Árið 1942 kom út bók Joseph Alois Schumpeter (1883 – 1950), Kapítalismi, jafnaðarstefna og lýðræði (Capitalism, Socialism and Democracy). Hún átti eftir að verða metsölubók og enn þann dag í dag er vitnað til hennar eins og lesa mátti í áramótaleiðara breska efnahagsritsins The Economist. Schumpeter hefur alltaf verið hafður í hávegum hjá blaðinu sem nefnir einn af dálkum sínum eftir honum. En í leiðara blaðsins er réttilega bent á að bókin sé áhrifarík af mörgum ástæðum. Hún hafi haft mikilvæg áhrif á efnahagsmál, sagnfræði og félagsfræði en ekki síður var hún minnistæð fyrir margar skilgreiningar sínar eins og þá er fjallar um skapandi eyðileggingu „creative destruction”, sem er ákveðin útlegging á því hvernig hið óhagkvæmara víkur fyrir hinu hagkvæmara. Schumpeter taldi að skapandi tortíming væri sú þróun sem helst einkenndi fjármagnskerfið.
En um sumt var Schumpeter óheppinn með tímasetningu, skilaboð bókarinnar voru á köflum myrk og ekki var til að bæta úr að hún kom út í miðri styrjöld. Á sama tíma og fólk var að leita að von í hildarleik heimsstyrjaldarinnar og baráttunni við nasismann gat Schumpeter aðeins boðið upp á spurningar eins þá hvort kapítalisminn myndi geta lifað af? Og svar hans var: Nei, ég held ekki! En ólíkt Karl Marx, sem taldi kapítalismanum verða bylt af óvinum sínum, taldi Schumpeter að kapítalisminn myndi líða undir lok vegna eigin árangurs. Það myndi meðal annars birtast í því að menntamenn myndu hafa starfa af því að ráðast á undirstöður kapítalismans, kerfi einkaeignar og frelsis, með reglugerðir og lög að vopni. Kapítalismanum yrði með öðrum orðum drekkt í skrifræði. Það er hugmynd sem kemur heim og saman við margt af því sem er að gerast í dag.
Í kjölfar tæknibyltinga siglir oft pólitísk eyðilegging
Líkar hugmyndir má finna í áramótaviðtali Frjálsrar verslunar við Þráinn Eggertsson hagfræðing. Þráinn er fremsti hagfræðingur okkar Íslendinga þegar kemur að stofnanakerfum en hann er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og Hertie School of Governance í Berlín. Þá er hann heiðursprófessor við New York University. Þráinn vitnar til Schumpeter í viðtalinu og bendir á að í kjölfar tæknibyltinga siglir oft pólitísk eyðilegging. Fyrsta iðnbyltingin hafi ýtt undir öngþveiti, kreppur, styrjaldir, kommúnisma og fasisma. Nýja tölvu- og samskiptabyltingin sé einnig að búa til pólitískar breytingar af stærri gerðinni. Á það ekki ágætlega við um tilurð og hugmyndafræði Pírata? Þrátt fyrir að ekki sé ástæða til að efast um lýðræðisvilja margra í þeirra hópi þá virðist nálgun þeirra og vinnubrögð benda til þess að þeim sé fremur áskapað að gagnrýna en byggja upp. Í eðli sínu virðast Píratar vera stjórnarandstöðuafl.
Þráinn hefur í skrifum sínum bent á að hagkerfi séu samsett á ýmsan hátt og því sé mikilvægt að líta til menningar ólíkra landa og þjóðfélagsgerðar þegar verið er að velta fyrir sér ýmsum hagfræðilegum álitamálum svo sem hvers vegna sumum ríkjum vegnar vel en öðrum ekki, eða hvaða skref skuli stigin í hagstjórn en um slíka þætti hefur margoft verið fjallað á þessum vettvangi. Að mati Þráins er það oft á tíðum þjóðskipulagið sjálft sem stendur í vegi fyrir framförum og velsæld, fremur en tæknistig eða menntun. Tækni sé auðvelt að flytja milli landa en menningu, siði og ýmsar óskráðar reglur er erfiðara að færa úr einum stað í annan. Undir það skal tekið hér en skýrasta dæmið um þetta er múslimaheimurinn sem státar af sama mannfjölda og Bandaríkin en þjóðartekjum á við Frakkland. Þar er þjóðskipulagið sjálft reyrt á klafa trúarvaldsins sem virðist standa efnahagslegum framförum fyrir þrifum.
Forsendur nýsköpunar og framfara
En víkjum aftur að hugmyndum Schumpeter. Margir höfðu heillast af hugmyndum hins unga Schumpeter um athafnamanninn sem nokkurskonar ofurmenni (Übermensch), mann sem myndi breyta heiminum með skapstyrk, gáfum sínum og vilja. Schumpeter er þó þekktastur fyrir skrif sín um hagsveiflur, þróun hagkerfa og ekki síst hina skapandi eyðileggingu athafnaskálda kapítalismans sem áður var vikið að. Allt þetta taldi hann forsendu nýsköpunar og framfara. Schumpeter horfði mikið á leiðtoga og áhrifamátt þeirra, jafnvel umfram afstæða hluti eins og félagslegt afl og aðra slíka þætti (e. than abstract forces and factors.) Hugsanlega reynir á útskýringar í anda Schumpeter til að skilja mann eins Donald Trump, 45. forseta Bandaríkjanna. Líklega er engin forseti líklegri til að skora stjórnmálakerfið og stofnanauppbyggingu þess á hólm. Meðal annars vegna þess kaus smábæjarmaðurinn Trump.
Bókin Kapítalismi, jafnaðarstefna og lýðræði dró fram að sýn Schumpeter varð dekkri eftir því sem hann varð eldri og hann varð um leið svartsýni á þróun mála, meðal annars þróun stofnanauppbyggingarinnar. Schumpeter hafði sömuleiðis miklar efasemdir um aukið skrifræði sem hann taldi sig sjá allsstaðar samfara aukningu opinberra afskipta, meðal annars eins og þau birtust í New Deal Roosevelts Bandaríkjaforseta. Og hugsanlega hefur hann rétt fyrir sér, kannski var þetta bara byrjunin og sér ekki fyrir endann á því. Skoðum nokkra þætti sem styðja þetta.
Meira og meira í samneysluna
Árið 1938 tók bandaríska ríkisstjórnin til sín um fimmtung vergrar landsframleiðslu (GDP). Í dag tekur hún um 38% landsframleiðslunnar til sín. - Og þykir bara nokkuð lágt miðað við þá sem ganga lengst. Á Ítalíu taka stjórnvöld til sín 51% af landsframleiðslu og í Frakklandi er þetta hlutfall 57%. Það þarf ekki að taka fram að þetta hlutfalla er að hækka og því ekki nema vona að menn velti fyrir sér hvar endimörkin eru. Einnig skiptir miklu að reglugerðarstýring stjórnvalda vex jafnvel enn hraðar en vöxtur stjórnkerfisins sjálfs, (Big regulation has advanced more rapidly than big government). Í leiðara Economist er fullyrt að hagkerfið verði slappara og ósamkeppnishæfara fyrir vikið. Það sjáist glöggt á evrópskum iðnaði sem verði stöðugt eldri og hafi minni getu til að standast samkeppni. Nú hafði þessi vaxandi slappleiki borist til Ameríku. Það birtist meðal annars í því að stórfyrirtækin stækki en þau smærri berjast í bökkum. Hlutfall fyrirtækja sem voru eldri en 11 ára óx úr því að vera þriðjungur árið 1987 í að vera nálægt helmingi 2012.
Leiðarahöfundur Economist bendir á að það er ekki einfalt að rýna í stöðuna. Schumpeter sjálfur hafi séð það fyrir af glöggskyggni sinni að stór fyrirtæki geta borið með sér meiri frumkvöðlastarfsemi en sprotafyrirtæki. (Hafa verður í huga að gerður er greinarmunur á frumkvöðlastarfsemi og frumkvöðlaanda.) Allt snúist það um hvata. En þar er þróunin neikvæð, hvataumhverfi nútímans snýst um skrifræði, skýrslugerð og þjónkun við núverandi stofnanauppbyggingu. Nokkurnveginn svona myndu sjálfsagt margir lýsa stofnana- og styrkjaumhverfi Evrópusambandsins. Og það er kannski tímanna tákn að þegar nýr framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, kom til starfa nú um áramót sagði hann það helsta verkefni sitt að skera upp herör gegn skrifræði innan þessara helstu samtaka mannkynsins.
Kostnaður eykst
Því er það svo að stór og gömul fyrirtæki eiga auðveldara með að nýta sér þetta, stofnanaminnið er meira og auðveldara að kaupa sér lögfræðiþekkingu og alla aðra þá sérfræðiþekkingu sem þarf til að eiga samskipti við kerfi nútímans. Kostnaður fyrirtækja á hvern starfsmann eykst stöðugt, eftirlits- og starfskostnaður vex víðar en á Íslandi. Að lokum kemur þetta niður á arðsemi fyrirtækja og getu þeirra til að fjárfesta og greiða laun. Hlutfallskostnaður er meiri hjá fyrirtækjum með fáa starfsmenn en marga. Schumpeter kallaði eftir frumkvöðlaanda eigendanna (owner-entrepreneurs), slíkt væri nauðsynlegt til að varðveita samkeppnishæfni og dýnamík samfélagsins. Economist segir að í dag þrífist kapítalisminn án kapítalista, hlutafélög séu í eigu milljóna hluthafa og í sumum tilvikum er eignarhaldið í gegnum nafnlausar stofnanir (lífeyrissjóði) sem láti atvinnustjórnendur um eignastýringu og ákvarðanir þeim tengdar. Það leiði um síðir til þess að engin vilji taka áhættu og allir leiti að traustri ávöxtun.
Tæknifyrirtækin í stöðugri endurnýjun
Og vissulega má sjá flöktandi ljós við sjóndeildarhringinn, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar eru tæknifyrirtækin í stöðugri endurnýjun og taka til sín sífellt stærri sneið af kökunni. Þaðan virðast lausnirnar koma. Í það minnsta hefur bílaheimurinn áhyggjur af þessu og óttast að bílar framtíðarinnar verði framleiddir af Tesla, Google og Apple eins og bent var á hér í öðrum pistli. En stærstu tæknifyrirtækin taka sífellt meira til sín og nú eru þau meira að segja að ná verslunar- og samgöngurekstri undir sinn hatt. Það er gott fyrir vöxt hagkerfisins en getur um leið haft meiri samþjöppun í för með sér. Einnig er ljóst að átta auðugustu menn heims munu halda áfram að efnast, sem virðist vera þyrnir í augum margra.
En þessi atriði skipta ekki höfuðmáli. Mestu skiptir að framleiðni í ríkari hluta heimsins (Vesturlöndum) hefur ekki verið að aukast að ráði síðan snemma á áttunda áratugnum. Eina frávikið frá þeirri þróun, í tilfelli Bandaríkjanna, var á árunum 1996 til 2004. Þar virðist hafa verið um frávik að ræða fremur en stefnubreytingu. Á sama tíma er ljóst að breytt aldurssamsetning og „öldrun” er að leggjast þungt á Vesturlönd. Um leið eru vísbendingar um að færri njóti ávaxtanna. Og við sjáum vísi að nýrri stéttaskiptingu í því formi að þeir sem njóta velgengni og frama, ýmist vegna ætternis eða hæfileika, halda meira hópinn en áður að mati leiðarahöfundar Economist. Ekki skal lagt mat á það hér hvort það er raunsönn lýsing almennt eða hvort hún á hugsanlega fyrst og fremst við Bretland nútímans.
Hökkt í lýðræðinu
Schumpeter sá fyrir sér þróun sem gæti veikt ýmsar af stoðum lýðræðisins og var reyndar ekki einn um það. Það voru þættir eins og hnattvæðing, veikari stjórnmálaflokkar, íhlutunarsemi dómstóla, aukinn notkun þjóðaratkvæðagreiðslna, reglugerðafargan, aukið eftirlit og margvíslegar stýringaraðgerðir í samstarfi við ýmsa aðila sem sérhagsmuna eiga að gæta.
Leiðarahöfundur Economist telur sig sjá vísbendingar þess að lýðræðið virki síður en áður, jafnvel að það hökti alvarlega (dysfunctional). Helsta áhyggjuefni Platós varðandi fulltrúalýðræðið hafi snúist um að borgararnir myndu missa áhuga á stjórn landsins og lýðræðislega þátttaka drægist saman. Þeir myndu meira lifa frá degi til dags. Að hluta til má segja að þetta hafi birst í því að langtímahugsun hafi horfið. Við sjáum víða merki þess, bæði hjá þeim sem eru í stjórn og einnig hjá stjórnarandstöðunni. En alvarlegasti hluti málsins, að mati Economist, tengist sterkum vísbendingum um að óstöðugleiki sé nú að taka við í hinum áður stöðugu Vesturlöndum. Þetta sjáist víða á hinu pólitíska sviði og undir það er hægt að taka. Hver orsök þessa ástands raunverulega er, um það má án efa lengi deila en ýmsar skýringar hafa hér verið dregnar fram.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.