c

Pistlar:

11. maí 2017 kl. 16:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Véfréttin frá Omaha

Síðustu 10 til 15 árin hafa verið reglubundnar vangaveltur um hvað gerist þegar Warren Buffett hættir en hann stýrir einu stærsta fjárfestingafyrirtæki heims, Berkshire Hathaway. Buffett er án efa þekktasti fjárfestir heims og hefur haft gríðarleg áhrif á það hvernig menn horfa á fjárfestingar en í gegnum Berkshire Hathaway á hann í yfir 60 fyrirtækjum, sum þeirra eru meðal stærstu fyrirtækja heims.

Buffett er orðin 86 ára en lék á als oddi á nýjasta aðalfundi Berkshire Hathaway fyrir skömmu. Aðalfundir Berkshire Hathaway eru nánast eins og trúarsamkoma fjárfesta sem hópast gjarnan í kringum gamla manninn og á uppákomur honum tengdar. Fjölmiðlar láta fundinn heldur ekki framhjá sér fara og hverju orði sem kemur frá Buffeitt er endurvarpað til almennings. Enda er Buffett gjarnan kallaður véfréttin frá Omaha (e. Oracle of Omaha) en fundurinn er ávallt haldinn í Omaha í Nebraska þar sem hann býr enn í húsi því sem hann keypti árið 1958 fyrir 31.500 dali. Hann á reyndar líka 11 milljón dollara strandhús í Kaliforníu þannig að þægindi eru honum ekki alveg framandi.

Til Omaha koma tugir þúsunda manna til að hitta átrúnaðargoð sitt á samkomu sem Buffett kallar gjarnan Woodstock kapítalistana. Aðalfundurinn hefur verið haldinn með þessum hætti í 35 ár en á fyrsta fundinn mættu aðeins 15 manns. Fyrir fundinum liggur ávalt ítarleg skýrsla Buffetts til fjárfesta þar sem hann hlífir sér ekki. Fyrir fjórum árum var sagt frá fundinum á þessum vettvangi og þá voru að sjálfsögðu vangaveltur um að Buffett væri í þann mund að hætta enda hafði hann þá greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Enn er engan bilbug að finna á gamla manninum sem enn treystir að einhverju leyti á ráðgjöf Charles Munger, nánasta samverkamanns síns í gegnum árin en Munger er nú 93 ára!

Keypti fyrstu hlutabréfin 11 ára

Buffett er sonur fyrrverandi fulltrúadeildarþingmanns í Bandaríkjunum og keypti sitt fyrsta hlutabréf 11 ára gamall og taldi fyrst fram til skatts 13 ára gamall. Hann þótti einstaklega snjall þegar kom að tölum og gat lagt saman langar talnarunur í kollinum. Hann lagði stund á viðskiptafræði og hagfræði en kynnti sér um leið kenningar Benjamin Graham en bók hans, The Intelligent Investor, kom út 1949 og vakti mikla athygli. Buffett er talin eiga 75 milljarða Bandaríkjadala og er oftast næst á eftir vini sínum, Bill Gates, þegar kemur að reiknaðri auðlegð í heiminum. Buffett hefur ákveðið að gefa 99% auðs síns til góðgerðarmála og af venjulegri hagsýni þá ætlar hann að gera það að stórum hluta í gegnum stofnun Bill og Melindu Gates. Buffett er ekki að hugsa um hégómann sem fylgir því að hafa slíka stofnun í eigin nafni. Ásamt Gates hefur hann staðið fyrir framtaki (The Giving Pledge) sem ætlað er að hvetja aðra auðmenn til að verja fjármunum sínum til góðra málefna. Félagi hans, Charles Munger, hyggst einnig gefa stóran hluta af sínum auði.

Buffett er hins vegar hreinn og klár kapítalisti og er annt um ávöxtun fjármagns. Hann gerir kröfu til þess að fyrirtækin sem hann fjárfestir í séu vel rekin og með arðsömum hætti. Hann veit sem er, að það er forsenda raunverulegrar verðmætasköpunar. Vissulega er hann í aðstöðu til þess í dag að gera kröfur þegar hann fjárfestir. Það eitt að Buffett skoðar fyrirtæki með fjárfestingu í huga dugar vanalega til að lyfta gengi hlutabréfanna. Þegar bankakerfið byrjaði að hristast í mars 2008 fóru bandarískir ráðmenn fram á að hann kæmi inn í hluthafahóp Lehman Brothers fjárfestingabankans og töldu að það gæti hjálpað til við að bjarga bankanum. Óraunhæfar verðhugmyndir Richard Fuld, forstjóra Lehmans, fældu Buffett frá því að taka þátt í björguninni og einnig þótti honum sem stjórnendur bankans væru ekki tilbúnir að horfa á undirliggjandi vanda. Síðar keypti hann stóran hlut í Goldman Sachs og græddi vel á því. Buffett nýtir sér afl sitt til að fá gott verð og veit sem er að upphafsverðið getur ráðið úrslitum um árangur af fjárfestingunni. Hann kaupir því gjarnan skuldabréf með breytirétti og reiknar þá ávöxtun sem hann vill fá inn í verðið, í það minnsta ef einhver áhætta fylgir verkefninu.

Gríðarleg ávöxtun

Þeir sem fjárfestu í Berkshire Hathaway í upphafi fyrir eina milljón dala eiga nú 2.000 milljónir dala. Ekki ónýt ávöxtun það enda hefur Buffett sigrað allar kauphallarvísitölur í gegnum tíðina. Hann hefur ekki verið viljugur að greiða út arð og hluthafar hafa eðlilega ekki gert athugasemdir við það. Það er erfitt að finna betri fjárfestingu en í Berkshire Hathaway. Buffett hefur nálgast fjárfestingar sínar á auðskiljanlegan máta, hann segist einfaldlega ekki fjárfesta í fyrirtækjum eða starfsemi sem hann skilur ekki í. Þess vegna fjárfesti hann ekki í netbólunni á árunum í kringum 2000 og hann hefur forðast tæknifyrirtæki. Á sínum tíma héldu menn að töfrarnir væru horfnir þegar netbólan tryggði allskonar lukkuriddurum ofurávöxtun. En þegar bólan sprakk sýndu fyrirtæki með traust sjóðstreymi úr hverju þau voru gerð. Hann hefur fjárfest samviskusamlega í fyrirtækjum eins og Coca-Cola, Gillette, American Express, Geico, Duracell, The Washington Post og Dairy Queen, svo fáein séu talinn. Þá er ótalin aðkoma hans að tryggingafyrirtækjum en hann hefur löngum haft mikinn áhuga á slíkri starfsemi og náð þar góðum árangri. Buffett er duglegur að „plögga” eigin fyrirtæki og sést helst ekki öðru vísi en með Coca-Cola flösku í hendinni.

Dr. Már Mixa fjármálafræðingur hefur í gegnum tíðina verið duglegur að kynna aðferðafræði og hugmyndir Buffetts sem hefur sjálfur verið duglegur að gagnrýna eigin mistök. Nú á aðalfundinum játaði hann til dæmis að það hefðu líklega verið mistök að fjárfesta í Wells Fargo og IBM en Berkshire Hathaway er nú að selja bréf sín í IBM með nokkru tapi. Einnig játar hann ákveðna skammsýni þegar kemur að tæknifyrirtækjum nútímans, svo sem Amazon, Faceook og Google en hann hefur ekki viljað fjárfesta í þessum félögum sem með tímanum hafa orðið lykilfyrirtæki í bandarísku efnahagslífu. Engin er óskeikull.

Áhugasamur um þjóðmálaumræðuna

Stærð Berkshire Hathaway er með þeim hætti að það er nokkurn veginn sama hvar það hreyfir sig, viðskiptin eru risavaxinn. Buffett hefur alltaf haft tilhneigingu til að safna sjóðum og tekur helst ekki lán fyrir fjárfestingum. Þetta kom sér vel í lausafjárkreppunni 2008 en þá renndu margir hýru auga til fjárfestingagetu Berkshire Hathaway. Í dag situr félagið á 85 milljörðum dala og ljóst að það getur látið til sín taka í fjárfestingum með eftirminnilegum hætti. Buffett taldi nauðsynlegt að líta út fyrir Bandaríkin fyrir nokkru en fjárfestir helst ekki í öðrum löndum. Hann hefur ítrerkað gagnrýnt vogunarsjóði og segist ekkert hafa að gera við oflaunaða ráðgjafa fjárfestingabankanna. Einu ráðgjafarnir sem hann hlustar á eru skattaráðgjafar en hann vill eðlilega ekki borga meira en nauðsynlegt er í skatta. Hann hefur þó talað fyrir því að skattar séu miðaðir við að þeir sem betur meigi sín borgi þá. Buffett reynir gjarnan að koma jákvæðum skilaboðum til landa sinna í bland við viðvörunarorð. Hann hefur styrkt verkefni sem ætlað er að efla lýðræði og var áberandi í stuðningsmannahópi Hillary Clinton í forsetakosningunum 2016. Í kosningabaráttunni skoraði hann meðal annars á Donald Trump að hitta sig og þeir gætu skipst á skattaframtölum! Trump svaraði ekki áskoruninni. Með lífi sínu hefur Warren Buffett reynst mikilvæg fyrirmynd í mörgu sem skiptir sífellt meira máli í heimi sem stýrist af græðgi og öfund.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.