari mynd af sólkonunginum.
Skipt um fjármálaráðherra
Árið 1661 var ríkissjóðurinn franski við það að verða gjaldþrota og Loðvík 14 hófst þegar handa við að reyna að koma stjórn á fjármál ríkisins. Loðvík tilnefndi Jean Baptiste Colbert sem ríkisféhirði (Controller-General of Finances) árið 1665 og fékk þar öflugan fjárhaldsmann. Mikilvægara var þó að eyða áhrifum Nicolas Fouquet svo að Colbert fengi frjálsar hendur. Fouquet hafði stýrt fjármálum í anda forvera sinna en metnaður hans olli hinum nýja kóngi áhyggjum. Hann hafði til dæmis byggt glæsilega höll (château) við Vaux-le-Vicomte. Lauk smíðinni 1661 og blés Fouquet til veislu og bauð vitanlega konungi sínum. Það hefði hann betur látið ógert. Loðvík hafði verið tjáð að fjármál ríkisins væru í rúst en skyndilega blasti við honum að fjármálarðaherra hans hans ætti prívat og persónulega mun glæsilegri kastala og veiðilendur en konungurinn sjálfur! Þetta var heldur óvarlegt hjá Fouquet og Loðvík lét varpa fjármálaráðherranum umsvifalaust í fangelsi. Í kjölfarið fyrirskipaði hann arkitektum sínum að gera Versali glæsilegri en nokkuð sem finndist í Vaux-le-Vicomte eða annars staðar í Frakklandi. Fouquet varð að dúsa í prísund í næstum 20 ár vegna þessa og bar að sögn ekki sitt bar eftir það.
En þegar Fouquet var á braut hóf Colbert að draga úr skuldum ríkisins. Meiri og öflugri skattheimta var helsta ráðið og nýir skattar kynntir til sögunnar. Helstu skattar fólust í tvennskonar tollum (aides and douanes), skatti á salt (gabelle), og skatti á land (taille). Sá síðastnefndi var lækkaður í fyrstu en miklu skipti að efla skattheimtu og koma í veg fyrir að skattheimtumennirnir annað hvort stælu skattinum eða mismunuðu fólki. Sem dæmi um hve ótraust skattheimtan gat verið þá var talið að aðeins um 10% innheimtra skatta bærist alla leið til konungsins árið 1661. Erfitt var að koma við umbótum, meðal annars vegna þess að skattur á land (taille) átti að greiðast af mörgum þeim sem gegndu háum embættum og höfðu á stundum keypt þau með von um skjótfengin skattheimtugróða. En eigi að síður náðist umtalsverður árangur undir stjórn Colbert og árið 1666 var jafnvægi komið á ríkissjóð og kostnaður konungs af allskonar lántökum hafði lækkað umtalsvert.
Versalir - fangelsi hirðarinnar
En bygging Versala hafði líka annan tilgang eins ágætlega kemur fram í áðurnefndum sjónvarpsþáttum. Með því að draga hirðina frá París greip konungurinn tækifærið til að draga úr völdum aðalsins sem eins og áður sagði var undanskilin skattheimtu og barðist gegn styrkingu konungsvaldsins. Einnig gróf hann undan völdum aðalsins með því að skipa þeim að sýna fram á ættgöfgi sitt og framvísa nokkurskonar upprunavottorðum. Sem vel að merkja gat vafist fyrir sumum. Einnig var ljóst að með því að fara með hirðina til Versala var hún nær konungi sem gat óhikað njósnað um allar athafnir hirðarinnar. Ágæt lýsing er á þessu í þáttunum. Eftir lát Loðvíks 14 bjuggu Loðvík 15 og Loðvík 16 í Versölum en eftir lát þess síðasttalda fóru Versalir í eyði og grotnuðu niður. Það var síðan síðasti konungur Frakka, Loðvík Filippus, sem gerði höllina að safni árið 1837, að sögn til að forða henni frá niðurníðslu.
Almenningi er í dag boðið að skoða afmarkað svæði Versala og þangað má meira að segja finna íslenska leiðsögn. Farið er í stóru konungsíbúðina og síðan í speglasalinn sem tengir konungsíbúðina við drottningaríbúðina. Speglasalurinn var teiknaður af arkitektinum J.H. Mansart og var aðal hátíðarsalurinn í Versölum og það má segja að hann sé toppurinn á ferðinni um höllina. Salurinn lítur út í dag eins og þegar Loðvík 16 giftist Mariu Antoinette en brúðkaupsveislan þeirra var haldin í speglasalnum en allt endaði það nú heldur dapurlega en það er önnur saga.
Til gamans má rifja upp að fyrr á árinu var sett upp sýning með verkum Ólafs Elíassonar í Versölum. Verkin voru á víð og dreif um garða og hallir, en stærsta verkið var einkar tilkomumikill foss sem féll í stóru tjörnina, Grand Canal.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.